Fiskiskip – leiðbeiningar um smitgát og viðbrögð ef grunur er um smit um borð
Einstaklingur í sóttkví má ekki koma um borð
Einstaklingur sem sýnir flensueinkenni er ekki heimilt að koma um borð.
Einstaklingi sem hefur umgengist einstaklinga sem eru með Covid-19 er ekki heimilt að koma um borð enda í sóttkví að skipan Landlæknis.
Áður en haldið er úr höfn
Gæta skal að lyfjakistu um borð og hafa samband við trúnaðarlækni eða heilsugæslu um æskilegar lyfjabirgðir.
Hafa hlífðarfatnað (gríma, hanskar, plastsvuntur) til að bregðast við smiti um borð, hreinsiefni og sótthreinsiefni.
Áður en haldið er úr höfn skal skipstjóri/útgerð ræða við áhöfnina um hvers ber að gæta við að verjast smiti (handþvottur, notkun handspritts, aukin þrif og sótthreinsun snertifleta, matsveinn skammti á diska o.s.frv.)
Áhöfnin skal við upphaf veiðiferðar upplýst um viðbragðsáætlun útgerðar ef smit kemur upp um borð. Fyrstu tvær vikur veiðiferðar skipta höfuðmáli.
Umgengni um borð
Skipverjar haldi sig eins mikið og mögulegt er út af fyrir sig og virði tveggja metra fjarlægð milli manna ef hægt er, t.d. í borðsal og í stakkageymslum.
Tilmæli verði gefin um að sem fæstir verði í borðsal og öðrum sölum á hverjum tíma. Skipverjum verði skipt í hópa á matartímum og áhöld, stólar, borð o.þ.h. sótthreinsað eftir að hver hópur hefur lokið máltíð. Matsveinn skammti á diska og afhendi hnífapör/leggi á borð.
Skipstjórar og yfirstýrimenn fari sem minnst eða ekki í borðsal og önnur rými skipsins þar sem umferð áhafnar er mikil. Þeim verði færður matur og annar viðurgerningur.
Vélstjóri á vakt verði í vélarrúmi eins og við verður komið. Ef ekki á vakt þá sem mest í klefa sínum. Vélstjórar neyti matar einir ef hægt er.
Munum reglulegan handþvott og sprittun. Spritta alla snertifleti eins og mögulegt er. T.d. eftir kaffipásu í stakkageymslu þar sem skipverjar virða fjarlægðarreglur.
Komið til hafnar
Ef skipverji á að fara næsta túr er mælst til að hann sé um borð nema brýna nauðsyn beri til.
Fari skipverji í land milli túra þá skal viðkomandi vera sem minnst á ferli nema brýna nauðsyn beri til.
Löndunargengi fari ekki í önnur rými skips nema þau sem nauðsynleg eru vegna vinnu eða öryggis, til að mynda stakkageymslur, borðsali eða vistarverur skipverja.
Eins eiga þessi tilmæli við um viðgerðarmenn og aðra sem þjónusta skip í höfn. Þeir séu aðeins á þeim svæðum þar sem vinna er nauðsynleg.
Svæði þar sem löndunargengi eða aðrir úr landi sem þjónusta skipið, fara um við vinnu sína verði þrifin og sótthreinsuð að vinnu lokinni áður en skipverjar fara um svæðið.
Þegar skip er í höfn skal vera handspritt við landgang og öllum er skylt að spritta hendur sínar áður er gengið er um borð í skipið.
Grunur um smit
Hafið strax samband við Stjórnstöð LHG/112. Látið útgerð/útgerðarstjórn skipsins einnig vita strax. Skipstjóri ráðfærir sig við LHG/112 og útgerðarstjórn skipsins. LHG vinnur samkvæmt Leiðbeiningum hafna og skipa og leiðbeinir um sóttvarnahöfn sem skipi er vísað til í samráði vð sóttvarnalækni. LHG tryggir upplýsingamiðlun til hlutaðeigandi hafnar
Skipstjóri ber ábyrgð á öllum aðgerðum og ákvarðanatökum.
Skipstjóri skal setja viðkomandi strax í tímabundna einangrun. Ekki er heimilt að flytja hann á milli klefa, hann skal vera áfram í sínum klefa með aðgengi að snyrtingu og sturtu sem öðrum er ekki heimilt að nota á meðan.
Skipstjóri skal tilgreina einn úr áhöfn sem hefur leyfi til að umgangast þann sem er í sóttkví og færa honum mat og aðrar nauðsynjar. Sami aðili skal sjá um hann allan tímann á meðan hann er í sóttkví. Sá aðili skal klæðast viðeigandi hlífðarbúnaði (einnota hanskar, grímur, plastsvuntur). Öðrum er óheimilt að umgangast hann.
Allan búnað sem viðkomandi einstaklingur þarf á að halda í einangrun skal ekki blanda saman við annan búnað áhafnar. Matarstell, búnaður og föt skulu þvegin sér og skal sá sem tekur við því klæðast hlífðarbúnaði (einnota hönskum, grímu og plastsvuntu) sem má fara í lokaðan poka að notkun lokinni og í almennt sorp. Fatnað og áhöld má þvo með heitu vatni og sápu að notkun lokinni.
Áður en komið er til hafnar
Undirbúið skipið og þann sem er í sóttkví áður en komið er til hafnar samkvæmt ráðleggingum frá LHG/112 og sóttvarnalækni.
Mikilvægt er að aðrir úr áhöfn fari ekki frá borði heldur bíði frekari fyrimæla.
Eftir að sjúklingur er farinn frá borði
Mikilvægt er að þrífa svæði þar sem sá sem var í sóttkví hefur dvalið. Sjá bls. 6 og 7 í Leiðbeiningum https://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item38919/Lei%C3%B0beiningar-framl%C3%ADnustarfsmenn%2018022020.pdf eða hafið samráð við sóttvarnalækni um hvernig staðið skal að því.
xxx
EINUNGIS ER UM LEIÐBEININGAR AÐ RÆÐA OG ÞVÍ ER MIKILVÆGT FYRIR SKIPSTJÓRA OG ÚTGERÐ AÐ FYLGJA FYRIRMÆLUM SÓTTVARNALÆKNIS OG LHG.
Sjá meðfylgjandi hlekki fyrir frekari upplýsingar: