Úrsögn SVG úr Sjómannasambandi Íslands
Á félagsfundi í Sjómanna- og vélstjórafélagi Grindavíkur þann 13. desember síðastliðinn var samþykkt að viðhafa allsherjaratkvæðagreiðslu um úrsögn úr Sjómannasambandi Íslands og Alþýðusambandi Íslands. Atkvæðagreiðslunni lauk þann 28. desember sl. og hafa atkvæði nú verið talin.
Á kjörskrá hjá félaginu voru 541 félagsmaður og af þeim greiddu 114 atkvæði um úrsögnina úr SSÍ eða 21% félagsmanna. Af þeim sem tóku afstöðu samþykktu 107 úrsögn úr Sjómannasambandi Íslands eða 94% þeirra sem greiddu atkvæði. Þrír greiddu atkvæði gegn úrsögn og fjórir seðlar voru auðir eða ógildir. Varðandi úrsögn úr ASÍ var niðurstaðan sú sama.
Það er því niðurstaða þessarar atkvæðagreiðslu að Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur fer úr Sjómannasambandi Íslands og verður því ekki lengur eitt af aðildarfélögum þess.