Efnisyfirlit

Kjarasamningur milli SSÍ og SFS

Hér má sækja kjarasamninginn á PDF formi.      Kjarasamningurinn 18. febrúar 2017 á PDF formi.

 

I. kafli

ALMENN ÁKVÆÐI

1.01. Gildissvið samningsins

Samningur þessi gildir fyrir öll skip sem gerð eru út til eftirgreindra veiða og tekur til allra slíkra skipa, sem útgerðarmenn, er að samningi þessum standa eiga, leigja eða hafa að öðru leyti útgerðarstjórn á.

 

1.02. Skipting hlutar og kauptryggingar

Aldrei skal skipt í fleiri staði en menn eru á skipi í hverri veiðiferð.
Forfallist skráður skipverji, skal kauptrygging hans skiptast milli þeirra manna, sem þann róður fara.

Veikist skipverji skal reikna hlut þeirra sem fara veiðiferðina eins og um væri að ræða fækkun, en hlut þess sem vantar skal reikna m.v. mönnun að honum meðtöldum.

 

1.03. Hækkun kaupliða

Þann 1. febrúar 2017 verður kauptrygging háseta kr. 288.168, kauptrygging matsveins, fyrsta og annars vélstjóra og vélavarðar, bátsmanns og netamanns kr. 360.210 og yfirvélstjóra kr. 432.252. Aðrir launaliðir en starfsaldurálag og tímakaup hækka um 9,6%. Mánaðarlaun aðstoðarmanns í eldhúsi á frystitogurum verða kr. 328.334.

Þann 1. maí 2017 verður kauptrygging háseta kr. 301.136, kauptrygging matsveins, fyrsta og annars vélstjóra og vélavarðar, bátsmanns og netamanns kr. 376.420 og yfirvélstjóra kr. 451.704. Aðrir launaliðir en starfsaldurálag og tímakaup hækka um 4,5%. Mánaðarlaun aðstoðarmanns í eldhúsi á frystitogurum verða kr. 343.109.

Þann 1. maí 2018 verður kauptrygging háseta kr. 310.170, kauptrygging matsveins, fyrsta og annars vélstjóra og vélavarðar, bátsmanns og netamanns kr. 387.713 og yfirvélstjóra kr. 465.255. Aðrir launaliðir en starfsaldurálag og tímakaup hækka um 3,0%. Mánaðarlaun aðstoðarmanns í eldhúsi á frystitogurum verða kr. 353.402.

Þann 1. maí 2019 verður kauptrygging háseta kr. 326.780, kauptrygging matsveins, fyrsta og annars vélstjóra og vélavarðar, bátsmanna og netamanns kr. 408.476 og yfirvélstjóra kr. 490.170. Mánaðarlaun aðstoðarmanns í eldhúsi á frystitogurum verða kr. 371.072.

Tímakaup skal miðast við deilistuðulinn 173,33 í kauptryggingu. (Aðrar deilitölur hjá vélstjórum).

Sérstök kaupskráruppbót

Útgerð skal greiða skipverja sérstaka kaupskráruppbót, kr. 300.000 með orlofi, miðað við 180 lögskráningardaga eða fleiri árið 2016. Uppbót þessi skal greidd skipverja sem var í starfi hjá útgerð árið 2016 og kemur aftur til starfa hjá útgerð ekki síðar en 30. apríl 2017. Séu lögskráningardagar árið 2016 færri, greiðist fjárhæðin hlutfallslega. Gjalddagi kaupskráruppbótar skal vera sem hér segir:

  • Gjalddagi hinn 1. apríl 2017 komi skipverji aftur til starfa hjá útgerð frá gildistöku kjarasamnings þessa til 31. mars 2017.
  • Gjalddagi hinn 1. maí 2017 komi skipverji aftur til starfa hjá útgerð frá 1. apríl til 30. apríl 2017.

 

1.04. Kauptrygging

Útgerðarmaður skal tryggja skipverjum lágmarkskaup fyrir hvern mánuð (30 daga) af lögskráningatímanum sem hér segir m.v. 1. febrúar 2017:

a) Háseti.......................................... kr. 288.168 
b) Netamaður................................. kr. 360.210 
c) Bátsmaður.................................. kr. 360.210 
d) 1. og 2. vélstjóri/vélavörður...... kr. 360.210 
e) Yfirvélstjóri................................ kr. 432.252

Skipverji skal fá greidda kauptryggingu mánaðarlega. Heimilt er skipverja að semja um annað fyrirkomulag.

 

1.05. Tímakaup

Í þeim tilvikum að greitt er tímakaup sbr. kjarasamning, þ.e. þegar ekki er greiddur aflahlutur eða kauptrygging skal eftirfarandi launatafla gilda frá 1. febrúar 2017.

                           Dagvinna     Yfirvinna     Vikukaup
                           pr. klst.        pr. klst.       m.v. 40 klst.
Yfirvélstjóri           2.908,-        5.234,-         116.320,-
1. vélstjóri             2.714,-        4.885,-         108.560,-
2. vélstjóri             2.714,-        4.885,-          74.560,-
Vélavörður            2.421,-        4.358,-          96.840,-
Matsveinn             2.078,-        3.740,-          83.120,-
Netamaður           2.078,-        3.740,-          83.120,-
Bátsmaður            2.078,-        3.740,-          83.120,-
Háseti                   1.663,-        2.993,-          66.520,-

Gegni vélstjóri yfirvélstjórastörfum við viðgerðir, skal honum greitt yfirvélstjórakaup þann tíma.

 

1.06. Aukagreiðslur

a) Yfirvélstjóri/vélavörður (1. maður í vél) skal hafa 1 1/2 hásetahlut.
b) I. vélstjóri/vélavörður (2. maður í vél) skal hafa 1 1/4 hásetahlut.
c) II. vélstjóri/vélavörður (3. maður í vél) skal hafa 1 1/8 hásetahlut.
d) Netamaður á togbát skal hafa 1 1/4 hásetahlut.
e) Netamaður á skuttogara skal hafa 1 1/8 hásetahlut.
f) Bátsmaður skal hafa 1 1/5 hásetahlut.
g) Matsveinn skal hafa 1 1/4 hásetahlut.
h) Umsjónarmaður fiskvinnsluvéla á frystiskipum skal hafa 1 1/16 hásetahlut.
i) Vinnslustjóri, matsmaður skal hafa 24.154.- kr/mán. auk hlutar síns.

 

1.07. Öryggis- og hlífðarfatnaður.

Útgerð skal láta skipverjum í té nauðsynlegan öryggis- og hlífðarfatnað. Hlífðarfatnaður er eign útgerðar, en til afnota fyrir skipverja. Skipverjum ber að fara eftir þeim reglum sem útgerð setur í þessu skyni. Láti skipverji af störfum skal hann skila öllum hlífðarfatnaði til útgerðar.

Með nauðsynlegum hlífðarfatnaði, er átt við að sá hlífðarfatnaður sem skipverji fær til afnota skal miðast við eftirgreint magn að hámarki á skipaflokk ár hvert:

  • Vinnsluskip og ísfisktogarar þegar skipverjar þurfa að skipta um öryggishlífðarfatnað þegar þeir vinna á millidekki. Til viðmiðunar er: jakki 2 stk., buxur 6 stk., vinnuflotgalli (annað hvert ár), stígvél 3 pör, vettlingar 50 pör.
  • Önnur skip til viðmiðunar: jakki 1 stk., buxur 2 stk., vinnuflotgalli (annað hvert ár), stígvél 2 pör, vettlingar 20 pör.

 

Grein þessi tekur gildi 1. maí 2017.

 

1.08. Starfsaldursálag

Skipverjar sem starfað hafa eftir samningum SSÍ samfellt í 2 ár hjá útgerðum innan LÍÚ skulu fá starfsaldursálag, sem nemur 2% af kauptryggingu. Starfsaldursálagið skal greitt án tillits til hlutaskipta og greiðast við launauppgjör hvers kauptryggingartímabils. Eftir 3ja ára starf hjá sömu útgerð hækkar starfsaldursálagið í 4% af kauptryggingu. Skipverjar skulu þó halda réttindum til 4% starfsaldursálags hefji þeir starf hjá sömu útgerð innan 5 ára frá því þeir voru síðast í ráðningu hjá útgerðinni.

 

1.09. Fæði

Útgerð skal láta skipverjum fullt fæði í té endurgjaldslaust.

 

1.10. Tryggingartímabil

Hver almanaksmánuður er sérstakt kauptryggingartímabil.

Hefji skip veiðar eftir 15. hvers mánaðar og nái aflahlutur ekki kauptryggingu á næstu mánaðamótum, þá skulu þeir dagar teljast með kauptryggingartímabili næsta mánaðar á eftir.

Á öllum skipum sem selja afla á erlendum markaði telst hver veiðiferð (söluferð) sérstakt kauptryggingartímabil.

Nýtt kauptryggingartímabil tekur ekki gildi, þótt skipt sé um veiðarfæri.

Heimilt er að ráðningartími skipverja sé ákveðinn við ráðningu, enda sé það tekið fram við lögskráningu hverju sinni.

Stöðvist skip annað en skuttogari af öðrum ástæðum en þeim að veður hamli veiðum, skal greiða viðkomandi skipverjum tímakaup samkv. launatöflu fyrir þá daga sem eru umfram 8, miðað við 40 stunda vinnuviku, enda hafi ráðningu eigi verið slitið. Greiðsla þessi kemur til viðbótar við aflahlut, ef um hann er að ræða á viðkomandi kauptryggingartímabili, en fellur niður ef aflahlutur nær ekki kauptryggingu.

Sé skip á veiðum, þegar nýtt kauptryggingartímabil hefst, skal afli þeirrar veiðiferðar skiptast á milli tímabila á þann hátt, að afla skal skipta jafnt á hvern dag frá því að skipið fór á veiðar, og þar til það kemur úr veiðiferð á ný.

Á skuttogurum telst hver veiðiferð sérstakt kauptryggingartímabil.

Ferðir til veiða utan efnahagslögsögu Íslands úr stofnum sem ekki eru íslenskir deilistofnar eru sérstakt kauptryggingartímabil og teljast því ekki til sama kauptryggingartímabils og aðrar veiðar skipsins.

Tryggingatímabil gilda ekki gagnvart afleysingamönnum.

Sé ráðinn afleysingamaður og hafi hann verið lögskráður sem yfirmaður hjá sömu útgerð samfellt í 7 mánuði á undangengnum 12 mánuðum með eðlilegri fríatöku, öðlast hann öll þau réttindi sem fastráðinn væri, enda hafi hann full réttindi til að gegna viðkomandi stöðu.

 

1.11. Uppsagnarfrestur

Sé eigi á annan veg samið skal uppsagnarfrestur á skiprúmsamningum undirmanna vera 7 dagar, en 3 mánuðir hjá yfirmönnum.

Hafi undirmaður starfað á sama skipi eða hjá sömu útgerð samfellt í 3 mánuði skal upppsagnarfresturinn vera einn mánuður en eftir a.m.k. 2 ára samfellt starf er uppsagnarfrestur 2 mánuðir og 3 mánuðir eftir 4 ára samfellt starf.

Hafi yfirmaður starfað hjá sömu útgerð samfellt í 3 ár er uppsagnarfrestur 4 mánuðir, en 5 mánuðir eftir 5 ára samfellt starf og 6 mánuðir eftir 10 ára samfellt starf.

Uppsagnarfresturinn skal vera gagnkvæmur.

Um laun í uppsagnarfresti skal fara eftir ákvæðum laga og kjarasamnings.

Ef skipi er ekki haldið til veiða á uppsagnarfresti eða afhent nýjum eiganda fyrir lok uppsagnarfrests, skal greiða skipverja laun eftir ákvæðum laga og kjarasamnings þessa, þó þannig að eftir að einn mánuður er liðinn af uppsagnarfresti undirmanna og þrír mánuðir af uppsagnarfresti yfirmanna skal greidd kauptrygging. Sama gildir ef vinnuframlags er ekki krafist. Ef skipverja er tilkynnt síðar en við uppsögn að vinnuframlags sé ekki krafist út uppsagnarfrestinn og skip er áfram í rekstri sömu útgerðar skal skipverji eiga rétt á staðgengislaunum í allt að 3 mánuði frá því að tilkynning berst honum og styttist þá réttur hans til kauptryggingar samsvarandi. Sömu ákvæði gilda um undirmenn að teknu tilliti til lengdar uppsagnarfrests. (Sjá dæmi í viðauka nr.1)

Ef skipi er ekki haldið til veiða af útgerð skal skipverji eiga rétt til þess að losna úr skiprúmi, enda falli þá réttur til launa niður.

Fari skipverji fyrirvaralaust úr starfi áður en uppsagnarfrestur er liðinn án lögmætrar ástæðu á útgerðarmaður rétt á bótum úr hendi skipverja er nemi launum fyrir hálfan uppsagnarfrestinn, þó aldrei lægri upphæð en sem nemur kauptryggingu á uppsagnarfrestinum.

 

1.12. Uppgjör

Útgerðarmaður skal hafa lokið launauppgjöri og launagreiðslu til skipverja eigi síðar en 15 dögum eftir lok kauptryggingartímabils. Þó skal greiða kauptryggingu vikulega.

Afleysingamenn skulu fá bráðabirgðauppgjör, þegar þeir fara úr skipsrúmi og fullnaðaruppgjör svo fljótt sem hægt er.

Frestur á uppgjöri siglingaskipa skal þó ekki vera lengri en 15 dagar, talið frá söludegi.

Í uppgjöri skal aflamagn og aflaverðmæti greinilega sundurliðað á skiptareikningi hvers skipverja.

Uppgjör á vinnsluskipum skal miðað við kaupgengi Seðlabanka Íslands eða viðskiptabanka viðkomandi útgerðar á gjaldeyri á þeim degi sem löndun hefst.

Ef gengi fyrsta löndunardags víkur meira en 5% frá meðalgengi þess dags og næstu fjögurra virku daga, eiga áhöfn og útgerð rétt á að miða við meðalgengi þeirra daga allra.

Heimilt er útgerð að miða uppgjör við meðalgengi gjaldeyris á löndunardegi og næstu fjögurra virku daga enda sé það almennur uppgjörsmáti. Breyting á verklagi uppgjörs skal tilkynnt með að minnsta kosti tveggja mánaða fyrirvara.

 

1.13. Uppihald og ferðir þegar skip er í viðgerð

Þegar skip er í viðgerð innanlands eða erlendis og eigi er fyrir hendi eitthvað af eftirtöldum atriðum: Salernis-, eldunar- eða upphitunaraðstaða, eða um borð er of mikill hávaði, mengun eða óþrifnaður, skal skipverjum séð fyrir góðum vistarverum í landi. Skal þeim er vinna við skipið erlendis séð fyrir ferðum að og frá skipi, sér að kostnaðarlausu.

Sé skip til viðgerðar eða breytinga utan heimahafnar, innanlands eða erlendis, skal útgerðin, ef hún sér skipverjum ekki fyrir gistingu og fæði, greiða þeim dagpeninga, eins og þeir eru ákveðnir hverju sinni „vegna þjálfunar náms eða eftirlitsstarfa“ samkvæmt skattmati ríkisskattstjóra.

Ef útgerð sér skipverjum annað hvort fyrir fæði eða fyrir gistingu skal greiða skipverjum hálfa dagpeninga.

 

1.14. Frí um jól, áramót og sjómannadag

Öll fiskiskip skulu liggja í höfn um sjómannadag og hafa komið til hafnar eigi síðar en kl. 12.00 á hádegi á laugardegi fyrir sjómannadag og láta ekki úr höfn fyrr en kl. 12.00 á hádegi næsta mánudag. Samfellt frí í tengslum við sjómannadag skal þó vera 72 klst. og telst það til innunninna fría skv. samningi þessum. Skipverjar skulu ekki vera skyldir til vinnu á framangreindu tímabili nema öryggi skipsins sé í hættu. Að öðru leyti fer um frí á sjómannadaginn eftir því sem segir í lögum nr. 20/1987.

Á skipum sem stunda veiðar eftir samningi þessum skal skipverjum tryggt hafnarfrí frá kl. 12.00 á hádegi á Þorláksmessu til kl. 24.00 annan í jólum og frá kl. 16.00 á gamlársdag til kl. 24.00 á nýársdag. Hafnarfrí um jól er heimilt að telja sem 30 klst. í lágmarkshafnarfríum samkvæmt kjarasamningi, en áramótafríið skal vera viðbót við lágmarkshafnarfrí samkvæmt kjarasamingi.

Ákvæði um frí um sjómannadagshelgina og um jól og áramót eru frávíkjanleg ef um er að ræða skip sem ætlað er að sigla með afla sinn á erlendan markað, enda sé skipshöfn kunn sú fyrirætlan áður en veiðiferð hefst. Sé siglt á sjómannadegi eða jólum skulu skipverjar fá 36 klst. frí til viðbótar samningsbundnu lágmarksfríi að siglingu lokinni.

 

1.15. Frítökur á fiskiskipum.

Hafi skipverji í hyggju að taka frí frá störfum, skal hann bera fram ósk sína þar að lútandi við skipstjóra, áður en skipið kemur til hafnar í lok veiðiferðar. Að öðru leyti vísast til 18. gr. sjómannalaga nr. 35/1985.

 

1.16. Vinna og hafnarleyfi, þegar siglt er með aflann

Nú siglir skip með afla til sölu á erlendan markað, og fer þá um vinnu og hafnarfrí samkvæmt ákvæðum greinar þessarar.

Sigli skip með fisk á erlendan markað skulu þeir skipverjar, er veiðiferðina fara, hafa 48 klst. hafnarfrí í heimahöfn að lokinni söluferð. Ákvæði þetta tekur ekki til síldar og loðnuveiða, né skuttogara og vinnsluskipa.

Þegar skip siglir með afla til sölu erlendis er skipverjum ekki skylt að annast uppstillingu í lest þar, en skipverji skal leiðbeina við það verk.

Skipverjar eru eigi skyldir til að annast þvott lestar eða lestarborða, en annast skulu þeir móttöku nauðsynja fyrir skipið.

Í erlendri höfn skal varðmaður úr landi vera í skipinu fyrsta sólarhringinn, sem skipið liggur þar. Sé skipið lengur en einn sólarhring í erlendri höfn, skulu skipverjar annast vaktir.

 

1.17. Greiðslur vegna ófyrirséðra tafa í siglingu

Verði skip fyrir ófyrirséðum töfum í ferðinni (siglingunni) af völdum sjótjóns, vélarbilunar eða af öðrum orsökum en veðurs, sem nemur meira en 4 sólarhringum samanlagt í ferð, eftir að löndun er lokið, skal undirmönnum greiddar bætur vegna tafa, sem nemur 8 klst. dagvinnukaupi á dag samkvæmt launatöflu, uns skipið kemur aftur til heimahafnar. Vinna umfram 8 klst. á virkum dögum og vinna á laugar- og helgidögum greiðist með yfirvinnukaupi.

 

1.18. Greiðslur vegna fyrirfram ákveðinnar viðgerðar í siglingu.

Sigli skip með afla á erlendan markað og fari síðan í fyrirfram ákveðna viðgerð eða breytingu, telst veiðiferð (kauptryggingatímabili) lokið 4 sólarhringum eftir löndunardag.

Þeir skipverjar sem söluferðina fara, skulu fá greidda kauptryggingu að loknum 4 sólarhringum eftir löndunardag gegn viðveruskyldu, uns skipið kemur til útgerðarstaðar. Vinna umfram 8 klst. á virkum dögum og vinna á laugar- og helgidögum á meðan skip er í slipp eða í viðgerð greiðist með yfirvinnukaupi.

Þeir skipverjar sem ekki fara söluferðina skulu fá greidda kauptryggingu að loknum 13 sólarhringum eftir löndunardag, enda hafi skipverjum ekki verið sagt upp eða settir í orlof sbr. orlofslög. Gegn greiðslu kauptryggingar hafi skipverjar vinnuskyldu, samkvæmt beiðni, við búnað og veiðarfæri skips m.v. 8 klst. á dag.

Að loknu hafnarfríi fer með kaupgreiðslu og vinnu eins og segir í viðeigandi ákvæðum kjarasamnings.

 

1.19. Vélstjórar

Vélstjórar á skipum sem stunda veiðar eftir samningi þessum, skulu fá kr. 4.842.- í kaup á mánuði.

Verði sjótjón eða vélarbilun meðan á veiðitímabilinu stendur og þurfi vélstjórar að vinna við skipið, skal þeim greitt tímakaup skv launatöflu (dagvinnukaup) eftir að þeir hafa unnið í samtals 8 klst. við viðgerð, þó hálfu skemmri tíma á landróðrarbátum. Vélstjórum skal tryggð 8 klst. hvíld á sólarhring.

Vélstjórum skal tryggð minnst 8 stunda vinna á dag milli veiðitímabila, enda séu þeir ráðnir til áframhaldandi starfs á skipinu og viðkomandi vélstjóri óski vinnunnar.

Vinni vélstjórar fyrir og eftir vertíð við hreinsun eða viðgerð vélar, skulu þeir hafa tímakaup skv. launatöflu (dagvinnukaup).

