Ávirðingum Landssambands smábátaeigenda svarað
Eins og oft áður ræðst Landssamband smábátaeigenda að Sjómannasambandi Íslands vegna þess að skoðannir þessara samtaka fara ekki alltaf saman. Formaður og framkvæmdastjóri LS virðast ekki gera sér grein fyrir að Sjómannasamband Íslands stendur fyrir og er í hagsmunavörslu fyrir sjómenn sem eru launamenn hjá útgerðum. Landssamband smábátaeigenda er hins vegar hagsmunasamtök útgerðarmanna smábáta og því hlýtur að vera eðlilegt að hagsmunir þessara samtaka fari ekki alltaf saman.
Tilefni síðasta nöldurs LS út í SSÍ, sem lesa má á heimasíðu samtakanna, er umsögn sem Sjómannasambandið gaf varðandi krókaaflamarkið. Krókaaflamarkið varð til á sínum tíma til að koma böndum á veiðar smábáta. Í tímans rás hafa bátar á krókaaflamarki verið stækkaðir og eru í raun ekki smábátar lengur. Því taldi SSÍ eðlilegt sbr. umsögnina að krókaaflaaflamarkinu yrði breytt í aflamark þar sem enginn munur er orðinn á þessum tveimur stjórnkerfum fiskveiðanna eins og málin hafa þróast. Þetta fer eitthvað illa í forsvarsmenn LS og blanda þeir kjarasamningum með einhverjum óskiljanlegum hætti inn í það mál.
Kjarasamningur var vissulega gerður við LS árið 2012 fyrir smábáta. Sá samningur rann út í lok janúar árið 2014. Ekki hafa náðst samningar við LS um lagfæringu á þeim samningi, m.a. vegna þess að LS gerir kröfu um að samningurinn nái ekki eingöngu til smábáta heldur einnig til stærri báta. Á það hefur SSÍ ekki getað fallist enda þegar í gildi samningur fyrir stærri báta.
Forsvarsmönnum LS til upplýsingar hefur stjórnkerfi fiskveiðanna engin áhrif á hvaða kjarasamningar gilda á bátaflotanum. Kjarasamningar breytast ekki sjálfkrafa við það að bátar séu færðir úr krókaaflamarki yfir í aflamark eða öfugt. Því hefur skoðun SSÍ á krókaaflamarki sem stjórntæki við fiskveiðar ekkert með kjarasamninga að gera.