Deilan við SFS um skiptaverðið tapast fyrir Félagsdómi
Þann 6. maí 2020 sendi SFS bréf til samtaka sjómanna þar sem tilkynnt var um uppsögn á ákvæði kjarasamningsins sem undirritaður var þann 18. febrúar 2017. Um er að ræða ákvæðið í grein 1.29.1. um 0,5% hækkun á skiptaverðmætishlutfallinu þegar afli er seldur til skyldra aðila.
Sjómannasamband Íslands taldi að SFS gæti ekki sagt þessu ákvæði upp einhliða þar sem hingað til hefði ekki verið ágreiningur milli aðila um að síðast gildandi samningur gilti þar til nýr væri gerður. Samningurinn hafði gildistíma til 1. desember 2019 en þar sem nýr kjarasamningur hefur ekki verið gerður milli aðila taldi SSÍ að kjarasamningurinn sem undirritaður var þann 18. febrúar 2017 væri enn í gildi enda unnið eftir honum. Sjómannasamband Íslands vísaði því málinu til Félagsdóms til að leysa úr þessum ágreiningi milli SFS og SSÍ um að 0,5% hækkun á skiptaverðmætishlutfallinu þegar afli er seldur skyldum aðila gildi þar til nýr samningur kæmist á milli aðila.
Í gær var kveðinn upp dómur í Félagsdómi þar sem SFS er sýknað af af kröfu SSÍ. Frá og með 1. júní 2020 er því skiptaverðið það sama hvort sem aflinn er seldur skyldum eða óskyldum aðila. Dómurinn fellst á að síðastgildandi samningur haldi gildi sínu að því undanskildu að frá 1. júní 2020 fellur 0,5% hærra skiptaverðmætishlutfallið brott úr grein 1.29.1. Rökin virðast þau að ekki hafi verið haldinn fundur eftir 1. desember 2019 í starfshópnum sem vinna átti í bókunum samningsins á samningstímanum. Miðað við málflutning SFS fyrir Félagsdómi er ljóst að þau samtök voru aldrei á samningstímanum að vinna að heilindum í að ljúka vinnu við bókanirnar. Niðurstaða þessa máls setur því kjaraviðræðurnar við SFS í enn meiri hnút en þær viðræður voru í fyrir og því ljóst að viðræður við SFS munu ekki halda áfram nema undir handleiðslu ríkissáttasemjara.