Annist vélstjóri vélgæslu ólögskráður á frídögum sínum, skal útgerðarmaður greiða honum sem nemur 3. tíma vinnu á dag, og skal miða við helgidagakaup.

Fari vinna þessi fram utan heimahafnar skipsins, greiðir útgerðarmaður auk þess uppihald og ferðir vélstjóra.

2. vélstjóri á vinnsluskipi, skal hafa 1 1/5 hásetahlut, enda hafi hann vélstjóraréttindi til starfsins.

1.20. Matsveinar

Á skipum þeim, sem samningur þessi nær til og stunda þær veiðar, sem um getur, skal vera matsveinn. Hann skal hafa 1 1/4 hásetahlut fyrir störf sín sem matsveinn, enda skal hann hafa tiltækan mat, sem skipverjar hafa aðgang að þegar skipið er í heimahöfn.

Á skipum sem stunda loðnu og síldveiðar, ber matsveini að elda í höfn, er skipverjar eru um borð, þó ekki í heimahöfn, nema skipverjar séu við vinnu um borð.

Matsveini skal á sama hátt og öðrum skipverjum vera tryggt helgarfrí. Einnig skal hann hafa hafnarfrí, þegar afla er landað úr útilegubátum, nema þegar skipshöfn landar sjálf, enda fái hann sömu greiðslur og aðrir skipverjar.

Í erlendri höfn skal matsveinn eiga frí einn dag. Stöðvist skip lengur en 4 daga erlendis, skal greiða honum kr. 4.659 á dag.

Matsveini ber að halda hreinum matsal og eldhúsi skipsins.

Allir fæðisreikningar skulu vera viðurkenndir af matsveini. Matsveini er skylt að sjá til þess að innkaup á matvörum séu gerð með sem hagkvæmustum hætti.

1.21. Slysa og veikindabætur skipverja

Um slys og veikindi skipverja fer skv. 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985.

Þurfi skipverji að gangast undir aðgerð, sem læknisfræðilega telst nauðsynleg til að draga úr eða eyða varanlegum afleiðingum vinnuslyss, skal hann njóta réttar til kauptryggingar í allt að tvo mánuði, eins og um slys væri að ræða, enda þótt hann hafi notið fulls forfallakaups vegna slyssins sjálfs.

Verði skipverji óvinnufær af völdum veikinda eða meiðsla, skal hann tilkynna það svo fljótt sem verða má skipstjóra eða útgerðarmanni. Skipverja ber að leita læknis svo fljótt sem verða má og hann telur sig óvinnufæran og þegar skip kemur að landi. Skal skipverjinn skila læknisvottorðinu til útgerðarmannsins svo fljótt sem verða má. Útgerðin skal greiða kostnað vegna öflunar læknisvottorða.

Skipverji, sem verður óvinnufær, skal tilkynna skipstjóra eða útgerðarmanni strax, þegar hann er orðinn vinnufær að nýju.

1.22. Réttur til launa vegna veikinda barna

Eftir fyrsta starfsmánuð er skipverja heimilt að verja allt að 7 dögum á kauptryggingu á hverju 12 mánaða tímabili til aðhlynningar sjúkum börnum sínum undir 13 ára aldri, enda verði annarri ummönnun ekki við komið.

Eftir eins árs starf á sama skipi eða hjá sömu útgerð er skipverja með sama hætti heimilt að verja samtals 10 dögum á kauptryggingu til aðhlynningar börnum sínum undir 13 ára aldri.

Með börnum er einnig átt við fósturbörn og börn sem eru á framfæri viðkomandi skipverja.

Greiðslur skv. framansögðu koma því aðeins til ef viðkomandi skipverji missir sannanlega af launum vegna nauðsynlegrar ummönnunar barna sinna.

1.23. Slysatryggingar

Útgerðin skal tryggja hvern þann mann sem samningur þessi nær til og slasast um borð í skipi eða í vinnu í beinum tengslum við rekstur skips í samræmi við ákvæði 172. gr. laga nr. 34/1985.

Bætur úr vátryggingu þessari skulu ákvarðast á grundvelli reglna skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum leiði það til hærri heildarbóta en samkvæmt 172. gr. laga nr. 34/1985.

Bætur úr vátryggingu þessari dragast frá skaðabótum frá útgerð.

Skaðabætur frá bótaskyldum þriðja aðila eða samkvæmt ábyrgðartryggingu koma til frádráttar bótum samkvæmt vátryggingu þessari.

Um vátryggingu þessa skulu að öðru leyti gilda almennir skilmálar fyrir slysa¬tryggingu sjómanna.

Bætur má lækka eða fella niður ef tjónþoli hefur valdið slysi af ásetningi eða stórkost¬legu gáleysi.

Eigi tjónþoli rétt til bóta úr lögboðinni ábyrgðartryggingu ökutækis eða slysa¬tryggingu ökumanns og eigenda, skerðast bætur úr þessari vátryggingu sem því nemur.

Kostnaðarhlutdeild hinna tryggðu skal vera kr. 5.073 á mánuði og hlutfallslega fyrir brot úr mánuði. Þessi fjárhæð taki sömu breytingum og kauptrygging tekur á hverjum tíma. Kostnaðarhlutdeildin skal vera óháð stöðu hins tryggða um borð.

Framangreind ákvæði þessarar greinar skulu jafnframt gilda á skipum, sem stunda veiðar með handfærum og lögskráð er á, svo og á skipum, sem lögskráð er á til annarra veiða, er upp kunna að verða teknar á samningstímanum, en ekki eru tilgreindar í samningi þessum.

1.24. Bætur vegna andláts skipverja

Veikist skipverji um borð í skipi sínu meðan skip hans er á siglingu og leiði veikindin hann til dauða innan tveggja mánaða skal útgerðarmaður greiða kr. 6.335.398 (m.v. verðlag janúar - mars 2017) til eftirlifandi maka eða eftirlifandi barna innan 18 ára aldurs. Með maka er hér einnig átt við sambúðarmann eða sambúðarkonu samkv. reglum Tryggingastofnunar ríkisins, sbr. lög nr. 117/1993, 44. gr. um almannatryggingar. Láti skipverjinn ekki eftir sig maka eða börn skv. framansögðu skal greiða til dánarbús hins látna helming dánarbóta samkv. fyrri málsgrein.

Útgerðarmaður skal í þessu skyni kaupa tryggingar, er breytast ársfjórðungslega í sama mæli og vátryggingarfjárhæðir skv. 172 gr. siglingalaga. Tryggingarfjárhæðin lækkar þó um 4% fyrir hvert aldursár eftir að hinn tryggði nær fimmtíu ára aldri og fellur niður eftir að hann nær sjötíu ára aldri. Um trygginguna gilda eftir því sem við á að öðru leyti, skilmálar líftrygginga félaganna fyrir hóplíftryggingar.

1.25. Orlofsfé

Orlofsfé skal vera 10.17%. Eftir 10 ára starf á sama skipi eða hjá sama vinnuveitanda hækkar orlofsfé í 11,59%. Eftir 15 ára starf á sama skipi eða hjá sama vinnuveitanda hækkar orlofsfé í 13,04%. Að öðru leyti fer um orlof samkvæmt lögum. Útgerðarmaður og skipstjóri skulu sýna fyllstu lipurð varðandi sumarleyfi skipverja.

Skipverji sem öðlast hefur aukinn orlofsrétt hjá sama vinnuveitanda eða á sama skipi öðlast hann að nýju eftir 3 ár hjá nýjum vinnuveitanda, enda hafi rétturinn verið staðreyndur af vinnuveitanda.

1.26. Greiðslur í lífeyrissjóð

Greiða skal iðgjald til Lífeyrissjóðs sjómanna af launum allra þeirra sem ráðnir eru á íslensk skip, einnig af launum þeirra sem starfa að viðhaldi skips eða öðrum störfum í þágu útgerðar. Einnig skal greiða iðgjald til sjóðsins af launum íslenskra sjómanna sem ráðnir eru á útlend skip, enda séu þau gerð út af íslenskum aðilum og ráðningarkjör séu skv. íslenskum samningum. Heimilt er að fullnægja iðgjaldsskyldu með greiðslu lífeyrisiðgjalds til þeirra landshlutasjóða, sem við gildistöku samnings þessa hafa tekið við lífeyrisiðgjöldum sjómanna.

Iðgjaldsgreiðslur til lífeyrissjóðs skulu vera 12% af öllum launum. Skulu útvegsmenn greiða 8% en sjómenn 4%.

Greiða skal iðgjald af orlofsfé.

Þegar skipverji leggur til 2% eða hærra viðbótarframlag af öllum launum í séreignarsjóð greiðir úrgerðarmaður 2% mótframlag af öllum launum .

1.27. Áhöld, hreinlætisvörur o.fl.

Skipverjar hafa frítt eldsneyti til matreiðslu og upphitunar, öll áhöld til borðhalds, hreinlætistæki og hreinlætisvörur. Útgerðir skuttogara skulu leitast við að hafa hlífðarföt á heildsöluverði.

1.28. Sala aflans

1.28.1. Almennt

Útgerðarmaður hefur með höndum sölu aflans og hefur til þess umboð áhafnar að því er aflahlut hennar varðar. Hann skal tryggja skipverjum hæsta gangverð fyrir fiskinn, þó aldrei lægra en útgerðarmaður fær, þar með talin hrogn, lifur og bein. Ekki er heimilt að draga frá heildarverðmæti afla kostnað vegna kaupa á veiðiheim¬ildum, sbr. 1. gr. laga nr. 24/1986, sbr 10. gr. laga nr. 79/1994 um breytingu á lögum nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun með síðari breytingum.

Eftirfarandi ákvæði eiga ekki við í þeim tilvikum, þegar afli er seldur á innlendum eða erlendum uppboðsmarkaði.

Útgerðarmaður skal hafa samráð við fulltrúa, sem kjörinn er af áhöfn í einfaldri kosningu, um áformaða sölu aflans fyrir a.m.k. mánuð í senn, og gera honum grein fyrir fyrirliggjandi upplýsingum um sölu og fiskverð. Tilkynna ber útgerð um hver sé kosinn trúnaðarmaður skipverja hverju sinni. Trúnaðarmaður skipverja skal hafa aðgang að samningum, reikningum og öðrum gögnum sem liggja til grundvallar verði einstakra fisktegunda, óski hann sérstaklega eftir því.

Við upphaf vertíðar í loðnu, kolmunna, makríl og síld, skulu fulltrúar útgerða halda fund með fulltrúum sjómanna sem eru í úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna og starfsmönnum Verðlagsstofu skiptaverðs.

Útgerðarmaður og áhöfn skulu gera sín í milli samning um fiskverð, þegar útgerð selur afla til eigin vinnslu, þ.e.a.s. í viðskiptum milli skyldra aðila. Til að slíkur samningur öðlist gildi, skal hann staðfestur í leynilegri atkvæðagreiðslu áhafnar og að því loknu undirritaður af fulltrúum áhafnar og útgerðar. Samningurinn skal vera í stöðluðu formi, þar sem fram komi m.a. verð einstakra fisktegunda, stærð, gæði, markaðs- og gengisviðmið og áætlun ráðstöfun, gildistími og uppsagnarákvæði o.s.frv.

Telji meirihluti áhafnar að samningur um fiskverð sé í andstöðu við kjarasamning þennan, skal leita úrskurðar úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna. Með skyldum aðilum er átt við að útgerð og vinnsla séu í ráðandi eigu sömu aðila.

1.28.2. Verðlagsstofa skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna

Samkvæmt lögum nr. 13/1998 hefur Verðlagsstofa skiptaverðs það hlutverk að fylgjast með fiskverði og uppgjöri á aflahlut sjómanna og stuðla að réttu og eðlilegu uppgjöri á aflahlut. Við reglulega upplýsingagjöf til Verðlagsstofu vegna þessa skal styðjast við staðlað form sem úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna hefur samþykkt.

Verðlagsstofa skiptaverðs annast rannsókn einstakra mála. Óski Verðlagsstofa skiptaverðs eftir gögnum frá aðilum, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 13/1998, munu aðilar leggja sig fram um að veita allar þær upplýsingar sem óskað er eftir, eins fljótt og kostur er.

Úrskurðarnefndin er skipuð þremur fulltrúum frá hvorum aðila og oddamanni sem skipaður er af sjávarútvegsráðherra að höfðu samráði við samningsaðila. Nefndin skal láta í té rökstutt álit á því hvort tillaga að fiskverði víki frá því sem algengast er við sambærilega ráðstöfun aflans. Skal þá taka tillit til fiskverðs í nærliggjandi byggðarlögum fyrir sambærilegan fisk að stærð og gæðum svo og horfa á þróun afurðaverðs og þá m.a. styðjast við tiltækar upplýsingar um fiskverð sem unnar eru fyrir samningsaðila af Verðlagsstofu skiptaverðs. Náist ekki samkomulag milli fulltrúa samtaka sjómanna og útvegsmanna í úrskurðarnefndinni innan 14 daga frá því mál er lagt fyrir hana, skal kveðinn upp úrskurður innan 7 daga og gildir hann þá frá því nefndinni barst málið til úrlausnar. Samkomulag eða úrskurður nefndarinnar skal gilda í allt að 3 mánuði eftir nánari ákvörðun hennar. Samkomulag eða úrskurður nefndarinnar er bindandi fyrir aðila á gildistímanum og skal lúta almennum réttarfarsreglum um samningsbundna gerðardóma, sbr. lög nr. 53/1989.

1.28.3. Ráðstöfun afla í skiptum milli óskyldra aðila

Þegar afli er seldur milli óskyldra aðila, skal skipt úr því verði sem fyrir aflann fæst hverju sinni, sbr. 1 mgr. I. kafla. Ef afli er seldur beint milli óskyldra aðila án milligöngu innlendra eða erlendra fiskmarkaða, getur áhöfn krafist samnings um uppgjörsverð fyrir þann afla.

Kjósi áhöfn að kalla eftir slíkum samningi, skal það gert með minnst fimm sólarhringa fyrirvara og skal samningstími ekki vera lengri en þrír mánuðir. Náist ekki samkomulag um uppgjörsverð milli meirihluta áhafnar og útgerðar, skal vísa málinu til úrskurðar nefndar, skv. II. kafla, og skal þá taka tillit til heildarráðstöfunar aflans. Nefndin skal flýta störfum eins og kostur er og náist ekki samkomulag innan sjö sólarhringa skal kveðinn upp úrskurður innan fjögurra sólarhringa. Fiskverð skv. þessu skal gilda frá því úrskurður fellur, nema samkomulag sé um annað.

1.28.4. Markmið um fiskverð í viðskiptum milli skyldra aðila

Miða skal við það markmið að fiskverð miðist að jafnaði við 80% af vegnu meðalverði á grundvelli magns síðastliðinna þriggja mánaða á innlendum fiskmarkaði, að frádregnum 5% kostnaði (skilaverð markaðar). Við útreikning á skilaverði markaðar skal að hámarki reikna 3% undirmálsþorsk í meðalverð hvers mánaðar. (Hér er átt við slægðan þorsk. Úrskurðarnefnd skal vinna að sambærilegri nálgun fyrir óslægðan þorsk, slægða og óslægða ýsu og karfa).

Verðlagsstofa skiptaverðs skal setja fram lýsingu á sambandi milli þyngdar á fiski og verðs á hvert kíló. Í þessu sambandi skal Verðlagsstofa setja fram lýsingu á a.m.k. slægðum og óslægðum þorski, slægðri og óslægðri ýsu og karfa. Skal þetta samband þyngdar og verðs haft til hliðsjónar til að ná þeim samningsmarkmiðum sem lýst er hér á eftir.

Verð á ufsa skal taka breytingum í samræmi við breytingar á afurðaverði samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands

Verðlagsstofa skiptaverðs annast alla nánari útreikninga og framsetningu og sker úr hugsanlegum ágreiningi sem upp kann að koma um túlkun á efnisatriðum.

Úrskurðarnefnd sjómanna og útgerðarmanna skal taka ákvarðanir byggðar á nýrri aðferð frá og með 1. maí 2017 vegna slægðs þorsks og síðan óslægðan þorsk, slægða og óslægða ýsu og karfa fyrir 1. júlí 2017 eða fyrr.

1.29. Skiptaverð aflans

Um skiptaverðmæti aflans fer skv. lögum nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, sbr. lög nr. 21/1987 um breytingu á þeim.

1.29.1. Skiptaverð innanlands og á vinnsluskipum

Frá og með 1. febrúar 2017 skal skiptaverðmætishlutfall sem tekur mið af gasolíuverði á heimsmarkaði vera sem hér segir:

Skiptaverð innanlands og á vinnsluskipum skv. olíuverðsviðmiðun:

Innan-     Frosinn botnfiskur    Frosin rækja        Heimsmarkaðsverð
lands          fob          cif            fob       cif           á gasolíu $ fob/tonn
80%           77,0%    71,5%        74,0%    68,5%       Lægra en 164,00 $
79%           76,5%    71,0%        73,5%    68,0%           164,00 184,99 $
78%           76,0%    70,5%        73,0%    67,5%           185,00 205,99 $
77%           75,5%    70,0%        72,5%    67,0%           206,00 226,99 $
76%           75,0%    69,5%        72,0%    66,5%           227,00 247,99 $
75%           74,5%    69,0%        71,5%    66,0%           248,00 268,99 $
74%           74,0%    68,5%        71,0%    65,5%           269,00 289,99 $
73%           73,5%    68,0%        70,5%    65,0%           290,00 310,99 $
72%           73,0%    67,5%        70,0%    64,5%           311,00 331,99 $
71%           72,5%    67,0%        69,5%    64,0%           332,00 352,99 $
70%           72,0%    66,5%        69,0%    63,5%           353,00 $ og hærra

Á meðan unnið er að bókun um heildarendurskoðun kjarasamnings á gildistíma þessa samnings, skal útgerð sem selur afla til eigin vinnslu innanlands, þ.e.a.s. í viðskiptum milli skyldra aðila, skal skiptaverðmætishlutfall vera að lágmarki 70,5%. Aðrar tölur fyrir afla til eigin vinnslu innanlands breytast til samræmis við þetta.

Það viðmiðunarverð, sem hefur áhrif á skiptaverð til sjómanna, skal  miðast við meðaltal á skráðu gasolíuverði á Rotterdammarkaði. Meðaltalið miðast við gasolíu 0.1 fyrir barges fob á tonn og cargoes fob á tonn skv. Platt's verðskráningu.

Olíuverðsviðmiðunin skal reiknuð mánaðarlega miðað við skráð verð frá og með 21. hvers mánaðar til og með 20. næsta mánaðar og skal skiptaverð ákvarðast um hver mánaðamót í samræmi við það. Olíuverðsviðmiðunin skal reiknuð með tveimur aukastöfum.

Sé fiskur seldur á uppboðsmarkaði hérlendis, sbr. lög nr. 79/2005 um uppboðsmarkað fyrir sjávarafla skal af óskiptu draga frá söluverði aflans beinan uppboðskostnað áður en til skipta kemur, skv. lögum nr. 24/1986 og 21/1987 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

SFS skal vikulega afhenda SSÍ ljósrit úr Platt´s oilgram með upplýsingum um skráð verð á gasolíu á Rotterdammarkaði. Fyrir hver mánaðamót skulu fulltrúar SFS og SSÍ bera sig saman um meðalverðið, áður en skiptaverð næsta mánaðar er ákveðið.

1.29.2. Skiptaverð þegar siglt er með aflann

Þegar fiskiskip siglir með ísfisk til sölu í erlendri höfn skal skiptaverðmæti aflans til hlutaskipta vera 66,0% af heildarverðmæti aflans.

Þegar fiskiskip siglir með afla til bræðslu erlendis skal skiptaverðmæti aflans til hlutaskipta vera 70% af heildarverðmæti aflans.

1.29.3. Afli seldur í gámum erlendis

Sé afli settur í gáma til sölu erlendis skulu skipverjar sjálfir ganga frá aflanum í gámana, án sérstakrar þóknunar. Skal sá tími sem fer í að ganga frá fiskinum í gámana ekki teljast til samningsbundinna hafnarfría.

Greiða skal löndunarpeninga í samræmi við ákvæði kjarasamningsins varðandi einstakar veiðigreinar.

Skipverjar og útgerðarmaður geta hins vegar gert með sér samkomulag um að þriðji aðili taki að sér að landa og setja fiskinn í gáma vegna sérstakra aðstæðna á hverjum stað og skal þá sá kostnaður dreginn frá sérstaklega auk umsamins frádráttar, sbr 3. gr. laga nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, sbr. lög nr. 21/1987 um breytingu á þeim.

Landi skipverjar ekki sjálfir skulu þeir tilnefna trúnaðarmann úr sínum hópi, er hafi eftirlit með frágangi á þeim afla, sem settur er í gáma, án sérstakrar greiðslu.

Sé afla landað úr veiðiskipi í annað skip til sölu erlendis, skulu gilda sömu reglur og um sölu á fiski í gámum.

Samkomulag um frádrátt vegna sölu á gámafiski erlendis.
Af heildaraflaverðmæti (brúttósöluverði) skal draga frá flutningskostnað, erlenda tolla og kostnað við söluna erlendis annan en umboðslaun.

Skiptaverðmætið skal vera 76% af þannig ákveðnu söluverði með þeim breytingum til hækkunar eða lækkunar sem kveðið er á um varðandi breytingar á olíuverðsviðmiðun, sem skiptist samkvæmt hlutaskiptareglum viðkomandi veiða.

Áður nefndir frádráttarliðir eru nánar sundurliðaðir þessir
Flutningskostnaður: Flutningur innanlands til útskipunarhafnar, útskipun, vátrygging, flutningur á ákvörðunarstað, gámaleiga og vörugjald innanlands.

Erlendir tollar: Eins og þeir eru á hverjum tíma.

Erlendur kostnaður: Uppskipun, kranaleiga, leigupláss, meðhöndlun, verka-mannakaup, vatn og uppboðskostnaður

Komi til þess, að samningsaðilar nái ekki samkomulagi um það, hvað teljist vera kostnaður skv. upptalningu kostnaðarliða að framan, skal ágreiningnum skotið til nefndar, sem skipuð skal einum fulltrúa frá LÍÚ og einum frá SSÍ og FFSÍ sameiginlega. Verði nefndarmennirnir ekki sammála, ræður atkvæði fulltrúa sjómanna úrslitum í fyrsta ágreiningsmálinu, atkvæði fulltrúa LÍÚ í því næsta og svo koll af kolli. Úrskurður nefndarinnar er endanlegur og bindandi fyrir aðila.

Taki skip sem siglt hefur með afla til sölu erlendis, vörur til flutnings frá útlöndum umfram útgerðarvörur til eigin þarfa (salt ekki meðtalið), skulu skipverjar fá greitt 25% af farmgjöldum, sem fyrir farminn fást.

1.30. Endurskoðun skiptaverðs

Ef tollar af ísfiski lækka erlendis, svo að verulega muni, á samningstímabilinu, t.d. vegna milliríkjasamninga, skal skiptaverðmæti við sölur erlendis hækka sem tollalækkun nemur.

1.31. Trygging á afla

Útgerðarmaður tryggi aflann fyrir hæfilegri upphæð á sinn kostnað. Komi til vátryggingabætur fyrir spjöll á aflanum, skiptast vátryggingabætur á sama hátt og andvirði aflans.

1.32. Mæling skipa

Þar sem rætt er um stærð eða stærðarmörk skipa í þessum samningi, er miðað við brúttó rúmlestir.

Útgerð skal brúttórúmlestamæla skip sem það er með í rekstri, hafi skipið ekki verið með slíka mælingu fyrir. Mælingin skal skráð í skipaskrá.

1.33. Skipting andvirðis bjargaðra verðmæta er koma upp með veiðarfærum skipa

Nú fær skip í veiðarfæri verðmæti annað en fisk sem er að verðmæti meira en 1.000. krónur í veiðiferð, þá skulu björgunarlaun eða annað andvirði fengsins, ef um er að ræða koma til skipta samkvæmt hlutaskiptareglum.

Ákvæði þetta á ekki við um eigin veiðarfæri.

Finnist eigandi að slíku verðmæti, skal því skilað án þess að krafist sé björgunarlauna.

1.34. Forgangsréttur til vinnu.

Fullgildir félagar þeirra félaga sem að samningi þessum standa, skulu hverjir um sig hafa forgangsrétt til skipsrúms á skipum þeim er samningur þessi tekur til og gerð eru út á félagssvæði viðkomandi félags.

1.35. Félagsgjöld

Útgerðarmönnum er skylt að halda eftir af kaupi sjómanna, er hjá þeim starfa fjárhæð, sem nemur ógreiddu félags eða vinnuréttindagjaldi til viðkomandi stéttarfélags innan SSÍ.

Ákveði stéttarfélagið að félags eða vinnuréttindagjald skuli vera hlutfall (%) af kaupi eða kauptryggingu viðkomandi sjómanns þá skal félagið láta útgerðarmanni í té þar til gerð skilagreinareyðublöð til útfyllingar vegna innheimtu iðgjalda.

Útgerðarmaður skal standa skil á iðgjöldunum samtímis og greiðslum til styrktar , sjúkra og orlofsheimilasjóða, þ.e. um leið og reikningsuppgjör fer fram eftir lok hvers kauptryggingartímabils.

Frá og með þeim tíma sem lög nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, með síðari breytingum, falla úr gildi breytist grein 1.35 í kjarasamning SSÍ þannig:

Útgerðarmönnum er skylt að halda eftir af kaupi sjómanna er hjá þeim starfa fjárhæð sem nemur ógreiddu félags- eða vinnuréttindagjaldi til viðkomandi stéttarfélags innan SSÍ.

Ákveði stéttarfélagið að félags- eða vinnuréttindagjaldi skuli vera hlutfall (%) af kaupi eða kauptrygginu viðkomandi sjómanna þá skal stéttarfélagið láta útgerðarmanni í té þar til gerð skilagreinareyðublöð til útfyllingar til innheimtu iðgjalda.

Á móti iðgjaldi skipverjans greiðir útgerð 0,24% iðgjald af launum til viðkomandi stéttarfélags innan SSÍ. Skilyrði fyrir þessum greiðslum er að ársreikningar viðkomandi stéttarfélaga séu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda og eintak þeirra og þeirra sjóða sem félagið rekur afhentir LÍÚ eigi síðar en 1. júní ár hvert.

Útgerðarmaður skal standa skil á iðgjöldunum samtímis og greiðslum til annarra sjóða stéttarélagsins, þ.e. um leið og reikningsuppgjör fer fram eftir lok hvers kauptryggingartímabils.

1.36. Greiðsla í styrktar og sjúkrasjóði.

Útvegsmenn skulu greiða í styrktar og sjúkrasjóði viðkomandi sjómannafélags, sem svara 1% af öllum launum fyrir hvern hlutaráðinn mann, sem samningur þessi tekur til, til þess að standa straum af veikindum og sjúkrakostnaði.

Á sama hátt og af sömu upphæð skulu útvegsmenn greiða 0,25% í orlofssjóð félaganna. Skulu gjöld þessi greidd í lok hvers tryggingartímabils.

Frá 1. janúar 2009 greiðir útgerð 0,13% af öllum launum til VIRK –endurhæfingarsjóðs.

1.37. Trúnaðarmaður skipverja

Skipverjar skulu hafa trúnaðarmann fyrir sig við reikningsskil og annað sem viðkemur skipverjum sameiginlega.

Fiskkaupendur skulu afhenda trúnaðarmanni skipverja nótu fyrir innlagðan afla hverju sinni með útfærðu verði pr. kíló.

1.38. Endurmenntun skipverja

Skipverjum skal, í samráði við útgerðina, gefinn kostur á að sækja námskeið Slysavarnaskólans í Sæbjörgu í fyrirbyggjandi öryggisfræðslu.

Þann tíma sem skipverji sækir námskeið skal útgerðarmaður greiða honum kauptryggingu, en uppihald og ferðakostnað eftir nánara samkomulagi. Námskeiðsgjaldið greiðir viðkomandi útgerð.

1.39. Nýjar veiði og verkunaraðferðir

1.39.1. Almennt

Komi fram nýjar veiði og verkunaraðferðir eða að um verði að ræða breytingar á gildandi veiði og verkunaraðferðum er horfa til verksparnaðar og hagræðingar, þá skulu samningsaðilar gera um það sérstakan samning, þ.á.m. um mannafjölda og skiptaprósentu, án uppsagnar á þessum samningi.

1.39.2. Ný skip.

Í sjö ár eftir að skip er fyrst tekið í notkun, skal skiptaprósenta vera 10% lægri en samningsákvæði veiðigreina kveða á um, enda tryggi útgerð að aflahlutir séu á heilu ári yfir meðaltali í þeim skipaflokki sem um ræðir.

Við mat á því hvort aflahlutur sé á heilu ári yfir meðaltali í þeim skipaflokki sem um ræðir skal leggja til grundvallar meðalaflahlut á úthaldsdag skipa í viðkomandi skipaflokki að undanskildum 25% þeirra þ.e. skipa sem lægstan aflahlut hafa. Nái aflahlutur ekki viðmiðunarhlut, skv. framansögðu, skal greiða uppbætur allt að 11,1% á aflahlut á skipinu miðað við stöðu viðkomandi skipverja eða þar til viðmiðunarhlut í viðkomandi skipaflokki er náð.

Stundi skip veiðar með fleiri en einu veiðarfæri á sama ári skal reikna aflahlut á úthaldsdag í hverri veiðigrein og skipaflokki. (Sjá viðauka II með dæmum.) Tekið skal tillit til þess ef skip verður frá veiðum vegna óviðráðanlegra orsaka.

Trygging útgerðar á lágmarksaflahlut tekur ekki til einstakra veiðiferða nema hlutfallslega miðað við þá uppbót sem greidd yrði á tekjur almanaksársins. Uppbótin reiknast m.v. fjölda úthaldsdaga á árinu. Trygging þessi tekur ekki til fyrsta mánaðar í rekstri skipsins. Ofangreind regla skal gilda um skip sem skráð eru í fyrsta sinn á íslenska skipaskrá eftir 1. janúar 2004.

Að sjö árum liðnum frá undirritun samnings þessa eða frá 1. mars 2024, verður ákvæði þetta tímabundið. Í sjö ár frá 1. mars 2024 skal þeim skipum sem fyrst verða tekin í notkun heimilt að nýta ákvæði þetta, að uppfylltum skilyrðum þess, en þó aldrei lengur en til 1. mars 2031 þegar ákvæðið fellur úr gildi.

1.39.3. Ný og eldri skip.

Heimilt er samningsaðilum að semja um að lækka skiptaprósentuna á skipum tímabundið eða ótímabundið eða gera breytingar á öðrum atriðum kjarasamnings þessa, hvort sem um er að ræða skip sem skráð eru í fyrsta sinn á íslenska skipaskrá fyrir eða eftir 1.1.2004.

Við gerð slíks samnings geta aðilar m.a. horft til eftirfarandi atriða:
1. Afkastagetu skips, tækja, búnaðar og vélarafls.
2. Möguleika á frekari vinnslu eða bættri meðhöndlun afla um borð sem gefur kost á auknum tekjum.
3. Að útgerð tryggi ásættanlegt lágmarks aflaverðmæti eða tekjur.
4. Annarra atriða sem metin eru fullnægjandi, þ.m.t. betri aðbúnaðar áhafnar.

Heimilt er að breyta skiptaprósentu oftar en einu sinni gefist tilefni til þess, t.d. ef um endurbætur á skipi er að ræða.

Skip telst hafa verið tekið í notkun skv. greinum 1.39.2 og 1.39.3 þegar það hóf veiðar í fyrsta sinn hvort sem það var hérlendis eða erlendis.

Uppgjör samkvæmt greinum 1.39.2. og 1.39.3 skal fara fram eigi síðar en 1. mars næsta ár. Útgerðir skulu veita upplýsingar um meðalaflahlut á úthaldsdag skipa í viðkomandi skipaflokki eins fljótt og verða má. Upplýsingar um hvert skip eru trúnaðarmál.

1.40. Verkfall hjá félagi innan ASÍ

Verði verkfall eða verkbann hjá einhverju félagi innan ASÍ skal þeim, er samningur þessi tekur til, óheimilt að vinna þau störf, sem aðrir hafa hætt við vegna verkfallsins.

Óheimilt er meðlimum hlutaðeigandi félaga að afgreiða vörur eða hvers konar varning, til þess staðar þar sem verkfall eða verkbann er.

1.41. Verkfall sjómanna

Komi til verkfalls sjómanna er þessi samningur tekur til skulu þau skip er verkfallið nær til hætta veiðum strax og verkfallið tekur gildi.

Er skipverjum þá ekki heimilt að framkvæma aðra vinnu í þágu útgerðar en að sigla skipinu til hafnar, landa úr skipinu, sbr. ákvæði samnings um löndun afla, og undirbúa skipið að öðru leyti undir hafnarlegu. Þó skal heimilt ef útgerð kýs, að landa aflanum í annarri höfn þ.m.t. erlendri höfn, og skulu skipverjar þá sigla skipinu í heimahöfn strax að löndun lokinni. Þetta ákvæði miðast við að vinnustöðvun sé boðuð með 21 dags fyrirvara.

1.42. Sérsamningar

Sérsamningar útgerðarmanns við einstaka skipverja eða skipshafnir sem fara í bága við samning þennan, eru ógildir, enda hafi viðkomandi félag ekki samþykkt þá.

Samningar sem gerðir eru á milli áhafnar og útgerðar gilda jafnt um þá skipverja sem eru við störf þegar samningur er samþykktur og þá sem síðar ráðast til starfa, enda hafi þeim verið kynnt efni þeirra við ráðningu.

1.43. Brot á samningnum

Brjóti útgerð gegn samningi þessum skal viðkomandi stéttarfélag senda hlutaðeigandi útgerð skriflega athugasemd, þar sem meintu broti gegn tilgreindu ákvæði kjarasamnings er lýst og afstaða stéttarfélags rökstudd. Skal þá veita útgerð hæfilegan frest til athugasemda. Brot gegn samningi varða sektum, allt að kr. 585.354. Sektarfjárhæð skal renna í félagssjóð viðkomandi stéttarfélags. Sé um verkfallsbrot að ræða getur hlutaðeigandi stéttarfélag sektað útgerð um framangreinda fjárhæð án viðvörunar. Sektarupphæð skal hækka í hlutfalli við kaupgjaldsákvæði samningsins.

1.44. Samningsforsendur

Geri nefnd sú sem fjallar um forsendur kjarasamninga á almennum vinnumarkaði breytingar á þeim samningi vegna breyttra samningsforsendna eru samningsaðilar sammála um að gera samsvarandi breytingar á kauptryggingu og launaliðum samningsins. Komist nefndin ekki að samkomulagi skulu aðilar endurskoða launalið samningsins. Komi til launahækkana á almennum vinnumarkaði á árinu 2019, skulu samningsaðilar endurskoða kauptryggingu og kaupliði í samræmi við þær.

1.45. Gildistími og uppsagnarfrestur samningsins

Með þeim breytingum sem hér eru gerðar framlengist kjarasamningur aðila til 1. desember 2019 og rennur þá úr gildi án uppsagnar.

 

 1.46. Tímabundin breyting skiptaprósentu

Samningsaðilar eru sammála um að framkvæma athugun á mönnun og hvíldartíma í íslenska fiskiskipaflotanum. Lögð skal áhersla á að setja athugun á uppsjávarskipum í forgang og kynna samningsaðilum niðurstöðu þeirrar könnunar, enda þótt að athugun standi enn yfir vegna annarra fiskiskipaflokka.

Ákveði útgerð að hafa átta skipverja um borð á uppsjávarskipi í stað níu, þ.e. samkvæmt greinum 6.02, 7.02 og 11.01, þá skal hlutur skipverja af skiptaverðmæti skipsins vera tímabundið 21,35%, að hámarki í 12 mánuði frá undirritun samnings þessa. Að þeim tíma liðnum skal þessi tímabundna breyting falla niður og hlutur skipverja af skiptaverðmæti verður aftur 20,8%.

Þetta frávik er ekki fordæmisgefandi fyrir mönnun eða hvíldartíma um borð á uppsjávarskipum.

 

1.47. Fjarskipti

Útgerð skal tryggja að skipverji geti átt fjarskipti utan þjónustusvæða símafyrirtækja á meðan á veiðiferð stendur við fjölskyldu, eins og tækni og aðstæður leyfa. Ávallt skal tryggja að rekstur skips og öryggi þess og áhafnar séu í forgangi þegar fjarskipti eru takmörkuð.

Telji áhöfn eða útgerð ástæðu til að aðgreina fjarskiptakostnað um borð í skipi, þá er þeim heimilt að gera samkomulag þar um. Samkomulagið skal greina hver raunkostnaður skipverja er vegna fjarskipta um borð, en útgerð skal veita sundurliðaðar upplýsingar um heildarfjarskiptakostnað, fjarskiptakostnað skips og fjarskiptakostnað skipverja við samningsgerðina.

 

II. kafli

LÍNUVEIÐAR

2.01 Skiptakjör þegar veitt er með línu

2.02. Landróðrar

Á landróðrarbátum sem stunda veiðar með línu, fái skipverjar í sinn hlut eftirtalinn hundraðshluta af skiptaverðmæti:

Á skipum að 21 rúml., 39,0% miðað við 8 menn
Á skipum 21 - 30 rúml., 33,0% miðað við 9 menn
Á skipum 31 - 50 rúml., 30,5% miðað við 10 menn
Á skipum 51 110 rúml., 29,5% miðað við 11 menn
Á skipum 111 200 rúml., 29,2% miðað við 12 menn
Á skipum 201 240 rúml., 28,5% miðað við 12 menn
Á skipum 241- 500 rúml., 27,5% miðað við 12 menn

Á skipum 31 500 rúml. er reiknað með að 5 menn séu í landi.

Vanti skipverja í róður, skal hans hlutur skiptast jafnt milli þeirra manna sem þann róður fara. Sama gildir ef landmann vantar, þá skal hans hlutur skiptast jafnt milli landmanna, enda vinni þeir störf hans.

Hlutaráðnir menn sem vinna við skipið í landi skulu njóta sömu réttinda sem lögskráðir menn hafa, svo sem varðandi rétt til sjóveðs o.fl.

Sé beitt í ákvæðisvinnu skal sá hlutur sem ella hefði fallið til landmanna, ganga til að greiða kostnað af ákvæðisvinnunni.

2.03. Útilegur

Bátar sem veiða með línu, teljast vera á útlegu þegar beitt er um borð.

Á bátum sem eru í útilegu, skal heimilt að hafa tveimur mönnum fleira án þess að skiptaprósenta breytist.

Ef um færri eða fleiri menn er að ræða á skipinu en að ofan greinir í lið I. og II., skal skiptarprósentan lækka eða hækka um 1,3 fyrir hvern mann sem vantar eða umfram er.

2.04. Bátar með beitningavél

2.05. Landróðrar

Á skipum með beitningavél, sem landa daglega, skal hundraðshluti af afla vera eftirfarandi:

Á skipum að 60 brl. 31,9 % miðað við 5 menn
Á skipum 60 - 100 brl. 31,9 % miðað við 7 menn
Á skipum 101-149 brl. 30,5 % miðað við 9 menn
Á skipum 150-190 brl. 30,5 % miðað við 11 menn
Á skipum 191 - 241 brl. 29,4 % miðað við 12 menn
Á skipum 241 og stærri 28,4% miðað við 12 menn

Ef færri menn eru um borð en að ofan greinir skal skiptaprósentan lækka um 1,6 fyrir hvern mann sem vantar.

Ef um fleiri menn er að ræða, skal skipaprósentan hækka um 1,6 fyrir hvern mann.

2.06. Útilegur

Á skipum með beitningavél, sem eru á útilegu, skal hundraðshluti af afla verða eftirfarandi:

Á skipum að 60 brl. 33,5 % miðað við 6 menn
Á skipum 60 - 100 brl. 33,5 % miðað við 8 menn
Á skipum 101 - 144 brl. 33,5% miðað við 10 menn
Á skipum 145 - 241 brl. 33,3% miðað við 14 menn
Á skipum 241 og stærri 32,3% miðað við 14 menn

Ef færri menn eru um borð en að ofan greinir skal skiptaprósentan lækka um 1,6 fyrir hvern mann sem vantar.

Ef um fleiri menn er að ræða skal skiptaprósentan hækka um 1,6 fyrir hvern mann sem umfram er.

Skipverji sem er á línubátum með beitningavél á útilegu sem hefur verið 110 til 160 daga á sjó skal fá greidda línuuppbót miðað við fjölda úthaldsdaga á sjó. Hafi skipverji verið fleiri en 160 daga á sjó skal hann njóta fullrar línuuppbótar, en annars hlutfallslega þar sem uppbótin lækkar um 2% hvern fækkaðan dag. Óskert línuuppbót skal vera kr. 50.000 og greiðist fyrir 15. janúar ár hvert miðað við úthald síðastliðins almanaksárs. Skipverji sem hefur tekjur yfir kr. 50.000 á hvern úthaldsdag, á ekki rétt á þessari greiðslu. Hætti skipverji störfum hjá útgerð fyrir lok almanaksárs, skal hann fá línuuppbót greidda við lokauppgjör.

2.07. Skiptakjör á lúðuveiðum

Á bátum sem stunda lúðuveiðar með línu fái skipverjar í sinn hlut eftirtalinn hundraðshluta af skiptaverðmæti:

Á skipum að 31 rúml., 33,0% miðað við 5 menn
Á skipum 31 50 rúml., 33,0% miðað við 6 menn
Á skipum 51 110 rúml., 32,0% miðað við 9 menn
Á skipum 111 240 rúml., 31,5% miðað við 12 menn
Á skipum 241 300 rúml., 30,5% miðað við 12 menn
Á skipum 301 500 rúml., 30,0% miðað við 12 menn

Ef færri menn eru um borð en að ofan greinir skal skiptaprósentan lækka um 1,7 fyrir hvern mann sem vantar.

