Breyting á viðmiðunarverði þorsks, ýsu, karfa og ufsa
Á fundi úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna í morgun voru samþykktar eftirfarandi breytingar á viðmiðunarverðum eftirtaldra fisktegunda í viðskiptum milli skyldra aðila sbr. kjarasamning aðila:
þorskur, slægður hækkar um 3,0%,
þorskur, óslægður hækkar um 3,0%,
ýsa, slægð hækkar um 2,0%,
ýsa, óslægð er óbreytt,
karfi hækkar um 3,0% og
slægður og óslægður ufsi hækkar um 2,6%
Framangreindar breytingar gilda frá og með 6. september.
Í síðustu kjarasamningum milli SFS og samtaka sjómanna var gerð breyting á þeirri aðferð sem notuð er til að ákvarða viðmiðunarverð á þorski, ýsu og karfa í viðskiptum milli skyldra aðila. Miðað er við hlutfall af fiskmarkaðsverði síðustu þriggja mánaða, en jafnframt var sett inn viðmið við breytingar á vísitölum afurðaverðs til að tryggja að breytingar á viðmiðunarverðinu færu ekki úr takti við breytingar á afurðaverði framangreindra fisktegunda.
Ekki hefur farið fram hjá þeim sem fylgjast með sölum á fiskmörkuðunum að markaðsverð hefur verið frekar lágt að undanförnu. Ef eingöngu hefði verið miðað við markaðsverðið við ákvörðun á breytingu viðmiðunarverðsins að þessu sinni hefði þurft að lækka verð á sumum framangreindra fisktegunda, t.d. slægðum þorski. Að þessu sinni gripu því varnirnar, þ.e. viðmiðunin við afurðaverðið, inn í og því hækkar viðmiðunarverðið í stað þess að lækka.