3. nóvember 2025
34. þing SSÍ fór fram á Grand Hótel 30. og 31. október 2025
Við byrjuðum þingið á ávarpi Atvinnuvegaráðherra, Hönnu Katrínar Friðriksson.
Í máli hennar kom fram vilji til að vinna betur með sjómönnum að hagsmunamálum þeirra. Td. að Verðlagsstofa skiptaverðs verði efld.
Einnig héldu erindi Finnbjörn A Hermannsson forseti ASÍ. Árni Sverrisson formaður FS og Guðmundur H Þórarinsson formaður VM. Mæltist þeim vel.
Margar og góðar ályktanir voru samþykktar á þinginu eins og sjá má undir flipanum ,,Ályktanir og samþykktir".
Ný sambandsstjórn var kjörin til næstu fjögurra ára. Undir flipanum ,,Um SSÍ" er ný stjórn SSÍ.
Við kvöddum tvo góða liðsmenn sem látið hafa af störfum. Vigni S. Maríasson sem verið hefur í stjórn Sambandsins
og Jakob Hjaltalín frá Húsavík sem verið hefur viðloðandi sjómannadeild Framsýnar lengur en elstu menn muna.
Var þeim færður þakklætisvottur fyrir góð störf í þágu sjómanna.
Í lok þings færðu SSÍ, FS og VM, Slysavarnaskóla sjómanna 25 milljónir að gjöf sem er hlutur félaganna þriggja vegna slita Fiskifélags Íslands.
22. september 2025
Ljósmyndakeppni sjómanna
Árið 2002 hóf Sjómannablaðið Víkingur að standa fyrir ljósmyndakeppni meðal sjómanna. Keppnin hefur ávallt verið hugsuð til að efla og auka áhuga sjómanna á tómstundaiðju samhliða störfum sínum á sjó og hvetjum við alla sjómenn til að taka þátt. Keppni Víkingsins fer ávallt fram í byrjun desember ár hvert og eru veitt þrenn verðlaun. Allir íslenskir sjómenn og sjómenn á íslenskum skipum geta tekið þátt í keppninni. Dómnefnd velur að auki 12 myndir til viðbótar sem taka síðan þátt í Norðurlandakeppni sjómanna sem fer fram í febrúar árið eftir. Þau 23 ár sem sjómenn úr íslensku keppninni hafa tekið þátt í Norðurlandakeppninni hafa verðlaun komið í hendur okkar þátttakenda 18 sinnum. Nú er svo komið að margir farsímar eru með gríðarlega góð myndagæði í myndavélum sínum og hafa slíkar myndir náð mjög langt í keppninni sem sýnir að það þarf ekki að eiga einhverjar fullkomnar myndavélar til að geta tekið þátt heldur einungis gott auga fyrir góðu myndefni. Reglur keppninnar eru ekki flóknar en þær eru eftirfarandi:
- Hver þátttakandi má senda inn að hámarki 15 myndir.
- Myndir eiga að vera í hæstu mögulegri upplausn.
- Myndefnið á að tengjast umhverfi sjómannsins hvort heldur er um borð í skipum, frá landi hvort heldur er í vinnu eða frítíma.
- Með hverri mynd á að fylgja heiti, hvar myndin var tekin auk upplýsinga um á hvaða skipi viðkomandi starfar.
- Myndir eiga helst ekki vera eldri en tveggja ára.
- Myndir með vatnsmerkjum, tímastimpli eða nafni á myndinni eru ekki gjaldgengar.
- Myndir sem sendar eru inn verða að vera í eigu þess sem tók myndina með því að sá/sú ýtti á afsmellarann og á höfundarrétt hennar.
- Ljósmyndarinn tekur ábyrgð á að ef einstaklingar séu á myndinni að heimild sé fyrir að birta hana.
- Með þátttöku samþykkir ljósmyndarinn að umsjónamaður keppninnar fari með þínar upplýsingar í samræmi við upplýsingalögin í þeim eina tilgangi að upplýsa um þig í tengslum við íslensku og Norðurlandakeppnina.
- Áskilinn er réttur til að birta myndirnar í blöðum þeirra aðila, sem að keppninni standa, án greiðslu.
- Skilafrestur er til 1. desember nk.
Umsjónarmaður keppninnar er Hilmar Snorrason, fv. skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna, og tekur hann við stafrænum myndum í keppnina á netfangið
ljosmyndakeppni@outlook.com
eða
captsnorrason@outlook.com
Ef myndir eru sendar inn á öðru formi skulu þær sendar til:
Félag skipstjórnarmanna
V/Sjómannablaðsins Víkings
Ljósmyndakeppni
Grensásvegi 13
105 Reykjavík
8. júlí 2025
Fréttasafn