Ef um fleiri menn er að ræða en að ofan greinir, skal skiptaprósentan hækka um 1,7 fyrir hvern mann sem umfram er.

2.08. Kaup fyrir einstaka róðra á línu

Séu menn teknir í einstaka róðra á línu, skal greiðsla útgerðar til háseta verða kr. 10.533. Matsveinn, netamaður og I. vélstjóri/vélavörður (2. maður í vél) skulu fá 25% hærri greiðslu í þessum tilfellum, en yfirvélstjóri/vélavörður (1. maður í vél) 50% hærri greiðslu.

Taki róður lengri tíma en 1 1/2 sólarhring skal greiða þessa upphæð tvöfalda.

Sé snúið til baka úr róðri, án þess að veiðarfæri séu dregin eða lögð í sjó, skal greidd 1/2 fyrrgreind upphæð.

Sé skipverji kallaður til skips, en ekki lagt af stað í róður, skal greiddur 1/4 af fyrrnefndri upphæð.

Nemi hlutur viðkomandi skipverja hærri fjárhæð, en kaup það er greinir í launatöflu skal greiða honum hlutinn.

Séu menn teknir í einstaka róðra þegar róið er með tvöfalda línulengd, skal lausaróðursgreiðslan vera tvöföld upphæð, enda taki róðurinn ekki lengri tíma en 60 klst. Taki róðurinn lengri tíma, skal greiða lausaróðursgreiðsluna þrefalda.

Hafi skipverji verið ráðinn í lausaróðra, þá skal honum að 6 dögum liðnum greiddur hlutur eða kauptrygging, eins og um fastráðinn skipverja sé að ræða.

2.09. Aukagreiðslur

Háseta á landróðrarbát á línuveiðum skal greiða auk eins hlutar kr. 20.666 á mánuði í laun. Skulu þau laun engin áhrif hafa á upphæð aukakjara þeirra er greinir hér að framan.

Landformaður á línubát skal hafa kr. 165, af hverri smálest fisks, sem veiðist á línu.

Sé róið með tvöfalda línulengd, skal greiða skipverjum kr. 21.152, sem skiptist jafnt á milli þeirra, sem róðurinn fara, enda landi þeir aflanum sjálfir, án sérstakrar greiðslu.

2.10. Hámarks línulengd

Á línuveiðum skal hámarkslínulengd á dagróðrarbátum vera 45 bjóð, með allt að 420 króka á bjóði. Heimilt er að róa með tvöfalda línulengd í einni sjóferð, sem telst þá tveir róðrar.

2.11. Hvíldartími

Skipverjar skulu hafa minnst 6 klst. hvíld á sólarhring. Þá skulu skipverjar á útilegubátum með línu hafa minnst 8 klst. hvíld á sólarhring.

2.12. Löndunarfrí

Á þeim skipum sem stunda útileguveiðar með línu skulu skipverjar hafa frí við löndun.

2.13. Hafnarfrí

Á öllum skipum er stunda veiðar með línu og eru í útilegu og ísa eða salta aflann um borð og landa innanlands eða utanlands skulu skipverjar hafa hafnarfrí í 24 klst. eftir hverja veiðiferð.

Hafnarfrí telst aldrei skemmri tími en 24 klst. Hafnarfrí sem veitt er umfram 24 klst. skal teljast í hálfum og heilum sólarhringum, þannig að klst. sem ekki ná heilum og hálfum sólarhring falla niður.

Eigi er skylt að hafa hafnarfrí í 24 klst., ef veiðiferð tekur skemmri tíma en 5 sólarhringa en hafnarfrí skal þó eigi vera skemmri tími en tekur að skipa upp aflanum og búa skip í næstu veiðiferð. Hafnarfrí skal þó aldrei vera skemmra en 6 klst.

Skipverjum skulu tryggðir minnst fjórir frídagar í mánuði.

Sé bátur skilinn eftir utan lögskráningarstaðar áhafnar, skal útgerðarmaður sjá skipverjum fyrir fari frá og til útgerðarstaðar skipsins í hafnarfríum.

Á föstudaginn langa, páskadag og sjómannadaginn skal ekki róið eða verið á sjó. Þetta ákvæði gildir ekki þegar skip er á veiðum fyrir erlendan markað.

Heimilt er LÍÚ vegna einstakra útgerða og stéttarfélögum viðkomandi skipverja að semja um að hafnarfrí verði tekin í frítúrum þannig að skipið stoppi ekki umfram þann tíma sem tekur að landa afla og búa skipið undir næstu veiðiferð. Í slíkum samningi skal kveðið á um að tekið verði upp skiptimannakerfi þannig að hver skipverji vinni að jafnaði 22 daga í hverjum mánuði, en eigi frí aðra daga mánaðarins. Komi til þess að ekki fiskist fyrir kauptryggingu innan mánaðar skal greiða hverjum skipverja kauptryggingu miðað við fullan mánuð enda hafi viðveruskylda skipverjans verið 22 dagar í mánuðinum. Heimilt er skipverjum í samráði við útgerð að ákveða jafnaðarlaunakerfi samhliða því að slíkt skiptimannakerfi er tekið upp.

Útgerð og áhöfn er heimilt að semja um að frí á föstudaginn langa og páskadag færist með þeim hætti að samfellt frí í tengslum við sjómannadag lengist sem því nemur.

2.14. Róðrarfrí á landróðrarbátum og helgarfrí

Á línuveiðum skal eigi róið aðfaranætur helgidaga.

Helgarfrí skal aldrei teljast minna en einn sólarhringur, eftir að allri vinnu við bátinn er lokið.

Þótt róið sé með tvöfalda línulengd í einni sjóferð, skerðir það ekki rétt skipverja til umsamdra helgarfría.

Sé báturinn skilinn eftir utan lögskráningarstaðar áhafnar, skal útgerðarmaður sjá skipverjum fyrir fari frá og til útgerðarstaðar skipsins í helgarfríum.

Á föstudaginn langa, páskadag, og sjómannadaginn skal ekki róið eða verið á sjó.

2.15. Vinnulaun við útbúnað skips og veiðarfæra

Hlutamenn, sem vinna við útbúnað skips eða veiðarfæra í byrjun vertíðar eða að vertíð lokinni, skulu fá þá vinnu greidda með tímakaupi samkvæmt launatöflu.

Fari vinna þessi fram utan heimahafnar skipsins, greiðir útgerðin auk þess uppihald og ferðir skipverja.

Útgerðarmaður skilar alltaf öllum veiðarfærum fullbúnum að skipi eða í veiðarfærahús bátsins, en skipverjar taka við þeim og koma þeim fyrir í skipinu, þar með talið að skipta um uppstillingu á þilfari án sérstakrar greiðslu, enda sé það gert um leið og veiðar byrja. Sama gildir um að skila veiðarfærum í vertíðarlok, þar með talið að stokka upp línu, enda sé það gert um leið og línuvertíð lýkur. Ennfremur að taka í land í vertíðarlok uppstillingu og áhöld á þilfari og þvo lest.

2.16. Kostnaður vegna beitu

Þegar veitt er með haukalóð skal útgerðin sjá skipshöfn fyrir beitu henni að kostnaðarlausu, eins og gildir almennt á línuveiðum. Sé eigin afli notaður í beitu skal reikna andvirði aflans til hlutaskipta.

2.30. Línuveiðar og netaveiðar þegar aflinn er saltaður, frystur eða hluti ísaður um borð

2.31. Gildissvið

Samningsákvæði þessa kafla gilda því aðeins ef a.m.k. 25% aflaverðmætis veiðiferðarinnar er vegna saltaðra og/eða frosinna afurða. Að öðrum kosti gilda almennu samningarnir um línuveiðar með beitningavél eða um netaveiðar eftir því sem við á.

2.32. Skiptakjör

Skipverjar skulu fá í sinn hlut eftirtalinn hundraðshluta af skiptaverðmæti:

28,6% miðað við 16 - 17 menn
29,6% miðað við 18 - 20 menn

Séu færri menn á skipinu en að ofan greinir skal skiptaprósentan lækka um 1,1 fyrir hvern mann sem fækkað er um.

Séu fleiri menn á skipinu en að ofan greinir skal skiptaprósentan hækka um 1,1 fyrir hvern mann sem umfram er.

2.33. Skilgreining skiptaverðmætis

Þegar seldur er afli fiskiskips, sem saltar afla um borð, skal draga frá fob-verðmæti framleiðslunnar kostnað í landi við frekari vinnslu og frágang aflans til útflutnings, áður en skiptaverð er reiknað. Kostnaður vegna fullvinnslu aflans í landi er vegna launa og tengdra gjalda, salts, orku, umbúða og húsa- og tækjanotkunar.

Framangreindur frádráttur skal vera sem hér segir:

1. 12% af fob-verðmæti saltfisks, sem pakkað er í öskjur sem rúma 50 kg. eða minna.

2. 10% af fob-verðmæti saltfisks, sem pakkað er í aðrar pakkningar en tilgreint er í lið 1.

Af fob-verðmæti að frádregnum framangreindum kostnaði reiknast síðan skiptaverð samkvæmt kjarasamningi. Af frystum afurðum reiknast skiptaverð samkvæmt kjarasamningi.

2.34. Álag á aflahlut

Greiða skal 10% álag á aflahlut af flökuðum og flöttum afurðum sem eru frystar eða saltaðar.

2.35. Hafnarfrí

Hafnarfrí skal vera 1. klst. fyrir hverjar 6 1/2 klst. af útivistartíma skips. Hafnarfrí skal þó aldrei vera skemmra en 30 klst. að lokinni útivist.

Útivist skipsins skal reiknast frá því skipið leggur af stað úr höfn í veiðiferð, til þess tíma sem skip kemur til hafnar og hafnarfrí hefst.

Heimilt er, ef 2/3 áhafnar samþykkir í leynilegri atkvæðagreiðslu, að taka upp fast skiptimannakerfi, þannig að skipverjar fari tvær veiðiferðir og eigi frí þá þriðju. Samningur um slíkt skiptimannakerfi skal gilda til að minnsta kosti eins árs í senn og skulu þá hafnarfrí tekin sem hér segir:

Taki útivist skemmri tíma en 33 sólarhringa skal hafnarfrí vera að lágmarki 72 klst. Fyrir hvern byrjaðan sólarhring sem útivist er lengri en 33 sólarhringar skal hafnarfrí lengjast um 4 klst. Útivist skal þó aldri vera lengri en 40 sólarhringar.

2.37. Uppgjör og kauptryggingartímabil

Hver veiðiferð skal vera sérstakt kauptryggingartímabil. Skipverjar skulu fá 90% áætlaðs aflahlutar í lok hverrar veiðiferðar. Endanlegt uppgjör skal fara fram eigi síðar en 30 dögum eftir lok veiðiferðarinnar. Trúnarðarmaður skal fá í hendur sölunótur afurða þegar hann óskar þess.

2.38. Hvíldartími

Skipverjar skulu hafa minnst 8 klst. hvíld á sólarhring til svefns og matar.

2.39. Löndunarfrí

Skipverjar skulu eiga frí við löndun úr skipinu.

2.40. Önnur ákvæði

Að öðru leyti en að framan greinir skulu ákvæði almennu bátakjarasamninganna gilda.


III. kafli.

NETAVEIÐAR

3.01. Skiptakjör þegar veitt er í net

3.02. Landróðrar

Á landróðrarbátum, sem stunda veiðar með netum, fái skipverjar í sinn hlut eftirtalinn hundraðshluta af skiptaverði:

Á skipum að 21 rúml., 39,0% miðað við 6 menn
Á skipum 21 30 rúml., 33,0% miðað við 7 menn
Á skipum 31 50 rúml., 30,5% miðað við 7 menn
Á skipum 51 110 rúml., 29,5% miðað við 8 menn
Á skipum 111 150 rúml., 29,2% miðað við 10 menn
Á skipum 151 200 rúml., 29,2% miðað við 11 menn
Á skipum 201 240 rúml., 29,0% miðað við 11 menn
Á skipum 241 300 rúml., 28,0% miðað við 12 menn
Á skipum 301 500 rúml., 28,0% miðað við 13 menn


3.03. Útilegur

Útilega telst það þegar lagðar eru tvær lagnir og aflinn úr annarri lögninni, hið minnsta, er slægður og ísaður.

Á bátum sem eru í útilegu, skal heimilt að hafa einum manni fleira en að ofan greinir, án þess að skiptaprósentan breytist.

Ef færri menn eru á skipi en að ofan greinir skal skiptaprósentan lækka um 1,2 fyrir hvern mann sem fækkað er um.

Ef um fleiri menn er að ræða á skipi en að ofan greinir, skal skiptaprósentan hækka um 1,2 fyrir hvern mann sem umfram er.

Um netafjölda fer samkvæmt reglugerð.

3.04. Kaup fyrir einstaka róðra á netum

Séu menn teknir í einstaka róðra við veiðar í net, skal greiðsla útgerðar til háseta verða kr. 10.533. Matsveinn, netamaður og I. vélstjóri/vélavörður (2. maður í vél) skulu fá 25% hærri greiðslu í þessum tilfellum, en yfirvélstjóri/vélavörður (1. maður í vél) 50% hærri greiðslu.

Taki róður lengri tíma en 1 1/2 sólarhring, skal greiða þessa upphæð tvöfalda. Sé snúið til baka úr róðri, án þess að veiðarfæri séu dregin eða lögð í sjó, skal greidd 1/2 fyrrgreind upphæð.

Sé skipverji kallaður til skips, en ekki lagt af stað í róður, skal greiddur 1/4 af fyrrnefndri upphæð.

Nemi hlutur viðkomandi skipverja hærri fjárhæð en kaup það er greinir í launatöflu, skal greiða honum hlutinn.

3.05. Hvíldartími

Skipverjar skulu hafa minnst 6 klst. hvíld á sólarhring. Þá skulu skipverjar á útilegubátum með net hafa minnst 8 klst. hvíld á sólarhring.

3.06. Löndunarfrí

Á þeim skipum sem stunda útileguveiðar með netum skulu skipverjar hafa frí við löndun.

3.07. Hafnarfrí

Á netabátum skal skipverjum tryggt að lágmarki fjögurra sólarhringa frí í mánuði frá upphafi til loka netavertíðar. Af þessum fjórum frídögum skulu að minnsta kosti tveir veittir á sunnudegi.

Hafnarfrí telst aldrei skemmri tími en 24 klst. Hafnarfrí sem veitt er umfram 24 klst. skal teljast í hálfum og heilum sólarhringum, þannig að klst. sem ekki ná heilum og hálfum sólarhring falla niður.

Sé bátur skilinn eftir utan lögskráningarstaðar áhafnar, skal útgerðarmaður sjá skipverjum fyrir fari frá og til útgerðarstaðar skipsins í hafnarfríum.

Á föstudaginn langa, páskadag og sjómannadaginn skal ekki róið eða verið á sjó. Þetta ákvæði gildir ekki þegar skip er á veiðum fyrir siglingu með aflann á erlendan markað.

3.08. Vinnulaun við útbúnað skips og veiðarfæra

Hlutamenn, sem vinna við útbúnað skips eða veiðarfæra í byrjun vertíðar eða að vertíð lokinni, skulu fá þá vinnu greidda með tímakaupi samkvæmt launatöflu.

Fari vinna þessi fram utan heimahafnar skipsins, greiðir útgerðin auk þess uppihald og ferðir skipverja.

Útgerðarmaður skilar alltaf öllum veiðarfærum fullbúnum að skipi eða í veiðarfærahús bátsins, en skipverjar taka við þeim og koma þeim fyrir í skipinu, þar með talið að kúla og steina net, skipta um uppstillingu á þilfari án sérstakrar greiðslu, enda sé það gert um leið og veiðar byrja. Sama gildir um að skila veiðarfærum í vertíðarlok. Ennfremur að taka í land í vertíðarlok uppstillingu og áhöld á þilfari og þvo lest.

Útgerðarmaður afhendi netasteina hankaða í byrjun netavertíðar, á jafnmörg net og leyfð eru á hvern bát, samkvæmt reglugerð. Skipverjar halda við hönkum á steinum meðan á vertíð stendur og jafnframt að hanka þá steina sem bæta þarf við til viðhalds.

3.09. Net og nót

Óheimilt er að hafa net í sjó frá skipi sem veiðir með nót, dragnót eða vörpu.


IV. kafli.

DRAGNÓT

4.01. Skiptakjör á veiðum með dragnót

Á skipum að 31 rúml. 33,5% miðað við 4 menn
Á skipum 31 - 50 rúml. 33,5% miðað við 5 menn
Á skipum 51 - 110 rúml. 33,5% miðað við 7 menn
Á skipum 111 - 150 rúml. 33,5% miðað við 8 menn
Á skipum 150 rúml. og yfir 33,5% miðað við 9 menn

Séu færri menn á skipinu en að ofan greinir skal skiptaprósentan lækka um 1,5 fyrir hvern mann sem fækkað er um.

Séu fleiri menn á skipinu en að ofan greinir skal skiptaprósentan hækka um 1,5 fyrir hvern mann sem fleiri eru í áhöfn en að ofan greinir.

4.02. Hvíldartími

Skipverjar skulu hafa minnst 6 klst. hvíld á sólarhring. Þó skulu skipverjar á útilegubátum hafa minnst 8 klst. hvíld á sólarhring.

4.03. Róðrarfrí

Á dragnótaveiðum í dagróðrum skal vera helgarfrí. Helgarfrí skal aldrei teljast minna en einn sólarhringur, eftir að allri vinnu við bátinn er lokið.

Heimilt skal félagi sjómanna og útvegsmanna á viðkomandi útgerðarstað að semja um annað fyrirkomulag varðandi frí, en að framan greinir.

Skipverjum á dragnótabátum á útilegu skulu tryggðir fjórir frídagar í mánuði.

Sé bátur skilinn eftir utan lögskráningarstaðar áhafnar, skal útgerðarmður sjá skipverjum fyrir fari frá og til útgerðarstaðar skipsins í hafnarfríum.

Á föstudaginn langa, páskadag og sjómannadaginn skal ekki róið eða verið á sjó.

4.04. Net og nót

Óheimilt er að hafa net í sjó frá skipum sem veiða með dragnót.

4.10. Dragnótabátar, sem frysta afla um borð

4.11. Skiptakjör

32,5% miðað við 12 menn.

Séu færri menn á skipinu en að ofan greinir skal skiptaprósentan lækka um 1,7 fyrir hvern mann sem fækkað er um.

Séu fleiri menn á skipinu en að ofan greinir skal skiptaprósentan hækka um 1,7 fyrir hvern mann sem fleiri eru í áhöfn en að ofan greinir.

4.12. Skiptaverðmæti

Um skiptaverð fer skv. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 24/1986 með síðari breytingum, sbr. lög nr. 21/1987 og kjarasamning aðila.

4.13. Uppgjör

Hver veiðiferð skal teljast sérstakt kauptryggingartímabil. Við komu skips úr veiðiferð, skal liggja fyrir endanlegt uppgjör fyrri veiðiferða, þó ekki síðar en 15 dögum eftir lok veiðiferðar. Trúnaðarmaður skipverja skal fá í hendur afrit af sölunótum afurða, þegar hann óskar þess.

4.15. Löndunarfrí

Skipverjar skulu eiga frí við löndun frystra afurða. Heimilt skal að skipverjar landi ísuðum afla, enda fái þeir greiðslu fyrir.

4.16. Hafnarfrí

Hafnarfrí skal vera 1 klst. fyrir hverjar 6 1/2 klst. af útivistartíma skips. Hafnarfrí skal vera a.m.k. 24 klst. að lokinni útivist.

Útivist skipsins skal reiknast frá því skipið leggur úr höfn í veiðiferðina til þess tíma sem skip kemur til hafnar úr veiðiferð og hafnarfrí er gefið.

4.17. Vinnulaun við útbúnað skips og veiðarfæra

Hlutamenn, sem vinna við útbúnað skips eða veiðarfæra í byrjun vertíðar eða að vertíð lokinni, skulu fá þá vinnu greidda með tímakaupi samkvæmt launatöflu.

Fari vinna þessi fram utan heimahafnar skipsins, greiðir útgerðin auk þess uppihald og ferðir skipverja.

Útgerðarmaður skilar alltaf öllum veiðarfærum fullbúnum að skipi eða í veiðarfærahús bátsins og lætur koma matvælum fyrir undir þiljum en skipverjar taka við þeim og koma þeim fyrir í skipinu, skipta um uppstillingu á þilfari og slá undir dragnót, án sérstakrar greiðslu, enda sé það gert um leið og veiðar byrja. Sama gildir um að skila veiðarfærum í vertíðarlok. Ennfremur að taka í land í vertíðarlok uppstillingu og áhöld á þilfari og þvo lest.

4.18. Gildissvið

Að öðru leyti skulu ákvæði almennu bátakjarasamninganna um dragnótaveiðar gilda.


