Fréttatilkynning - Nýr kjarasamningur undirritaður

 

 

Nýr kjarasamningur undirritaður

Nýr kjarasamningur á milli Sjómannasambands Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) var undirritaður í dag í húsnæði Ríkissáttasemjara. Samningar á milli aðila hafa verið lausir frá árinu 2019. Árið 2023 var nýr kjarasamningur felldur í atkvæðagreiðslu sjómanna.
Samningaviðræður um nýjan samning hafa staðið yfir síðustu mánuði. Í þeim viðræðum var lögð mikil áhersla á að taka tillit til þeirra athugasemda og gagnrýni sem fram kom í umræðum um samninginn á síðasta ári og hefur það gengið eftir í helstu atriðum.


Nú að lokinni undirritun verða samningarnir kynntir ítarlega fyrir félagsmönnum og að því loknu hefst rafræn atkvæðagreiðsla 12. febrúar kl. 12:00 og lýkur föstudaginn 16. febrúar kl. 15:00

Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambandsins:
„Við erum núna í þeirri stöðu að vera með kjarasamning í höndunum sem við höfum undirritað og er að fara í atkvæðagreiðslu hjá sjómönnum innan okkar félaga. Að mínu mati er þetta góður samningur og við höfum náð að semja um flest þau atriði sem gagnrýnd voru í samningnum sem var felldur í fyrra. Núna eru sjómenn í góðri stöðu til að samþykkja samning sem verður með binditíma í 5 ár og ég vonast eftir því að samningurinn verði samþykktur“.

Breytingar á binditíma, uppsagnarákvæði og fleiri breytingar
Í nýja samningnum er binditími samningsins styttur verulega eða úr 10 árum í 5 ár. Það felur í sér að sjómenn geta sagt samningnum upp eftir 5 ár og svo aftur eftir 7 ár. Þetta er gundvallarbreyting á samningnum.

Önnur mikilvæg breyting er að grein 1.39 í samningnum hefur verið breytt. Tekið er út að samningsbundinn gerðardómur leysi úr ágreiningi sem komið getur upp milli aðila vegna ákvæðisins. Í staðinn skipa samningsaðilar hlutlausa óvinhalla nefnd sem hefur það hlutverk. Ef ekki næst samkomulag um nefndarmenn mun Ríkissáttasemjari koma að skipan nefndarmanna.

Þá má finna mikilvæga breytingu um ísun yfir kör sem fara í gáma til sölu erlendis og verður sú ísun ekki á hendi skipverja nema í neyðartilvikum, samkvæmt nýjum samningi. Útgerðarmenn eiga að semja við löndunargengi á staðnum um að ísa yfir körin sem fara í gámana, eigi skipverjar frí við löndun skv. kjarasamningi. Ef sjómenn sjá um yfirísun sjálfir í neyðartilfellum fár þeir greidda yfirvinnu fyrir.

Í samningunum nú er að finna sambærilegt ákvæði og var í síðasta samningi um að framlag í lífeyrissjóð geti hækkað úr 12,0% í 15,5% en sjómenn hafa þó val um þetta atriði.

Sjómenn fá 400.000 króna eingreiðslu frá útgerðarfyrirtækjum ef samningur verður samþykktur. Þetta er viðbót frá fyrri samningi sem skiptir máli. Kemur til greiðslu 1. mars 2024.

Desemberuppbót kemur inn í samninginn þann 15. desember 2028. Miðað verður við 160 lögskráningardaga á ári.
Nánari upplýsingar um kjarasamningana má finna á vefsvæði Sjómannasambandsins og facebooksíðu sambandsins www.ssi.is og https://www.facebook.com/sjomannasamband

Upplýsingar um samningana gefa:
Hólmgeir Jónsson framkvæmdastjóri Sjómannasambandsins í síma 892-0175
Valmundur Valmundsson formaður Sjómannasambandsins í síma 869-8687