Ályktun um öryggis- og tryggingamál sjómanna
33. þing SSÍ þakkar slysavarnaskóla sjómanna fyrir árvekni og gott starf í þágu sjómannastéttarinnar. Slysavarnaskóli sjómanna var settur á laggirnar árið 1985. Síðan þá hefur slysum og banaslysum til sjós fækkað að miklum mun. Hlúa verður vel að skólanum og búnaði hans. Hvetja til ákveðinnar öryggismenningar og að öll slys og næstum því slys séu skráð á réttan hátt. Þannig færum við komandi kynslóðum sjómanna ómetanlegar upplýsingar um hvernig má forðast slysin.
33. þing SSÍ fagnar tilkomu öryggishandbóka í íslensk fiskiskip. Öryggishandbókin er hluti af öryggisstjórnunarkerfi fyrir fiskiskip sem byggð er á ISM staðlinum. Útgerð er ábyrg á öryggisstjórnun á skipum m.t.t. heilsu og öryggis. Markmið handbókarinnar er að stuðla að öryggi um borð í skipum útgerðar, koma í veg fyrir slys og hindra óhöpp. Handbókin er leiðarvísir að skilvirkri öryggisstjórnun þar sem allar útgerðir hafa aðgang að sömu forskrift en aðlaga hana að sínum skipum eins og best þykir.
33. þing SSÍ hvetur sjómenn til árvekni og að stunda skipulagðar æfingar um borð í skipum sínum. Æfingar um borð eru skylda og á að vera hluti af öryggismenningu á öllum fiskiskipum. Með æfingum slípast menn saman og vinna fumlausar á hættustund. Æfingin skapar meistarann. Nýliðafræðsla á einnig að vera fagleg og hluti af öryggismenningunni.
33. þing SSí fagnar frumkvæði fjögurra frumkvöðla sem eru að þróa hugbúnað sem nefnist Alda-öryggi til að nútímavæða öryggisstjórnun til sjós með nýsköpun og stafrænum lausnum í samvinnu við íslenska sjómenn og útgerðir. Þannig gera þeir öryggismál sjómanna eina af grunnstoðum íslensks sjávarútvegs. Nokkrar útgerðir, fjöldi skipstjórnenda og fjöldi sjómanna eru nú þátttakendur í notendaprófunum á Öldu-öryggi. Almenn ánægja er með kerfið og styrkti Sjámannasamband Íslands ásamt aðildarfélögum þess verkefnið um 1 millj. kr. nýlega. Er vænst til þess að með notkun kerfisins fækki slysum á sjómönnum enn frekar þegar fram í sækir.
33. þing SSÍ telur öryggi sjómanna stefnt í hættu með því að fækka í áhöfn fiskiskipa.
Neyðaráætlun um borð í fiskiskipum þarf að vera í samræmi við fjölda í áhöfn á hverju skipi fyrir sig. Fækkun háseta um borð í fiskiskipum hefur það í för með sér að stýrimenn, vélstjórar og kokkar ganga í störf hásetanna. Þetta er ekki til að auka öryggi um borð í fiskiskipum landsins.
33. þing SSÍ krefst þess að stjórnvöld setji fiskiskipum mönnunarreglur í samræmi við öryggi og vinnuna um borð. Einnig krefst þingið þess að útgerðarmenn hætti þeirri áráttu að fækka um borð, með það eina að markmiði að lækka launakostnað en eru um leið að rýra öryggi þeirra sem eftir verða. Örþreyttur og ósofinn sjómaður er hættulegur bæði sjálfum sér og öðrum. Á síðustu árum hefur borið á að fækkað sé í áhöfnum skipa. Sumpart á þetta sér stað vegna tæknibreytinga, en einnig hefur borið á að við fækkun í áhöfn aukist verulega álag á þá skipverja sem eftir eru um borð. Samtök sjómanna hafa lengi kallað eftir því að settar verði í lög reglur um lágmarks mönnun fyrir fiskiskip við veiðar. Reglurnar taki mið af stærð og gerð skipa og miðist við þær veiðar sem skipin stunda. Í dag eru aðeins í lögum reglur um lágmarks mönnun réttindamanna þegar skip er á siglingu. Sárlega vantar reglur um heildar mönnun skipa við veiðar. Ef skip er vanmannað kemur það niður á hvíldartíma áhafnarinnar. Hvíldartíminn flokkast sannanlega undir öryggismál sjómanna.
33. þing SSÍ krefst þess að aðstaða manna til hvíldar um borð í fiskiskipum verði könnuð. Tilgangurinn væri að kortleggja hávaðamengun um borð. Finna út hvaðan hávaðin kemur, gera þá ráðstafinir til úrbóta. Einnig skoða loftgæði í borð, gera þá úrbætur ef þörf krefur.
33. þing SSÍ fagnar því að nýtt kerfi við lögskráningu sjómanna hafi nú loks verði tekið í notkun. Þingið minnir á öryggishlutverk lögskráningarkerfisins. Það heldur utan um allar lögskráningar sjómanna á Íslandi og réttindi þeirra. Vegna kerfisins vitum við hverjir eru á hvaða skipi og hvaða stöðu þeir gegna og hverjir eru um borð ef eitthvað fer úrskeiðis.
33. þing SSÍ fagnar komu nýrra björgunarskipa til Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Það var löngu tímabært að endurnýja björgunarskipastól Landsbjargar. Sú vinna er nú hafin og er það vel. Gömlu skipin hafa reynst okkur mjög vel en eru nú úr sér gengin.
33. þing SSÍ telur að endurmenntun sjómanna eigi að fara fram á þeirra eigin vinnustað.
Það á að vera hægt að taka endurmenntun sjómanna um borð í því skipi sem menn eru á hverju sinni. Námskeiðið yrði lærdómsríkara ef það yrði haldið þannig. Þarna væru sjómennirnir að læra rétt viðbrögð við ýmsar aðstæður á sínum vinnustað sem gerir endurmenntunina mun skilvirkari.
33. þing Sjómannasambands Íslands tekur undir tillögu til þingsályktunar sem lögð hefur verið fyrir Alþingi um að dómsmálaráðherra beiti sér fyrir því að LHG komi upp fastri starfsstöð fyrir eina þyrlu á Akureyri. Það vita allir sem vilja vita hve þyrlusveit LHG skiptir sjómenn miklu máli. Það er lágmarks krafa sjómanna að alltaf séu til staðar tvær flughæfar þyrlur og tvær áhafnir á vakt með læknum. Einnig krefjast sjómenn þess að flugvél LHG sé til staðar allt árið. Hún gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki við leit og björgun á úthafsmiðum okkar.