V. kafli.

BOTNVÖRPUVEIÐAR

5.00. Bátar og togarar undir 42 metrum

5.01. Skiptakjör á veiðum með botnvörpu.


5.01.1. Skuttogarar stærri en 200 brl, styttri en 29 metrar (mesta lengd)

28,6% miðað við 12 menn

Ef færri menn eru á skipi en að ofan greinir skal skiptaprósentan lækka um 1,6 fyrir hvern mann sem fækkað er um.

Ef um fleiri menn er að ræða á skipi en að ofan greinir skal skiptaprósenta hækka um 1,6 fyrir hvern mann sem umfram er.

5.01.2. Skuttogarar 29 - 42 metrar að lengd (mesta lengd)

27,9% miðað við 11 - 14 menn

Ef færri menn eru á skipi en að ofan greinir skal skiptaprósentan lækka um 1,3 fyrir hvern mann sem fækkað er um.

Ef um fleiri menn er að ræða á skipi en að ofan greinir skal skiptaprósenta hækka um 1,3 fyrir hvern mann sem umfram er.

5.01.3. Bátar og togarar 200 brl. og minni

Á bátum sem veiða með botnvörpu fái skipverjar í sinn hlut eftirtalinn hundraðshluta af skiptaverði:

Á skipum að 51 rúml., 31,0% miðað við 5 menn
Á skipum 51 110 rúml., 30,5% miðað við 7 menn
Á skipum 111 150 rúml., 30,0% miðað við 10 menn
Á skipum 151 200 rúml., 30,0% miðað við 11 menn
Á skipum 201 240 rúml., 29,5% miðað við 11 menn
Á skipum 241 500 rúml., 28,5% miðað við 11 menn

Ef færri menn eru á skipinu en að ofan greinir skal skiptaprósentan lækka um 1,0 fyrir hvern mann sem fækkað er um.

Ef fleiri menn eru á skipinu en að ofan greinir skal skiptaprósentan hækka um 1,0 fyrir hvern mann sem umfram er.

5.02. Aukagreiðslur

Netamaður á togbát og togurum undir 29 metrum skal hafa 1 ¼ hásetahlut.
Netamaður á togurum 29 metrum og stærri skal hafa 1 1/8 hásetahlut.
Á skuttogurum 29 – 42 metrar skal vera bátsmaður er hafi 1 1/5 hásetahlut.

Á togbátum allt að 200 rúmlestir, skal vera minnst einn netamaður, ef stýrimaður er ekki vanur netamaður skulu netamenn vera tveir. Á skipum yfir 200 rúmlestir, skulu netamenn vera tveir.

5.03. Hvíldartími

Skipverjar skulu hafa minnst 6 klst. hvíld á sólarhring. Þá skulu skipverjar á útilegubátum 161 360 rúml. hafa minnst 8 klst. hvíld á sólarhring.

5.04. Um löndunarfrí.

Á þeim skipum sem stunda útileguveiðar með botnvörpu, skulu skipverjar hafa frí við löndun. Á togskipum 160 rúml. og minni skulu skipverjar landa aflanum, hafi veiðiferð tekið 3 sólarhringa eða styttri tíma, enda fái þeir þá greitt fyrir hverja smálest skv. launatöflu. Taki veiðiferð lengri tíma en 3 sólarhringa, er þeim heimilt að landa aflanum, enda fái þeir sömu greiðslu.

Greiðsla fyrir löndun úr togbátum er kr. 2.051 á hverja lest og skiptist á milli þeirra er að löndun vinna, svo sem samrýmist störfum þeirra hvers og eins.

5.05. Hafnarfrí

Á öllum skipum er stunda veiðar með botnvörpu, og eru í úilegu og ísa eða salta aflann um borð og landa innanlands eða utanlands skulu skipverjar hafa hafnarfrí í 24 klst. eftir hverja veiðiferð.

Eigi er skylt að hafa hafnarfrí í 24 klst. ef veiðiferð tekur skemmri tíma en 5 sólarhringa, en hafnarfrí skal þó eigi vera skemmri tími en tekur að skipa upp aflanum og búa skip í næstu veiðiferð. Hafnarfrí skal þó aldrei vara skemmra en 6 klst.

Hafnarfrí telst aldrei skemmri tími en 24 klst. Hafnarfrí sem veitt er umfram 24 klst. skal teljast í hálfum og heilum sólarhringum, þannig að klst. sem ekki ná heilum og hálfum sólarhring falla niður.

Skipverjum skulu tryggðir minnst fjórir frídagar í mánuði.

Sé bátur skilinn eftir utan lögskráningarstaðar áhafnar, skal útgerðarmaður sjá skipverjum fyrir fari frá og til útgerðarstaðar skipsins í hafnarfríum.

Á föstudaginn langa, páskadag og sjómannadaginn skal ekki róið eða verið á sjó. Þetta ákvæði gildir ekki gagnvart togskipum 39 metrar eða lengri, og þegar skip er á veiðum fyrir erlendan markað. 

Útgerð og áhöfn er heimilt að semja um að frí á föstudaginn langa og páskadag færist með þeim hætti að samfellt frí í tengslum við sjómannadag lengist sem því nemur á togskipum 39 metrum eða styttri.

5.06. Vinnulaun við útbúnað skips og veiðarfæra

Hlutamenn, sem vinna við útbúnað skips eða veiðarfæra í byrjun vertíðar eða að vertíð lokinni, skulu fá þá vinnu greidda með tímakaupi samkvæmt launatöflu.

Fari vinna þessi fram utan heimahafnar skipsins, greiðir útgerðin auk þess uppihald og ferðir skipverja.

Útgerðarmaður skilar alltaf öllum veiðarfærum fullbúnum að skipi eða í veiðarfærahús bátsins, en skipverjar taka við þeim og koma þeim fyrir í skipinu, skipta um uppstillingu á þilfari og slá undir botnvörpu, án sérstakrar greiðslu, enda sé það gert um leið og veiðar byrja. Sama gildir um að skila veiðarfærum í vertíðarlok. Ennfremur að taka í land í vertíðarlok uppstillingu og áhöld á þilfari og þvo lest.

5.07. Net og botnvarpa

Óheimilt er að hafa net í sjó frá skipi sem veiðir með botnvörpu.


5.10. Skuttogarar

5.11. Um skiptakjör

Skuttogarar 42 metrar að lengd og lengri:

28,8% miðað við 16 menn
29,7% miðað við 17 menn
31,3% miðað við 18 menn

Ef færri menn eru á skipi en að ofan greinir skal skiptaprósentan lækka um 0,9 fyrir hvern mann sem fækkað er um.

Ef fleiri menn eru á skipi en að ofan greinir skal skiptaprósenta hækka um 0,9 fyrir hvern mann sem umfram er.

5.12. Aukagreiðslur

Á skuttogurum skal vera einn bátsmaður og netamenn skulu vera tveir.

Bátsmaður skal hafa 1 1/5 hásetahlut.
Netamaður á skuttogara skal hafa 1 1/8 hásetahlut.

5.13. Tryggingartímabil

Á skuttogurum telst hver veiðiferð sérstakt kauptryggingartímabil.

Veiðiferð telst hafin er togari leggur úr höfn og henni telst lokið, er togari kemur til löndunar og samningsbundnu hafnarfríi er lokið.

Að loknu hafnarfríi mega líða 7 dagar án sérstakrar kaupgreiðslu og án vinnuskyldu. Að þeim tíma liðnum skal greiða kauptryggingu, enda sinni skipverjar samkvæmt beiðni 8 tíma vinnuskyldu á dag við skipið innanborðs og búnað þess.

Sé ráðningu skipverja slitið við komu skips til hafnar skal skipverjinn eiga rétt á tímakaupi út uppsagnarfestinn gegn 8 klst. vinnuskyldu á dag við skipið innanborðs og búnað þess.

5.14. Löndunarfrí

Á skuttogurum skulu skipverjar hafa frí við löndun.

5.15. Hafnarfrí

Hafnarfrí skal vera 1 klst. fyrir hverjar 6 1/2 klst. af útivistartíma skips. Hafnarfrí skal þó aldrei vera skemmri tími en 30 klst. að lokinni útivist hverju sinni.

Útivist skipsins skal reiknast frá því skipið leggur af stað úr höfn í veiðiferð til þess tíma sem skip kemur til hafnar og hafnarfrí hefst.

Skipverjar skulu eiga rétt á fríi fjórðu hverja veiðiferð.

Nú breytist til lengingar samningsbundinn tími hafnarfrís, skal þá tilkynna skipshöfn með minnst fjögurra klst. fyrirvara breyttan brottfarartíma.

Sé skipið ekki tilbúið til brottfarar klukkustund eftir tilkynntan brottfarartíma, og sökin er útgerðarinnar, ber skipstjóra að fresta brottför um 4 klst.

Þegar hafnarfrí eru gefin skal gilda sú aðalregla, að útgerðarmaður sjái um, að vélstjórar þurfi ekki að hafa eftirlit með skipi.

Þurfi vélstjórar að hafa eftirlit með skipum, skal þeim greitt kaup samkvæmt launaskrá samningsaðila þessa.

Auk þess skal útgerðarmaður sjá vélstjóra fyrir fari, ef hann þarf að fara á milli byggðarlaga í eftirlitsferðir.

Við komu skips úr veiðiferð, taki vaktmaður úr landi við gæslu í vélarrúmi. Yfirvélstjóri afhendi skýrslu yfir það, sem gera þarf, og segir til um, hvernig viðgerð skuli framkvæmd, ef um viðgerð er að ræða. Einnig leggi hann fram skrá um nauðsynjar, sem skipið þarfnast fyrir næstu veiðiferð, og sé því skilað um borð. Þurfi vélstjóri að vinna störf vaktmanns, skal honum greitt yfirvinnukaup fyrir þann tíma.

Frávik frá hafnarfríi.

Komi ósk frá skipverjum til stéttarfélaga þeirra um að hafnarfrí verði tekin í frítúrum, þannig að milli veiðiferða stoppi skipið aðeins þann tíma sem tekur að landa úr því, skulu stéttarfélögin í sameiningu láta fara fram leynilega atkvæðagreiðslu um slíka tilhögun á hafnarfríunum meðal þeirra skipverja sem ráðnir eru á skipið. Samþykki meiri hluti skipverja í leynilegri atkvæðagreiðslu þannig tilhögun á hafnarfríum skulu félögin ganga frá slíku samkomulagi við útgerðina þar sem m.a. komi fram hvernig fríum verði háttað. Samkomulag um slík frávik frá hafnarfríum skal gilda í a.m.k. 12 mánuði í senn og er að þeim tíma liðnum uppsegjanlegt með eins mánaðar fyrirvara.

5.16. Hafnar og siglingaleyfi, þegar siglt er með aflann

Sigli skuttogari með afla til sölu á erlendan markað, skal í það minnsta helmingi háseta, að bátsmanni meðtöldum veitt leyfi frá störfum þar til skipið kemur aftur úr söluferðinni. Skulu skipverjarnir, sem siglingaleyfis njóta, halda óskertu kaupi þann tíma, sem skipið er í söluferðinni sbr. greinar 1.17 og 1.18 í almennu ákvæðum samningsins.

Komi skuttogari að loknum veiðum í aðra höfn en heimahöfn, hér á landi eða í Færeyjum, skal útgerðarmaður sjá skipverjum, sem fara í siglingafrí, fyrir flutningi til heimahafnar skipsins á sinn kostnað, þ.á.m. fæði og gistingu þar til komið er í heimahöfn.

Skipstjóri skal gæta þess, að leyfum sé réttilega skipt á skipverja, enda sé við það miðað, að hver þeirra sem á veiðum voru, fái leyfi í annarri hverri söluferð.

5.17. Útbúnaður skips og veiðarfæra á skuttogurum

Þegar skipverji er kvaddur til skips, skal miðað við að skip sé ferðbúið og sjóklárt á þeim tíma, þegar skipverjar koma um borð, þ.e. þilfar hreint, matvælum og veiðarfærum komið fyrir í skipinu. Veiðarfærum í veiðafærageymslu.

Öll stykki í trollinu skulu koma um borð bolsuð og tilsniðin til ísetningar. Belgir og pokar samanleystir með hlíf og kolllínumöskvum. Höfuðlínur og fiskilínur skulu koma splæstar og vafðar. Keðjufótreypi, grandarar og belgsnörlur og allir leggir skulu koma splæstir um borð.

Séu teknir nýir togvírar skulu þeir koma merktir niðurraktir og splæstir með augum, tilbúnir til að hífa inn á tromlur, og skulu skipverjar koma þeim fyrir á tromlurnar eftir að hafnarfríi er lokið.

5.18. Hvíldartími á skuttogurum

Hásetar skulu hafa 12 klst. til hvíldar og matar á hverjum 24 klukkustundum.


5.20. Frystitogarar

5.21. Togari sem frystir aflann um borð þ.m.t. síld og rækju

5.22. Skiptakjör


Skiptakjör:


30,5% miðað við 20 menn
31,0% miðað við 21 mann
31,5% miðað við 22 - 24 menn
32,0% miðað við 25 menn
32,5% miðað við 26 menn
33,0% miðað við 27 menn

Ef færri menn eru um borð en að ofan greinir skal skiptaprósentan lækka um 0,8 fyrir hvern mann sem á vantar.

Fyrir hvern mann sem er um borð umfram 27, skal skiptaprósentan hækka um 0,1%.

Fyrir frystitogara þar sem fjöldi í áhöfn hefur á tímabilinu 1.4.2000 – 1.4.2001 að jafnaði verið undir 20 verða ný viðmiðunarmörk vegna skiptingar milli áhafnar og útgerðar 18 menn. Skiptaprósentan á þessum skipum skal vera 30,5% miðað við 18-20 menn.“

 

5.23. Skilgreining skiptaverðmætis

Um skiptaverð fer samkv. lögum nr. 24/1986 með síðari breytingum. Sjá nánari skilgreiningu í 1.28, 1.29.

5.24. Laun skipverja sem annast fiskvinnsluvélar

Þeir 2 hásetar sem hafa yfirumsjón og eftirlit með fiskvinnsluvélum, skulu hafa 1 1/16 hásetahlut hvor.

Á frystitogara með 30 eða fleiri í áhöfn og fleiri en eina flökunarvél skulu umsjónarmenn fiskvinnsluvéla að öllu jöfnu vera 4 og skal hver fyrir sig hafa 1 1/16 hásetahlut fyrir það starf. Sé um það samkomulag milli áhafnar og útgerða er heimilt að umsjónarmenn fiskvinnsluvéla séu tveir og skal þá hvor fyrir sig hafa 1 1/8 háestahlut.

Þetta ákvæði gildir hvort heldur skipið stundar eingöngu bolfiskveiðar eða stundar bæði bolfiskveiðar og rækjuveiðar í sömu veiðiferð. Stundi skipið eingöngu rækjuveiðar greiðast þessir aukahlutir ekki.

5.25. Laun matsmanns og vinnslustjóra

Sé skipverja sérstaklega falið að gegna störfum matsmanns eða vinnslustjóra á frystiskipi skal hann fá greiddar 24.154.- á mánuði. Hafi matsmaður hærri laun við undirritun samnings þessa skal hann halda þeim óbreyttum.

5.27. Uppgjör

Skipverjar skulu fá 90% áætlaðs aflahlutar í lok hverrar veiðiferðar. Endanlegt uppgjör fari fram eigi síðar en í lok næstu veiðiferðar. Trúnaðarmaður skipverja skal fá í hendur sölunótur afurða þegar hann óskar þess.

5.28. Álag á aflahlut

Greiða skal 7% álag á aflahlut hvers og eins í áhöfn.

5.29. Hafnarfrí

Hafnarfrí skal vera 1 klst. fyrir hverjar 6 1/2 klst. af útivistartíma skips. Hafnarfrí skal þó aldrei var skemmri tími en 30 klst. að lokinni útivist hverju sinni.

Útivist skipsins skal reiknast frá því skipið leggur af stað úr höfn í veiðiferð til þess tíma sem skip kemur til hafnar og hafnarfrí hefst.

Hafnarfrí skal ávallt tekið í heimahöfn.

Nú breytist til lengingar samningsbundinn tími hafnarfrís, skal þá tilkynna skipshöfn með minnst fjögurra klst. fyrirvara breyttan brottfarartíma.

Sé skipið ekki tilbúið til brottfarar klukkustund eftir tilkynntan brottfarartíma, og sökin er útgerðarinnar, ber skipstjóra að fresta brottför um 4 klst.

Skipverjar skulu eiga rétt á fríi þriðju hverja veiðiferð. Ekki er þó skylt að gefa fleiri en þriðjungi skipverja frí í hverri veiðiferð til þess að tryggð sé eðlileg vinnsla um borð, nema sérstakar ástæður liggi fyrir.

Eigi síðar en á 26. degi veiðiferðar og aldrei seinna en 4 sólarhringum áður en veiðiferð lýkur skal tilkynna áhöfn hvenær henni lýkur.

Tvisvar sinnum á ári skal til hagræðingar heimilt að ljúka ekki veiðiferð þó að komið sé til hafnar og hluta af aflanum landað úr skipinu. Veiðiferð skal þó aldrei vera lengri en 40 sólarhringar.

Skiptimannakerfi á vinnsluskipum

Heimilt er, ef 2/3 áhafnar samþykkir í leynilegri atkvæðagreiðslu, að taka upp fast skiptimannakerfi, þannig að skipverjar fari tvær veiðiferðir og eigi frí þá þriðju. Samningur um slíkt skiptimannakerfi skal gilda að minnsta kosti til eins árs í senn og skulu þá hafnarfrí tekin sem hér segir:

Taki útivist skemmri tíma en 33 sólarhringa skal hafnarfrí vera að lágmarki 72 klst. að útivist lokinni. Fyrir hvern byrjaðan sólarhring sem útivist er lengri en 33 sólarhringar skal hafnarfrí lengjast um 4 klst. Útivist skal þó aldrei vera lengri en 40 sólarhringar. Hafnarfrí skal ávallt tekið í heimahöfn skips.

Við upphaf veiðiferðar skal tilkynna áhöfn hvenær áætlað er að veiðiferð ljúki. Verði breytingar á áætlaðri lengd veiðiferðar skal það tilkynnt áhöfn eins fljótt og verða má.

Útgerð skal upplýsa áhöfn um áætlaða lengd veiðiferða a.m.k. þrjá mánuði fram í tímann. Jafnframt skal áhöfn tilkynnt eins fjótt og verða má verði breytingar á áætlun. Breytingar frá áætlun varða ekki viðurlögum.

5.30. Vélstjórar

Þegar hafnarfrí eru gefin skal gilda sú aðalregla, að útgerðarmaður sjái um, að vélstjórar þurfi ekki að hafa eftirlit með skipi.

Þurfi vélstjórar að hafa eftirlit með skipum skal þeim greitt kaup samkvæmt launaskrá samningsaðila þessa. Auk þess skal útgerðarmaður sjá vélstjóra fyrir fari, ef hann þarf að fara á milli byggðarlaga í eftirlitsferðir.

Við komu skips úr veiðiferð, taki vaktmaður úr landi við gæslu í vélarrúmi. Yfirvélstjóri afhendi skýrslu yfir það, sem gera þarf, og segir til um, hvernig viðgerð skuli framkvæmd, ef um viðgerð er að ræða. Einnig leggi hann fram skrá um nauðsynjar, sem skipið þarfnast fyrir næstu veiðiferð, og sé því skilað um borð. Þurfi vélstjóri að vinna störf vaktmanns, skal honum greitt yfirvinnukaup fyrir þann tíma.

5.31. Aðstoð við matsvein

Séu 25 menn eða færri í áhöfn skal háseti aðstoða matsvein 2½ klst. á sólarhring eftir óskum matsveins. Sú aðstoð skal fara fram á vinnuvakt hásetans.

Séu 26 menn í áhöfn eða fleiri skal vera aðstoðarmaður matsveins, og telst hann ekki til eiginlegrar skipshafnar við ákvörðun á mannafjölda og skiptaprósentu. Aðstoðarmaðurinn skal hafa föst mánaðarlaun skv. kaupskrá aðila, sem greiðist af útgerð skipsins, óháð hlutaskiptum annarra skipverja. Vinnutími hans skal vera 10 klst. á sólarhring á tímabilinu frá kl. 08:30 til kl. 22:00 eftir nánari ákvörðun matsveinsins. Sé aðstoðarmaður ekki um borð skal matsveinn fá laun aðstoðarmannsins til viðbótar sínum aflahlut. Útgerðarmaður skal hafa samráð við matsveininn, ef gera þarf lagfæringar í eldhúsi vegna fjölgunar í áhöfn skipsins.

5.32. Útbúnaður skips og veiðarfæra á frystitogurum.

Þegar skipverji er kvaddur til skips, skal miðað við að skip sé ferðbúið og sjóklárt á þeim tíma, þegar skipverjar koma um borð, þ.e. þilfar hreint, og vinnsludekk að öllu leyti tilbúið fyrir vinnslu, enda hafi því verið skilað hreinu af áhöfn, matvælum og veiðarfærum komið fyrir í skipinu. Veiðarfærum í veiðarfærageymslu.

Öll stykki í trollinu skulu koma um borð bolsuð með línum þar sem við á og tilbúin til ísetningar. Belgir, skutnet og pokar samanleystir með línum, hlífum og kolllínumöskvum. Grandarar, gilsar og allir aðrir leggir og keðjur skulu koma splæstir og vafðir þar sem við á, um borð.

Séu teknir nýir togvírar skulu þeir koma merktir, niðurraktir og splæstir með augum, tilbúnir til að hífa inn á tromlurnar, og skulu skipverjar koma þeim fyrir á tromlunum að hafnarfríi loknu.

5.33. Gildissvið

Að öðru leyti gilda öll ákvæði alm. bátakjarasamninga eins og við á um skuttogara.


5.40. Bátar sem frysta bolfisk um borð

5.41. Skiptakjör

30,5% miðað við 16 menn

Ef færri menn eru um borð en að ofan greinir skal skiptaprósentan lækka um 1,2 fyrir hvern mann sem á vantar.

Fyrir hvern mann sem er um borð umfram framangreindan fjölda, skal skiptaprósentan hækka um 1,2.

5.42. Skilgreining skiptaverðmætis

Um skiptaverð fer samkv. lögum nr. 24/1986 með síðari breytingum. Sjá nánari skilgreiningu í 1.28 1.29 og 1.30.

5.43. Yfirumsjón með fiskvinnsluvélum

Sá skipverji, sem hefur yfirumsjón og eftirlit með fiskvinnsluvélum, skal hafa 1/16 hlut til viðbótar sínum aflahlut fyrir það starf, enda verði flökunarvélar notaðar í skipum af þessari stærð.

5.44. Uppgjör

Hver veiðiferð skal teljast sérstakt kauptryggingartímabil.

Skipverjar skulu fá 90% áætlaðs aflahlutar í lok hverrar veiðiferðar. Endanlegt uppgjör fari fram eigi síðar en í lok næstu veiðiferðar. Trúnaðarmaður skipverja skal fá í hendur sölunótur afurða þegar hann óskar þess.

5.45. Álag á aflahlut

Greiða skal 7% álag á aflahlut hvers og eins í áhöfn.

5.47. Gildissvið

Að öðru leyti gilda öll almenn ákvæði eins og við á um skip samsvarandi stærða á veiðum með botnvörpu.

 



5.50. Togskip sem salta fisk um borð

5.51. Skiptakjör

Skipverjar skulu fá í sinn hlut eftirtalinn hundraðshluta af skiptaverðmæti:

29,0% miðað við 14 menn
29,0% miðað við 15 menn
29,5% miðað við 16 menn
30,0% miðað við 17 menn
30.5% miðað við 18 menn
31,0% miðað við 19 menn
31,5% miðað við 20 menn
31,5% miðað við 21 mann
31,5% miðað við 22 menn

Ef færri menn eru á skipi en að ofan greinir skal skiptaprósentan lækka um 1,2 fyrir hvern mann sem fækkað er um.

Séu fleiri menn á skipi í veiðiferð en tilgreint er hér að framan skal skiptaprósentan hækka um 1,2 fyrir hvern mann sem fleiri eru í áhöfn skips.

5.52. Skilgreining skiptaverðmætis

Þegar seldur er afli fiskiskips, sem saltar afla um borð, skal draga frá fob-verðmæti framleiðslunnar kostnað í landi við frekari vinnslu og frágang aflans til útflutnings, áður en skiptaverð er reiknað. Í þessu sambandi telst kostnaður vera vegna launa og tengdra gjalda, salts, orku, húsa- og tækjanotkunar, snyrtingar, ormahreinsunar, umsöltunar, stæðaraflokkunar, gæðamats og pökkunar.

Framangreindur frádráttur skal vera fyrir flattan og flakaðan fisk sem hér segir:

1) Kr. 97.- hver kg. saltfisks, sem pakkað er í öskjur sem nema 50 kg. eða minna
2) Kr. 88.- hvert kg. saltfisks, sem pakkað er í aðrar pakkningar en tilgreint er í lið 1.
3) Ef um flökun og söltun er að ræða, þá hækka kr. 97.- í kr. 112.- og úr kr. 88.- í kr. 105.-.

Ef umsaltað er um borð skal frádráttarupphæðin vera 14 kr./kg lægri en að framan greinir fyrir þann afla sem umsaltaður er. Krónutöluliðir breytast í sama hlutfallli og kauptrygging og kaupliðir.

Af fob-verðmæti að frádregnum framangreindum kostnaði reiknast síðan sama skiptaverðmætisprósenta og gildir á hverjum tíma fyrir afla seldan innanlands.

5.53. Álag á aflahlut

Greiða skal 4,5% álag á aflahlut vegna saltaðra afurða.

5.54. Aukagreiðslur

Netamenn skulu vera tveir og hafa 1 1/8 hásetahlut hvor. Bátsmaður skal hafa 1 1/5 hásetahlut.

5.55. Yfirumsjón með fiskvinnsluvélum

Þeir skipverjar, sem hafa yfirumsjón og eftirlit með fiskvinnsluvélum skulu hafa 1/16 hlut til viðbótar sínum aflahlut fyrir það starf.

5.57. Uppgjör

Hver veiðiferð skal teljast sérstakt kauptryggingartímabil. Skipverjar skulu fá 90% áætlaðs aflahlutar í lok hverrar veiðiferðar. Endanlegt uppgjör fari fram eigi síðar en 30 dögum eftir lok veiðiferðar. Trúnaðarmaður skipverja skal fá í hendur sölunótur afurða.

5.58. Löndunarfrí

Skipverjar skulu eiga frí við löndun.

5.59. Hafnarfrí

Hafnarfrí skal vera 1 klst. fyrir hverjar 6 1/2 klst. af útivistartíma skips. Hafnarfrí skal þó aldrei vera skemmri tími en 30 klst. að lokinni útivist hverju sinni.

Útivist skipsins skal reiknast frá því skipið leggur af stað úr höfn í veiðiferð til þess tíma sem skip kemur til hafnar og hafnarfrí hefst. Hafnarfrí skal ávallt tekið í heimahöfn skipsins.

Nú breytist til lengingar samningsbundinn tími hafnarfrís skal tilkynna skipshöfn með minnst fjögurra klst. fyrirvara breyttan brottfarartíma.

Sé skipið ekki tilbúið til brottfarar klukkustund eftir tilkynntan brottfarartíma og sökin er útgerðarinnar ber skipstjóra að fresta brottför um 4 klst.

Skipverjar skulu eiga rétt á fríi þriðju hverja veiðiferð. Ekki er þó skylt að gefa fleiri en þriðjungi skipverja frí í hverri veiðiferð, til þess að tryggð sé eðlileg vinnsla um borð, nema sérstakar ástæður liggi fyrir.

Útgerðarmaður skal sjá skipverja fyrir fari, ef hann þarf að fara á milli byggðarlaga í eftirlitsferðir.

Um skiptimannakerfi á vinnsluskipum
Heimilt er, ef 2/3 áhafnar samþykkir í leynilegri atkvæðagreiðslu, að taka upp fast skiptimannakerfi á skipum sem vinna aflann um borð, þannig að skipverjar fari tvær veiðiferðir og eigi frí þá þriðju. Samningur um slíkt skiptimannakerfi skal gilda að minnsta kosti til eins árs í senn og skulu þá hafnarfrí tekin sem hér segir:

Taki útivist skemmri tíma en 33 sólarhringa skal hafnarfrí vera að lágmarki 72 klst. að útivist lokinni. Fyrir hvern byrjaðan sólarhring sem útivist er lengri en 33 sólarhringar skal hafnarfrí lengjast um 4 klst. Útivist skal þó aldrei vera lengri en 40 sólarhringar. Hafnarfrí skal ávallt tekið í heimahöfn skipsins.

5.60. Vélstjórar

Þegar hafnarfrí eru gefin skal gilda sú aðalregla, að útgerðarmaður sjái um að vélstjórar þurfi ekki að hafa eftirlit með skipi. Þurfi vélstjóri að hafa eftirlit með skipi, skal honum greitt tímakaup skv. launatöflu.

5.61. Útbúnaður skips og veiðarfæra

Þegar skipverji er kvaddur til skips, skal miðað við að skip sé ferðbúið og sjóklárt á þeim tíma þegar skipverjar koma um borð, þ.e. þilfar hreint og vinnsludekk að öllu leyti tilbúið fyrir vinnslu, enda hafi því verið skilað hreinu af áhöfn, matvælum og veiðarfærum komið fyrir í skipinu. Veiðarfærum í veiðarfærageymslu.

Öll stykki í trollinu skulu koma um borð bolsuð með línum þar sem við á og tilbúin til ísetningar. Belgir, skutnet og pokar samanleystir með línum, hlífum og kolllínumöskvum. Grandarar, gilsar og allir aðrir leggir skulu koma splæstir og vafðir þar sem við á, um borð.

Séu teknir nýir togvírar skulu þeir koma merktir, niðurraktir og splæstir með augum, tilbúnir til að hífa inn á tromlurnar, og skulu skipverjar koma þeim fyrir á tromlunum að hafnarfríi loknu.

5.62. Gildissvið

Að öðru leyti gilda öll almenn ákvæði eins og á við um skuttogara.



VI. kafli.

SÍLDVEIÐAR.

6.01. Skiptakjör á síldveiðum með hringnót

Á síldveiðum með hringnót skal hlutur skipverja af skiptaverðmæti skipsins vera sem hér segir:

Á skipum að 201 rúml., 30,3% miðað við 12 menn
Á skipum 201 240 rúml., 30,1% miðað við 14 menn
Á skipum 241 300 rúml., 29,1% miðað við 14 menn
Á skipum 301 500 rúml., 29,0% miðað við 14 menn
Á skipum 501 og stærri 28,2% miðað við 16 menn

Ef færri menn eru um borð en að ofan greinir skal skiptaprósentan lækka um 1,3 fyrir hvern mann sem fækkað er um.

Séu fleiri menn á skipi en að ofan greinir hækkar skiptaprósentan um 1,3 fyrir hvern mann sem umfram er.

6.02. Skiptakjör á síldveiðum með flotvörpu

Á síldveiðum með flotvörpu skal hlutur skipverja af skiptaverðmæti skipsins vera sem hér segir:

Á skipum að 201 rúml, 30,0% miðað við 10 menn
Á skipum 201 - 240 rúml, 30,0% miðað við 14 menn
Á skipum 241 - 500 rúml, 29,0% miðað við 14 menn
Á skipum 501 og stærra 28,5% miðað við 15 menn

Ef færri menn eru um borð en að ofan greinir skal skiptaprósentan lækka um 1,1 fyrir hvern mann sem fækkað er um.

Séu fleiri menn á skipi en að ofan greinir hækkar skiptaprósentan um 1,1 fyrir hvern mann sem umfram er.

6.03. Hvíldartími

Skipverjar skulu hafa minnst 6 klst. hvíld á sólarhring.

6.04. Hafnarfrí

Skipverjum verði af hverjum 30 dögum úthaldsins tryggt fjögurra sólarhringa (96 klst.) frí í heimahöfn frá því að vertíð hefst og þar til henni lýkur. Heimilt er að taka fríið í fernu lagi þó aldrei skemmri tíma en 24 klst. samfellt. Ef skip siglir ekki til heimahafnar skal ferðakostnaður greiddur af útgerðinni.

Frítaka telst hafin þá komið er til heimahafnar.

Á síldveiðum skulu skipverjar hafa frí á sjómannadaginn.

Skipverjum skal tryggt frí í heimahöfn á tímabilinu frá og með 20. desember til og með 2. janúar.

6.05. Vinnulaun við útbúnað skips og veiðarfæra á síldveiðum

Skipverjar sem vinna við útbúnað skips fyrir vertíð eða að vertíð lokinni, skulu fá þá vinnu greidda með tímakaupi skv. launatöflu.

Skipverjar skulu án aukagreiðslu taka veiðarfæri skips í veiðarfærageymslu, og koma þeim fyrir í skipinu. Sama gildir um að skila veiðarfærum í vertíðarlok. Ennfremur að taka í land uppstillingu og áhöld á þilfari, þvo lest og þilfar, enda sé það gert strax og vertíð lýkur.

Skipverjum er heimilað að vinna við nótaviðgerð erlendis og skulu þeir fá greitt fyrir þá vinnu kr. 1.663. pr. klst. miðað við dagvinnu.

6.06. Skiptaverð og sala aflans

Um skiptaverð fer skv. lögum nr. 24/1986 með síðari breytingum. sjá nánari skilgreiningu í 1.28, 1.29.

6.07. Matsveinn

Á skipum sem stunda síldveiðar, ber matsveini að elda í höfn, ef skipverjar eru um borð, þó ekki í heimahöfn, nema skipverjar séu við vinnu um borð.

6.08. Löndunarfrí

Allir skipverjar skulu undanþegnir löndun, þ.e. störfum í lestum og á lúgum.
Frávik frá þessari reglu skulu heimil í undantekningartilvikum.

6.09. Net og nót

Óheimilt er að hafa net í sjó frá skipi sem veiðir með nót.

6.10. Fiskur dreginn á færi

Hásetar, matsveinar og vélstjórar á síldveiðiskipum eiga allan fisk er þeir draga á færi í sínum frítíma, eða þegar skip liggur í landvari og fái þeir ókeypis salt á hann hjá útgerðarmanni, enda sé öll lipurð sýnd af skipsráðanda um geymslustað fyrir fiskinn.



VII. kafli.

LOÐNUVEIÐAR

7.01. Skiptakjör á loðnuveiðum með hringnót

Á loðnuveiðum með hringnót skal hlutur skipverja af skiptaverðmæti skipsins vera sem hér segir:

Á skipum að 201 rúml. 30,3% miðað við 12 menn
Á skipum 201 240 rúml. 30,1% miðað við 14 menn
Á skipum 241 300 rúml. 29,1% miðað við 14 menn
Á skipum 301 500 rúml. 29,0% miðað við 14 menn
Á skipum 501 og stærri 28,2% miðað við 15 menn

Ef færri menn eru á skipi en að ofan greinir skal skiptaprósentan lækka um 1,3 fyrir hvern mann sem fækkað er um.

Séu fleiri menn á skipi en að ofan greinir hækkar skiptaprósentan um 1,3 fyrir hvern mann sem umfram er.

7.02. Skiptakjör á loðnuveiðum með flotvörpu

Á loðnuveiðum með flotvörpu skal hlutur skipverja af skiptaverðmæti skipsins vera sem hér segir:

Á skipum að 201 rúml. 30,0% miðað við 10 menn
Á skipum 201 240 rúml. 30,0% miðað við 14 menn
Á skipum 241 500 rúml. 29,0% miðað við 14 menn
Á skipum 501 og stærri 28,5% miðað við 15 menn

Ef færri menn eru á skipi en að ofan greinir skal skiptaprósentan lækka um 1,1 fyrir hvern mann sem fækkað er um.

Séu fleiri menn á skipi en að ofan greinir hækkar skiptaprósentan um 1,1 fyrir hvern mann sem umfram er.

7.03. Hvíldartími

Skipverjar skulu hafa minnst 6 klst. hvíld á sólarhring.

7.04. Hafnarfrí

Skipverjum verði af hverjum 30 dögum úthaldsins tryggt fjögurra sólarhringa (96 klst.) frí í heimahöfn frá því að vertíð hefst og þar til henni lýkur. Heimilt er að taka fríið í tvennu lagi þó aldrei skemmra en 24 klst. samfellt. Hafnarfrí skal teljast í heilum sólarhringum, þannig að hafnarfrí sem veitt er umfram 24 klst, en nær ekki 48 klst. fellur niður. Frítaka telst hafin þá komið er til heimahafnar.

Á loðnuveiðum skulu skipverjar hafa frí á sjómannadaginn,

Skipverjum skal tryggt frí í heimahöfn á tímabilinu frá og með 20. desember til og með 2. janúar.

7.05. Vinnulaun við útbúnað skips og veiðarfæra á loðnuveiðum

Skipverjar sem vinna við útbúnað skips fyrir vertíð eða að vertíð lokinni, skulu fá þá vinnu greidda með tímakaupi samkvæmt launatöflu.

Skipverjar skulu án aukagreiðslu taka veiðarfæri skips í veiðarfærageymslu, og koma þeim fyrir í skipinu. Sama gildir um að skila veiðarfærum í vertíðarlok. Ennfremur að taka í land uppstillingu og áhöld á þilfari, og þvo lest og þilfar, enda sé það gert strax og vertíð lýkur.

Skipverjum er heimilað að vinna að nótaviðgerð erlendis og skulu þeir fá greitt fyrir þá vinnu kr. 1.663 pr. klst. miðað við dagvinnu.

7.06. Skiptaverð og sala aflans

Sé siglt með loðnu til sölu í bræðslu erlendis, skal skiptaverðmæti aflans vera skv. 2. gr. laga nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, sbr. lög nr. 21/1987 um breytingu á þeim lögum. Sjá nánar 1.28, 1.29.

7.07. Net og nót
Óheimilt er að hafa net í sjó frá skipi sem veiðir með nót.

7.08. Matsveinn

Á skipum sem stunda loðnuveiðar, ber matsveini að elda í höfn, ef skipverjar eru um borð, þó ekki í heimahöfn, nema skipverjar séu við vinnu um borð.

7.09. Löndunarfrí

Allir skipverjar skulu undanþegnir löndun, þ.e. störfum í lestum og á lúgum.
Frávik frá þessari reglu skulu heimil í undantekningartilvikum.

7.10. Fiskur dreginn á færi

Hásetar, matsveinar og vélstjórar á loðnuveiðiskipum eiga allan fisk er þeir draga á færi í sínum frítíma, eða þegar skip liggur í landvari og fái þeir ókeypis salt á hann hjá útgerðarmanni, enda sé öll lipurð sýnd af skipsráðanda um geymslustað fyrir fiskinn.


7.30. Loðna fryst um borð í frystiskipi sem liggur við bryggju, þegar aflinn er keyptur af öðru veiðiskipi

7.31. Skilgreining skiptaverðs

Frá fob-verðmæti frystra afurða skal draga kostnað við hráefniskaup til vinnslunnar, miðað við loðnuna komna við skipshlið, áður en skiptaverð er reiknað.

7.32. Skilgreining á vinnu

Áhöfnin tekur að sér að koma hráefni um borð í skipið frá bryggju, annað hvort með dælu eða í körum með krana skipsins. Áhöfnin tekur að sér að koma úrgangsloðnu á flutningstæki við skipshlið og fullunnum vörum annað hvort í frystilest skipsins eða í frystigám á bryggju ef henta þykir. Meðan á framleiðslu stendur skal reglulega taka sýni af framleiðslunni og skrá niðurstöður á þar til gert eyðublað.

7.33. Uppgjör

Skipverji skal fá greidda kauptryggingu vikulega að frádregnum venjulegum gjöldum. Eigi síðar en 2 dögum eftir að vinnslu er lokið skulu skipverjar fá greitt 80% af áætluðum aflahlut. Endanlegt uppgjör skal fara fram strax og endanlegt söluverð liggur fyrir og úttekt á framleiðslunni hefur farið fram.

7.34. Önnur atriði

Ef 18 menn eða færri eru á skipinu skal skiptaprósentan vera 29,5%. Skiptaprósentan skal vera 30,0% ef 19 menn eru á skipinu.

Að öðru leyti en að framan greinir skulu laun reiknuð samkvæmt samningi um frystiskip, nema frystiálag reiknast 3,5%.


VIII. kafli.

HUMARVEIÐAR

8.01. Skiptakjör á veiðum með humarvörpu

Á skipum að 31 rúml., 34,0% miðað við 6 menn
Á skipum 31 50 rúml., 33,5% miðað við 6 menn
Á skipum 51 110 rúml., 32,5% miðað við 7 menn
Á skipum 111 240 rúml., 31,5% miðað við 9 menn
Á skipum 241 300 rúml., 30,5% miðað við 9 menn

Ef færri menn eru í áhöfn en að ofan greinir skal skiptaprósentan lækka um 0,5 fyrir hvern mann sem á vantar.

Ef fleiri menn eru á skipi en að ofan greinir skal skiptaprósentan hækka um 0,5 fyrir hvern mann sem umfram er.

Sé veitt í botnvörpu og humarvörpu í sömu veiðiferð, skulu humarveiðikjör gilda um allan aflann úr veiðiferðinni.

8.02. Hvíldartími

Skipverjar skulu hafa minnst 6 klst. hvíld á sólarhring.

8.03. Helgarfrí

Á humarveiðum skulu helgarfrí vera um aðra hverja helgi frá kl. 16:00 á föstudögum til kl. 16:00 á sunnudögum til loka humarvertíðar.

Þó skal heimilt, ef betur hentar, og samkomulag verður milli samningsaðila á viðkomandi stað, að breyta um tíma á tímabilinu frá fimmtudegi til mánudags, þó þannig að samfellt frí verði minnst 48 klst. og byrji aldrei fyrr en kl. 16:00 á fimmtudegi en ljúki ekki síðar en kl. 12:00 á mánudegi. Heimilt er með samkomulagi samningsaðila á viðkomandi stað að bátar frá sömu útgerðarstöð skiptist á um að taka helgarfrí og skal þá stefnt að því að sem næst helmingur báta séu úti í einu.

Heimilt skal félagi sjómanna og útvegsmanna á viðkomandi útgerðarstað að semja um tilfærslu á 48 klst. helgarfríum aðra hvora helgi, þannig að þau megi hefjast í fyrsta lagi kl. 16:00 á fimmtudögum.

Skipverjum á humarbátum skal tryggt 6 klst. frí eftir hverja löndun.

Sé bátur skilinn eftir utan lögskráningarstaðar áhafnar skal útgerðarmaður sjá skipverjum fyrir fari frá og til útgerðarstaðar skipsins í helgarfríum.

Á föstudaginn langa, páskadag og sjómannadaginn skal ekki róið eða verið á sjó.

Heimilt er SFS vegna einstakra útgerða og stéttarfélögum viðkomandi skipverja að semja um að hafnarfrí verði tekin í frítúrum þannig að skipið stoppi ekki umfram þann tíma sem tekur að landa afla og búa skipið undir næstu veiðiferð. Í slíkum samningi skal kveðið á um að tekið verði upp skiptimannakerfi þannig að hver skipverji vinni að jafnaði 22 daga í hverjum mánuði, en eigi frí aðra daga mánaðarins. Komi til þess að ekki fiskist fyrir kauptryggingu innan mánaðar skal greiða hverjum skipverja kauptryggingu miðað við fullan mánuð enda hafi viðveruskylda skipverjans verið 22 dagar í mánuðinum. Heimilt er skipverjum í samráði við útgerð að ákveða jafnaðarlaunakerfi samhliða því að slíkt skiptimannakerfi er tekið upp.

8.04. Vinnulaun við útbúnað skips og veiðarfæra

Hlutamenn, sem vinna við útbúnað skips eða veiðarfæra í byrjun vertíðar eða að vertíð lokinni, skulu fá þá vinnu greidda með tímakaupi samkvæmt launatöflu.

Fari vinna þessi fram utan heimahafnar skipsins, greiðir útgerðin auk þess uppihald og ferðir skipverja.

Útgerðarmaður skilar alltaf öllum veiðarfærum fullbúnum að skipi eða í veiðarfærahús bátsins, en skipverjar taka við þeim og koma þeim fyrir í skipinu, skipta um uppstillingu á þilfari og slá undir botnvörpu, án sérstakrar greiðslu, enda sé það gert um leið og veiðar byrja. Sama gildir um að skila veiðarfærum í vertíðarlok. Ennfremur að taka í land í vertíðarlok uppstillingu og áhöld á þilfari og þvo lest.

8.05. Net og varpa

Óheimilt er að hafa net í sjó frá skipi sem veiðir með humarvörpu.


IX. kafli.

RÆKJUVEIÐAR.

9.00. Landað daglega, eða afli ísaður um borð

9.01. Skiptakjör

Á skipum að 31 rúml., 32,0% miðað við 3 menn
Á skipum 31 50 rúml., 32,0% miðað við 4 menn
Á skipum 51 110 rúml., 31,0% miðað við 5 menn
Á skipum 111 239 rúml., 29,5% miðað við 6 menn
Á skipum 240 250 rúml., 28,5% miðað við 7 menn
Á skipum 251 500 rúml., 29,0% miðað við 8 menn
Á skipum 501 og stærri 29,3% miðað við 9 menn

Ef færri menn eru á skipinu en að ofan greinir skal skiptaprósentan lækka um 2,0 fyrir hvern mann sem á vantar.

Ef fleiri menn eru á skipinu en að ofan greinir, skal skiptaprósentan hækka um 2,0 fyrir hvern mann sem umfram er.

9.02. Aukagreiðslur

a) Netamaður á rækjuskipi skal hafa 1 1/8 hásetahlut.
b) Á rækjuskipum 250 rúmlestir og stærri skulu netamenn vera tveir.

9.03. Hvíldartími

Skipverjar á dagróðrarbátum skulu hafa minnst 6 klst. hvíld á sólarhring. Skipverjar á útilegubátum skulu hafa minnst 8 klst. hvíld á sólarhirng.

9.04. Helgarfrí á rækjubátum, er leggja afla að landi daglega

Á rækjuveiðum skulu vera helgarfrí. Á tímabilinu frá sjómannadagshelgi til ágústloka skulu vera helgarfrí um aðra hverja helgi frá kl. 16.00 á föstudögum til kl. 16:00 á sunnudögum. Þó skal heimilt, ef betur hentar, og samkomulag verður milli samningsaðila á viðkomandi stað, að breyta um tíma á tímabilinu frá föstudegi til mánudags, þó þannig að samfellt frí verði minnst 48 klst. og byrji aldrei fyrr en kl. 16:00 á föstudegi en ljúki ekki síðar en kl. 12:00 á mánudegi.

Heimilt er með samkomulagi samningsaðila á viðkomandi stað að bátar frá sömu útgerðarstöð skiptist á um að taka helgarfrí og skal þá stefnt að því að sem næst helmingur báta séu úti í einu.

9.05. Hafnarfrí á rækjuskipum, sem eru á útilegu og ísa aflann um borð

Á öllum skipum er stunda veiðar með rækjuvörpu og eru í útilegu og ísa aflann um borð og landa, skulu skipverjar hafa hafnarfrí í 24 klst. eftir hverja veiðiferð.

Eigi er skylt að hafa hafnarfrí í 24 klst. ef veiðiferð tekur skemmri tíma en 5 sólarhringa en hafnarfrí skal þó eigi vera skemmri tími en tekur að skipa upp aflanum og búa skip í næstu veiðiferð, þó aldrei skemmri tími en 6 klst.

Hafnarfrí sem veitt er umfram 24 klst. skal teljast í hálfum og heilum sólarhringum, þannig að klst. sem ekki ná heilum og hálfum sólarhring falla niður.

Skipverjum skulu tryggðir minnst fjórir frídagar í mánuði, þ.e. af hverjum 30 dögum úthaldsins eru fjórir frídagar.

Sé bátur skilinn eftir utan lögskráningarstaðar, skal útgerðarmaður sjá skipverjum fyrir fari til útgerðarstaðar skipsins í hafnarfríum.

Útgerðin greiðir ferðakostnað til og frá heimahöfn og telst frítaka hafin, þá komið er til heimahafnar.

Frávik frá 24 klst. hafnarfríi eftir hverja veiðiferð
Komi ósk frá skipverjum til stéttarfélaga þeirra um að hafnarfrí verði tekin með öðrum hætti en að framan greinir og í stað þess tekin samtals fjögurra sólarhringa hafnarfrí fyrir hverja 30 daga úthaldsins, skulu stéttarfélögin í sameiningu láta fara fram leynilega atkvæðagreiðslu um slíka tilhögun á hafnarfríunum meðal þeirra skipverja sem ráðnir eru á skipið. Samþykki meiri hluti skipverja í leynilegri atkvæðagreiðslu þannig tilhögun á hafnarfríum skulu félögin ganga frá slíku samkomulagi við útgerðina þar sem m.a. komi fram hvernig fríum verði háttað. Samkomulag um slík frávik frá hafnarfríum skal gilda í a.m.k. 12 mánuði í senn og er að þeim tíma liðnum uppsegjanlegt með eins mánaðar fyrirvara. Ákvæði þetta kemur þá að öllu leyti í stað ákvæða 1. og 2. mgr. Hafnarfrí telst aldrei skemmri tími en 24 klst.

9.06. Löndunarfrí

Á þeim skipum sem stunda útileguveiðar með rækjuvörpu skulu skipverjar hafa frí við löndun. Þó er þeim heimilt að landa aflanum, enda fái þeir þá vinnu greidda með kr. 1.331. fyrir hverja smálest, sem skiptist jafnt á milli þeirra er að löndun vinna, svo sem samrýmist störfum þeirra hvers og eins.


9.10. Rækjuveiðar, þegar aflinn er unninn um borð

9.11. Skiptakjör á rækjuveiðum, þegar aflinn er unninn um borð

29,6% miðað við 15 menn
30,8% miðað við 16 menn
31,3% miðað við 17 menn
31,8% miðað við 18 menn
32,3% miðað við 19 menn
32,6% miðað við 20 menn
32,9% miðað við 21 mann
33,3% miðað við 22 menn

Ef færri menn eru á skipi en að ofan greinir skal skiptaprósentan lækka um 1,2 fyrir hvern mann sem á vantar.

Séu fleiri menn á skipi í veiðiferð en tilgreint er hér að framan skal skiptaprósentan hækka um 1,2 fyrir hvern mann sem fleiri eru í áhöfn skips.

9.12. Skilgreining skiptaverðmætis á rækjuveiðiskipum sem vinna aflann um borð

Um skilgreiningu skiptaverðmætis fer skv. lögum nr. 24/1986, með síðari breytingum, sbr. grein 1.28, 1.29.

9.13. Aukagreiðslur

a) Á rækjuskipum 250 rúmlestir og stærri sem frysta rækju um borð skal vera bátsmaður og skal hann hafa 1 1/5 hásetahlut
b) Netamaður á rækjuskipi skal hafa 1 1/8 hásetahlut.
c) Á rækjuskipum 250 rúmlestir og stærri sem frysta aflann um borð skulu netamenn vera tveir.

9.14. Hvíldartími

Á skipum, sem vinna aflann um borð skal unnið á 6 klst. vöktum, þannig að skipverjar hafi 12 klst. hvíld á sólarhring.

9.15. Hafnarfrí

Hafnarfrí skal vera 1 klst. fyrir hverjar 6 1/2 klst. af útivistartíma skips. Hafnarfrí skal þó aldrei var skemmri tími en 30 klst. að lokinni útivist hverju sinni.

Útivist skipsins skal reiknast frá því skipið leggur af stað úr höfn í veiðiferð til þess tíma sem skip kemur til hafnar og hafnarfrí hefst. Hafnarfrí skal ávallt tekið í heimahöfn skips.

Útgerðin greiði ferðakostnað til og frá heimahöfn og telst frítaka hafin þá komið er til heimahafnar.

Nú breytist til lengingar samningsbundinn tími hafnarfrís, skal þá tilkynna skipshöfn með minnst fjögurra klst. fyrirvara breyttan brottfarartíma.

Sé skipið ekki tilbúið til brottfarar klukkustund eftir tilkynntan brottfarartíma, og sökin er útgerðarinnar, ber skipstjóra að fresta brottför um 4 klst.

Skipverjar skulu eiga rétt á fríi fjórðu hverja veiðiferð.

Útgerðarmaður skal sjá skipverja fyrir fari, ef hann þarf að fara á milli byggðarlaga í eftirlitsferðir.

Um skiptimannakerfi á vinnsluskipum
Heimilt er, ef 2/3 áhafnar samþykkir í leynilegri atkvæðagreiðslu, að taka upp fast skiptimannakerfi á skipum sem vinna aflann um borð, þannig að skipverjar fari tvær veiðiferðir og eigi frí þá þriðju. Samningur um slíkt skiptimannakerfi skal gilda að minnsta kosti til eins árs í senn og skulu þá hafnarfrí tekin sem hér segir:

Taki útivist skemmri tíma en 33 sólarhringa skal hafnarfrí vera að lágmarki 72 klst. að útivist lokinni. Fyrir hvern byrjaðan sólarhring sem útivist er lengri en 33 sólarhringar skal hafnarfrí lengjast um 4 klst. Útivist skal þó aldrei vera lengri en 40 sólarhringar. Hafnarfrí skal ávallt tekið í heimahöfn.

9.16. Vélstjórar

Þegar hafnarfrí eru gefin skal gilda sú aðalregla að útgerðarmaður sjái um, að vélstjórar þurfi ekki að hafa eftirlit með skipi. Þurfi vélstjóri að hafa eftirlit með skipi, skal honum greitt tímakaup skv. launatöflu.

Auk þess skal útgerðarmaður sjá vélstjóra fyrir fari, ef hann þarf að fara á milli byggðarlaga í eftirlitsferðir.

9.17. Veiðar rækjuveiðiskipa utan íslenskrar fiskveiðilögsögu

Þegar rækjuveiðiskip veiðir utan íslenskrar fiskveiðilögsögu og landað er í erlendri höfn skulu hafnarfrí tekin skv. sérstöku samkomulagi sbr. grein 9.23 í kjarasamningi. Hafnarfrí skal ávallt tekið skv. 1. og 2. málsgrein landi skip innanlands eftir að hafa verið á veiðum utan íslenskrar lögsögu. Skipverjar skulu eiga rétt fríi þriðju hverja veiðferð.

9.18. Siglingaleyfi, þegar siglt er með aflann

Nú siglir skip með afla til sölu á erlendan markað, og fer þá um siglingaleyfi og hafnarfrí samkvæmt ákvæðum greinar þessarar.

Þegar skip kemur í heimahöfn að veiðum loknum skal í það minnsta helmingi háseta, að bátsmanni meðtöldum veitt leyfi frá störfum, þar til skip kemur aftur úr söluferð. Skulu skipverjar er siglingaleyfis njóta, halda óskertu kaupi þann tíma, sem skipið er í söluferð.

Komi skip að loknum veiðum í aðra innlenda höfn en heimahöfn eða í höfn í Færeyjum skulu siglingaleyfi þá veitt með sama hætti. Sér útgerðarmaður þá skipverjum sem leyfi hefur verið veitt, á sinn kostnað fyrir flutningi til heimahafnar skipsins, þ.á.m. fæði og gistingu þar til komið er til heimahafnar.

Skipstjóri skal gæta þess að leyfum sé réttilega skipt á skipverja enda sé við það miðað, að hver þeirra háseta sem á veiðum voru, fái leyfi í annarri hverri söluferð, svo og matsveinn, enda taki tveir úr áhöfn skipsins að sér matseld, útgerðinni að kostnaðarlausu.

9.19. Útbúnaður skips og veiðarfæra

Þegar skipverji er kvaddur til skips, skal miðað við að skip sé ferðbúið og sjóklárt á þeim tíma, þegar skipverjar koma um borð, þ.e. þilfar hreint, matvælum og veiðarfærum komið fyrir í skipinu. Veiðarfærum í veiðarfærageymslu og umbúðum í umbúðageymslu.

Öll stykki í trollinu skulu koma um borð bolsuð og tilsniðin til ísetningar. Belgir og pokar samanleystir með hlíf og kolllínumöskvum. Höfuðlínur og fiskilínur skulu koma splæstar og vafðar. Keðjufótreypi og grandarar og belgsnörlur og allir leggir skulu koma splæstir um borð.

Séu teknir nýir togvírar skulu þeir koma merktir og niðurraktir og splæstir með augum, tilbúnir til að hífa inn á tromlur, og skulu skipverjar koma þeim fyrir á tromlurnar eftir að hafnarfríi er lokið.

9.20. Tryggingartímabil

Á öllum rækjuskipum sem vinna aflann um borð telst hver veiðiferð sérstakt kauptryggingartímabil. Veiðiferð telst hafin er skip leggur úr höfn og henni telst lokið, er skip kemur til löndunar og samningsbundnu hafnarfríi er lokið.

Að loknu hafnarfríi mega líða 7 dagar án sérstakrar kaupgreiðslu og án vinnuskyldu. Að þeim tíma liðnum skal greiða kauptryggingu, enda sinni skipverjar samkvæmt beiðni 8 tíma vinnuskyldu á dag við skipið innan borðs og búnað þess.

Sé ráðningu skipverja slitið við komu skips til hafnar skal skipverjinn eiga rétt á tímakaupi út uppsagnarfrestinn gegn 8 klst. vinnuskyldu á dag við skipið innanborðs og búnað þess.

9.21. Uppgjör

Á rækjuveiðiskipum, sem vinna aflann um borð, skal útgerðarmaður hafa lokið uppgjöri og greiðslu við skipshöfn eigi síðar en 7 dögum eftir að endanleg skil liggja fyrir, þó aldrei síðar en 35 dögum eftir lok veiðiferðar.

Áætla skal aflamagn eftir hverja veiðiferð og greiða 80% af áætluðu aflaverðmæti, áður en næsta veiðiferð hefst. Ef um mannaskipti verður að ræða í veiðiferð, skal skipta aflaverðmæti eftir dagafjölda hvers manns í skipsrúmi.

9.23. Um hafnarfrí ofl. á skipum sem stunda veiðar utan íslenskrar fiskveiðilögsögu og landa í erlendri höfn

Hafnarfrí
Veita skal skipverjum 48 klst. hafnarfrí í þeirri höfn sem landað er. Útgerðarmaður greiðir skipverjum þeim sem fara tvær samliggjandi veiðiferðir kr. 7.412 á dag í dagpeninga fyrir þá daga sem skipið stoppar í hafnarfríi.

Ferðakostnaður
Útgerðarmaður sér skipverjum sem frí hefur verið veitt fyrir fari til heimahafnar og til baka ásamt fæði og gistingu þann tíma sem ferðin tekur.

Jóla- og áramótafrí
Útgerðarmönnum skipa sem stunda veiðar sem að framan greinir er skylt að gefa áhöfn skipsins frí í heimahöfn frá kl. 12:00 á Þorláksmessu til kl. 24:00 á nýársdag.


X. kafli.

SPÆRLINGSVEIÐAR

10.01. Skiptakjör þegar spærlingur er veiddur í vörpu

Á skipum 241 300 rúml., 26,7% miðað við 9 menn
Á skipum 301 500 rúml., 26,7% miðað við 10 menn
Á skipum 501 og stærri 26,7% miðað við 12 menn

Ef færri menn eru á skipi en að ofan greinir skal skiptaprósentan lækka um 1,4 fyrir hvern mann sem á vantar.

Ef um fleiri menn er að ræða en að ofan greinir, skal skiptaprósentan hækka um 1,4 fyrir hvern mann sem umfram er.

10.02. Hvíldartími

Skipverjar skulu hafa minnst 8 klst. hvíld á sólarhring.

10.03. Hafnarfrí

Á öllum skipum er stunda veiðar með spærlingsvörpu og eru í útilegu skulu skipverjar hafa hafnarfrí í 24 klst. eftir hverja veiðiferð.

Eigi er skylt að hafa hafnarfrí í 24 klst. ef veiðiferð tekur skemmri tima en 5 sólarhringa en hafnarfrí skal þó eigi vera skemmri tími en tekur að skipa upp aflanum og búa skip í næstu veiðiferð. Hafnarfrí skal þó aldrei vera skemmra en 6 klst.

Hafnarfrí telst aldrei skemmri tími en 24 klst. Hafnarfrí sem veitt er umfram 24 klst. skal teljast í hálfum og heilum sólarhringum, þannig að klst. sem ekki ná heilum og hálfum sólarhring falli niður.

Skipverjum skulu tryggðir minnst fjórir frídagar í mánuði.

Sé bátur skilinn eftir utan lögskráningarstaðar, skal útgerðarmaður sjá skipverjum fyrir fari til útgerðarstaðar skipsins í hafnarfríum.

Á föstudaginn langa, páskadag og sjómannadaginn skal ekki róið eða verið á sjó. Þetta ákvæði gildir ekki gagnvart skuttogurum eða togskipum 39 metrar og lengri.

10.04. Vinnulaun við útbúnað skips og veiðarfæra

Hlutamenn, sem vinna við útbúnað skips eða veiðarfæra í byrjun vertíðar eða að vertíð lokinni, skulu fá þá vinnu greidda með tímakaupi samkvæmt launatöflu.

Fari vinna þessi fram utan heimahafnar skipsins, greiðir útgerðin auk þess uppihald og ferðir skipverja.

Útgerðarmaður skilar alltaf öllum veiðarfærum fullbúnum að skipi eða í veiðarfærahús bátsins, en skipverjar taka við þeim og koma þeim fyrir í skipinu, skipta um uppstillingu á þilfari og slá undir botnvörpu, án sérstakrar greiðslu, enda sé það gert um leið og veiðar byrja. Sama gildir um að skila veiðarfærum í vertíðarlok. Ennfremur að taka í land í vertíðarlok uppstillingu og áhöld á þilfari og þvo lest.

10.05. Net og varpa

Óheimilt er að hafa net í sjó frá skipi sem veiðir með spærlingsvörpu.

 


XI. kafli.

KOLMUNNAVEIÐAR

11.01. Skiptakjör á kolmunnaveiðum með flotvörpu

Á kolmunnaveiðum með flotvörpu skal hlutur skipverja af skiptaverðmæti skipsins vera sem hér segir:

Á skipum að 201 rúml. 30,0% miðað við 10 menn
Á skipum 201 240 rúml. 30,0% miðað við 14 menn
Á skipum 241 500 rúml. 29,0% miðað við 14 menn
Á skipum 501 og stærri 28,5% miðað við 15 menn

Ef færri menn eru á skipi en að ofan greinir skal skiptaprósentan lækka um 1,1 fyrir hvern mann sem fækkað er um.

Séu fleiri menn á skipi en að ofan greinir hækkar skiptaprósentan um 1,1 fyrir hvern mann sem umfram er.

11.02. Hafnarfrí

Sjómönnum á kolmunnaveiðum verði mánaðarlega tryggt 48 stunda samfellt frí í heimahöfn, frá því að vertíð hefst og þar til henni lýkur. Ef skip siglir ekki til heimahafnar skal ferðakostnaður greiddur af útgerðinni.

Frítaka telst hafin þá komið er til heimahafnar.

Komi skip í heimahöfn innan þessara fjögurra vikna til losunar á afla án þess að skipverjar fái 24 klst. frí frá skipi skerðir það ekki rétt skipverja til leyfis skv. 1. og 2. mgr.

Fái skipverjar 24 klst. hafnarfrí eða lengra í heimahöfn skipsins skal útivist reiknast frá brottfarartíma

Á kolmunnaveiðum skulu skipverjar hafa frí á sjómannadaginn.

Skipverjum skulu tryggðir minnst fjórir frídagar í mánuði.

Skipverjum skal tryggt frí í heimahöfn á tímabilinu frá og með 20. desember til og með 2. janúar.

11.03. Löndunarfrí

Allir skipverjar skulu undanþegnir löndun, þ.e. störfum í lestum og á lúgum.
Frávik frá þessari reglu skulu heimil í undantekningartilvikum.


XII. kafli.

SKELFISKVEIÐAR

12.01. Skiptakjör á hörpudiskaveiðum

Á skipum 12 20 rúml., 36,7% miðað við 7 menn
Á skipum 21 30 rúml., 36,7% miðað við 7 menn
Á skipum 31 50 rúml., 36,7% miðað við 7 menn
Á skipum 51 110 rúml., 36,7% miðað við 7 menn

Ef færri menn eru á skipi en að ofan greinir skal skiptaprósentan lækka um 2,6 fyrir hvern mann sem fækkað er um.

Ef um fleiri menn er að ræða á skipi en að ofan greinir, skal skiptaprósentan hækka um 2,6 fyrir hvern mann sem umfram er.


XIII. kafli.

Uppsjávarveiðar þar sem afli er frystur um borð

13.01. Gildissvið

Ákvæði þessa kafla eiga við um veiðar á uppsjávarfiski, þ.m.t. loðnu, síld, kolmunna og makríl, með nót- og flotvörpu á fjölveiðiskipum, þar sem afli er að hluta eða öllu leyti unninn um borð og að aflaverðmæti unninna afurða er a.m.k. 25% af heildaraflaverðmæti veiðiferðarinnar. Þegar landað er í bræðslu eða ef hlutfall verðmætis unninna afurða er undir framangreindu hlutfalli gilda almennu ákvæði kjarasamningsins um veiðar til bræðslu.

13.02. Skiptakjör

27,5% miðað við 15 menn
28,0 % miðað við 16 menn
28,5 % miðað við 17 menn
29,0 % miðað við 18 menn
29,5 % miðað við 19 menn
30,0% miðað við 20 menn
30,5 % miðað við 21 menn
31,0 % miðað við 22 menn
31,0 % miðað við 23 menn
31,0 % miðað við 24 menn
31,5 % miðað við 25 menn
32,0 % miðað við 26 menn

13.03. Skiptaverðmæti

Skiptaverð skal vera hið sama og í botnfiski þegar aflinn er unninn um borð og taki breytingum sbr. 4. gr. laga um skiptaverð og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins nr. 24/1986, sbr. lög nr. 21/1987 um breytingu á þeim lögum.

13.04. Löndun

Skipverjum skal ekki skylt að landa unnum afurðum, en geri þeir það skal greitt fyrir það sérstaklega. Um löndun ferskra afurða fer skv. ákvæðum almennu bátakjarasamninganna um síld-, loðnu- og kolmunnaveiðar.

13.05. Laun skipverja sem annast fiskvinnsluvélar

Þeir 2 skipverjar sem hafa yfirumsjón og eftirlit með fiskvinnsluvélum, skulu hafa 1 1/16 hásetahlut hvor.

13.06. Hafnarfrí

Skipverjum verði af hverjum 30 dögum úthaldsins tryggt fjögurra sólarhringa (96 klst.) frí í heimahöfn frá því að vertíð hefst og þar til henni lýkur. Heimilt er að taka fríið í tvennu lagi þó aldrei skemmra en 24 klst. samfellt. Hafnarfrí skal teljast í heilum sólarhringum, þannig að hafnarfrí sem veitt er umfram 24 klst, en nær ekki 48 klst. telst ekki til frítíma.

Frítaka telst hafin þá komið er til heimahafnar.

Um jóla- og áramótafrí og skipverja fer samkvæmt grein 1.14.

13.07. Önnur atriði

Að öðru leyti en að ofan greinir skulu almennu bátakjarasamningarnir um síld-, loðnu- og kolmunnaveiðar gilda eftir því sem við á.

 

Bókanir

A - Bókun um athugun á mönnun og hvíldartíma um borð í íslenska fiskiskipaflotanum.

Aðilar eru sammála um að framkvæma athugun á mönnun og hvíldartíma um borð í íslenska fiskiskipaflotanum. Grunnur þessarar athugunar byggir gildandi ákvæðum sjómannalaga nr. 35/1985, og reglugerð nr. 975/2004 um vinnu- og hvíldartíma skipverja á íslenskum fiskiskipum. Lögð skal áhersla á að setja athugun á uppsjávarskipum og ísfisktogurum í forgang og kynna samningsaðilum niðurstöðu þeirrar könnunar, enda þótt að athugun standi enn yfir vegna annarra fiskiskipaflokka.

Skipa skal starfshóp til að gera þessa könnun, sem skal skipaður fjórum fulltrúum tilnefndum af Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og fjórum fulltrúum tilnefndum sameiginlega af Sjómannasambandi Íslands, Sjómannafélagi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og VM-Félagi vélstjóra og málmtæknimanna. Aðilar eru sammála um að skipa sameiginlega mann til að sinna verkstjórn þessa verkefnis, en hann skal hafa þekkingu á þessu sviði. Aðilar munu óska sameiginlega eftir aðkomu Samgöngustofu að þessari vinnu.

Starfshópurinn skal hefja störf við undirritun kjarasamnings þessa og miða við að hafa lokið störfum sínum fyrir lok árs 2017.                      

 

B- Bókun um skiptimannakerfi

Á síðastliðnum árum hefur aukist verulega að settar hafi verið skiptimannaáhafnir á skip, enda hefur það skapað betra og fjölskylduvænna starfsumhverfi skipverja. Það er því markmið samningsaðila að tryggja réttindaumhverfi skipverja og útgerða í skiptimannakerfum.

Ákvæði sjómannalaga víkja ekki beint að þessu róðralagi og álitamál er um túlkun 36. gr. laganna. Með hliðsjón af dómafordæmum Hæstaréttar Íslands þegar reynt hefur á 36. gr. sjómannalaga, liggur fyrir að ólík skiptimannakerfi leiða til mismunandi réttarverndar skipverja við veikindi eða slys. Mikilvægt er hins vegar að skipverjar njóti sambærilegra réttinda óháð því skiptimannakerfi sem þeir starfa samkvæmt. Í samræmi við markmið sjómannalaga, eru samningsaðilar þannig sammála um að skipverji eigi í öllum tilvikum rétt til þeirra launa, sem hann hefði fengið greidd fyrir að gegna starfi sínu áfram, ef veikindi eða slys hefðu ekki gert hann ófæran til þess.

Unnið skal að því á fyrsta ári kjarasamnings þessa að eyða réttaróvissu um skiptimannakerfi.

 

C- Bókun um heildarendurskoðun kjarasamnings

Aðilar eru sammála um að á samningstímanum verði kjarasamningar yfirfarnir í heild sinni. Orðalag einstakra greina fært til nútímans, greinar felldar brott ef ástæða er til og greinum bætt inn ef þörf er á til að endurspegla betur þróun og breytt vinnubrögð útgerðar fiskiskipa og starfa fiskimanna.

Skipa skal starfshóp til að vinna að þessu verkefni, en hann skal skipaður fjórum fulltrúum tilnefndum af Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og fjórum fulltrúum tilnefndum sameiginlega af Sjómannasambandi Íslands, Sjómannafélagi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og VM-Félagi vélstjóra og málmtæknimanna.

Samningsaðilar munu gera ríkissáttasemjara grein fyrir framgangi þessarar bókunar reglulega, þ.e. í september, janúar og maí ár hvert á samningstímanum. Fundir skulu haldnir ekki sjaldnar en einu sinni í mánuði á skrifstofu ríkissáttasemjara.

Á fyrsta fundi nefndarinnar skulu aðilar koma sér saman um viðræðuáætlun, þar sem hverjum fundi nefndarinnar er ætlað tilgreint úrlausnarefni. Náist ekki sameiginlegur skilningur um tilgreint úrlausnarefni á reglulegum fundi skal fjölga fundum nefndarinnar, þannig að unnt sé að ná sameiginlegum skilningi. Starfshópurinn getur óskað sameiginlega eftir aðkomu sérfræðinga eða annarra aðila sem hafa þekkingu á viðkomandi sviðum.

Starfshópurinn skal miða við að hefja störf innan mánaðar frá því að samningur þessi er samþykktur og miða við að hafa lokið störfum sínum ekki síðar en 1. júlí 2019.

Þau atriði sem skulu koma til umfjöllunar nefndarinnar eru eftirgreind:

  • Rekstrargrundvöllur einstakara bátaflokka og framtíðarhorfur
  • Skiptaverðmæti
  • Stærðarviðmiðanir fiskiskipa
  • Skiptaprósenta
  • Olíuverðsviðmið
  • Gjaldtaka stjórnvalda
  • Ráðningarsamningar
  • Iðgjaldakostnaður slysatrygginga
  • Slysa- og veikindaréttur í skiptimannakerfum
  • Helgar- og hafnarfrí
  • Greiðsluhlutfall í lífeyrissjóði
  • Fjöldi í áhöfn einstakra bátaflokka m.t.t. öryggis og hvíldartíma
  • Önnur atriði sem aðilar eru sammála um að skoða

 

Úr Sjómannalögum nr. 35/1985.

27. gr. Ráðning skipverja

Skipverji tekur kaup frá og með þeim degi sem hann kemur til vinnu á skipinu. Þurfi hann að ferðast frá ráðningarstað til skips tekur hann kaup frá og með þeim degi er sú ferð hefst.
Skipverji tekur kaup til þess dags og að honum meðtöldum er ráðningu hans lýkur samkvæmt ráðningar- eða kjarasamningi og skiptir þá ekki máli þótt hann hafi áður verið afskráður. Um vinnu skipverja fer sem segir í kjarasamningum og lögum þessum.
Skipverji á ekki rétt á kaupi fyrir þann tíma sem hann hliðrar sér hjá að vinna án þess að næg ástæða sé til.


36. gr. Veikinda- og slysaréttur skipverja

Ef skipverji verður óvinnufær vegna sjúkdóms eða meiðsla sem hann verður fyrir meðan á ráðningartíma stendur skal hann eigi missa neins í af launum sínum í hverju sem þau eru greidd svo lengi sem hann er óvinnufær af framangreindum ástæðum, þó ekki lengur en tvo mánuði. Sé skipverji í launalausu fríi er hann veikist eða slasast tekur hann laun frá þeim tíma er hann skyldi hefja störf að nýju. Skipverji, sem forfallast vegna veikinda, á þó ekki rétt til launa í fleiri daga en hann hefur verið í þjónustu útgerðarmanns.
Hafi skipverji verið ráðinn á sama skip eða hjá sama útgerðarmanni í tvö ár samfellt skal hann, auk þess sem í 1. mgr. segir, halda föstu kaupi, kauptryggingu eða sérlega umsömdu veikindakaupi í allt að einn mánuð en í allt að tvo mánuði eftir fjögurra ára samfellda ráðningu hjá sama útgerðarmanni.
Skipverji, sem forfallast frá vinnu vegna slysa við vinnu, á leið til eða frá vinnu eða vegna atvinnusjúkdóma sem stafa af vinnunni skal fá greitt fast kaup, kauptryggingu eða sérlega umsamið veikindakaup í allt að þrjá mánuði til viðbótar greiðslum samkvæmt 1. mgr. og 2. mgr.
Skipverji á ekki rétt á kaupi þann tíma, sem hann hliðrar sér ólöglega hjá að inna störf sín af hendi, né fyrir þann tíma sem hann er óstarfhæfur vegna sjúkdóms eða meiðsla sem hann hefur leynt vísvitandi við ráðningu sína. Sama gildir ef skipverji er ekki starfhæfur vegna sjúkdóms eða meiðsla sem hann hefur sjálfur bakað sér af ásetningi eða stórfelldu gáleysi.
Nú vill skipverji neyta réttar síns samkvæmt 1., 2. og 3. mgr. og skal hann þá, ef atvinnurekandi óskar þess, afhenda honum vottorð læknis um veikindin eða slysið er sýni að hann hafi verið óvinnufær vegna veikindanna eða slyssins.

40. gr. Andlát skipverja

Deyi skipverji telst kaup hans til dánardags og að þeim degi meðtöldum enda hafi hann eigi áður misst rétt til kaups vegna sjúkleika eða af öðrum ástæðum.
Nú hverfur skip í hafi án þess að upplýst verði hvenær skiptapann ber að höndum og skulu lok launagreiðslna til horfinna skipverja þá miðast við þann tíma sem telja mátti eðlilegan fyrir það skip að ná til næsta áfangastaðar frá þeim stað sem síðast spurðist um skipið.
Deyi skipverji á þeim tíma er hann á rétt til kaups samkvæmt 27. gr. eða 36. gr. á eftirlifandi maki eða börn, sem eru á framfæri hins látna eftir almennum framfærslureglum, rétt til launa fyrir einn mánuð umfram það sem segir í 1. og 2. mgr. enda hafi skipverjinn verið í þjónustu útgerðarmanns í síðustu sex mánuði áður en hann andaðist. Hafi skipverji verið samfellt í starfi hjá sama útgerðarmanni í fjögur ár eða lengur skal, auk þess sem fyrr segir, greiða eins mánaðar kaup sem hjá fiskimönnum miðist við kauptryggingu fyrir einn mánuð eins og hún er á hverjum tíma en hjá farmönnum skal greiðslan vera sem nemur eins mánaðar grunnlaunum viðkomandi skipverja.
Óheimilt er að framselja eða veðsetja samningsbundnar dánarbætur og ekki má leggja á þær löghald né gera í þeim fjárnám eða lögtak né halda bótagreiðslu til opinberra gjalda.

59. gr. Skyldur skipverja

Skipverji er skyldur að koma á ákveðnum tíma í skiprúmið. Eftir það má hann ekki fara frá skipi leyfislaust.
Skipverja, sem ekki er staddur á skipi en veit eða má vita að hann muni bráðlega verða kvaddur til skips, er skylt, eftir því sem honum er unnt, að fylgjast með ferðum skipsins og vera tilbúinn að taka upp störf sín að nýju þegar þess er þörf enda skal útgerðarmaður eða skipstjóri veita honum greiðar upplýsingar um ferðir skips, eftir því sem frekast er unnt.
Geti skipverji ekki mætt til skips á réttum tíma skal hann tafarlaust skýra skipstjóra frá því.
Skipverji, sem ekki kemst til skips af ástæðum sem útgerðarmanni verður ekki um kennt, skal sjálfur bera hallann af.

64. gr. Vinnu- og hvíldartími

Sérhver skipverji skal eiga rétt á nægilegri hvíld og skal hámarksfjöldi vinnustunda á viku takmarkaður við 48 klukkustundir að meðaltali reiknað yfir viðmiðunartímabil sem ekki er lengra en 12 mánuðir.
Miða skal við að mörk vinnu- eða hvíldartíma séu annaðhvort:
1. hámarksvinnutími sem ekki má vera lengri en 14 klukkustundir á hverju 24 klukkustunda tímabili og 72 klukkustundir á hverju 7 daga tímabili, eða
2. lágmarkshvíldartími sem ekki má vera skemmri en 10 klukkustundir á hverju 24 klukkustunda tímabili og 77 klukkustundir á hverju 7 daga tímabili. Hvíldartíma má ekki skipta á fleiri tímabil en tvö og skal annað vara að lágmarki í 6 klukkustundir og ekki skulu líða meira en 14 klukkustundir á milli tveggja hvíldartíma.
Heimilt er með reglugerð eða í kjarasamningum að víkja frá ákvæðum 1. og 2. mgr. vegna hlutlægra eða tæknilegra ástæðna eða ástæðna er varða skipulag vinnunnar enda sé slíkt í samræmi við almennar meginreglur um verndun öryggis og heilbrigðis sjómanna.
Skipstjóri á fiskiskipi getur ávallt krafist þess að skipverji vinni þann fjölda vinnustunda sem nauðsynlegur er fyrir öryggi skipsins, allra um borð, farms og annarra fjármuna sem á skipi eru eða til að koma til hjálpar öðrum skipum eða mönnum í sjávarháska.
Samgönguráðherra getur sett reglugerð um vinnu- og hvíldartíma sjómanna á fiskiskipum.


Viðauki I

Dæmi um útreikninga á launum á uppsagnarfresti þegar vinnuframlags er krafist á hluta hans en skip er áfram í rekstri

Undirmaður með 3ja mánaða uppsagnarfrest
Vinnuframlag á uppsagnarfresti:
Einn mánuður: Fær greidda tvo mánuði, einn á staðgengilslaunum og einn á kauptryggingu.
Tveir mánuðir: Fær greiddan einn mánuð á staðgengilslaunum.

Yfirmaður með 6 mánaða uppsagnarfrest
Vinnuframlag á uppsagnarfresti:
Tveir mánuðir: Fær greidda fjóra mánuði, þrjá á staðgengilslaunum og einn á mánaðarlaunum.
Fjórir mánuðir: Fær greidda tvo mánuði á staðgengilslaunum.

 

Viðauki II

Dæmi um útreikning á viðmiðunarhlut. 

Eitt skip í flokki: viðmiðunarhlutur = hlutur á viðkomandi skipi

Tvö skip í flokki: viðmiðunarhlutur = meðaltal hluta í viðkomandi skipaflokki

 

3 skip í flokki:

Viðmiðunarhlutur reiknast á eftir farandi hátt.

Safnið, 3 skip, er margfaldað með 0,75:            3 x 0,75 = 2,25

Tvö efstu skipin teljast að fullu í úrtaki og það þriðja efsta (1- 0,75 = 0,25) að 75/100 hlutum.

 

Nr

a

b

a x b

1

1

16.112

16.111,50

2

1

14.010

14.010,00

3

0,25

12.979

  3.244,75

∑ 1:3

2,25

 

33.366,25

Viðmiðunarhlutur =

14.829

 

4 skip í flokki.

Viðmiðunarhlutur reiknast á eftir farandi hátt.

Safnið, 4 skip, er margfaldað með 0,75:            4 x 0,75 = 3

Þrjú efstu skipin teljast að fullu í úrtaki.

 

Nr

a

b

a x b

1

1

16.112

16.111,50

2

1

14.010

14.010,00

3

1

12.979

12.978,90

∑ 1:3

3

 

43.100,40

Viðmiðunarhlutur =

14.367

 

5 skip í flokki.

Viðmiðunarhlutur reiknast á eftir farandi hátt.

Safnið, 5 skip, er margfaldað með 0,75: 5 x 0,75 = 3,75

Þrjú efstu skipin teljast að fullu í úrtaki og það fjórða efsta (1 – 0,25= 0,75) að 25/100 hlutum.

 

Nr

a

b

a x b

1

1

16.112

16.112,00

2

1

14.010

14.010,00

3

1

12.979

12.979,00

4

0,75

11.293

8.469,75

∑ 1:4

3,75

 

51.570,75

Viðmiðunarhlutur =

13.752,2

 

 

8 skip í flokki.

Viðmiðunarhlutur reiknast á eftir farandi hátt.

Safnið, 8 skip, er margfaldað með 0,75:            8 x 0,75 = 6

Sex efstu skipin teljast að fullu í úrtaki.

 

Nr

a

b

a x b

1

1

16.112

16.111,50

2

1

14.010

14.010,00

3

1

12.979

12.978,90

4

1

11.293

11.293,00

5

1

11.286

11.286,00

6

1

9.820

9.820,00

∑ 1:6

6

 

75.499,40

Viðmiðunarhlutur =

12.583

 

10 skip í flokki:

Viðmiðunarhlutur reiknast á eftir farandi hátt.

Safnið, 10 skip, er margfaldað með 0,75:          10 x 0,75 = 7,5

Sjö efstu skipin teljast að fullu í úrtaki og það áttunda efsta (1 – 0,5= 0,5) að 50/100 hlutum.

 

Nr

a

b

a x b

1

1

16.112

16.111,50

2

1

14.010

14.010,00

3

1

12.979

12.978,90

4

1

11.293

11.293,00

5

1

11.286

11.286,00

6

1

9.820

9.820,00

7

1

8.571

8.570,95

8

0,5

7.453

3.726,50

∑ 1:8

7,5

 

87.796,85

Viðmiðunarhlutur =

11.706