Viðræðuslit milli SSÍ og SFS.
Upp úr viðræðum milli samtaka sjómanna og útvegsmanna slitnaði á fundi hjá sáttasemjara í gær.
Eftir fund hjá sáttasemjara þann 17. janúar var gert hlé á viðræðunum þar til í gær. Aðildarfélög SSÍ notuðu tímann til að funda með sjómönnum og gera þeim grein fyrir stöðunni. Að mati samninganefndar sjómanna voru samningsaðilar búnir að ræða sig niður á lausnir varðandi frítt fæði, frían vinnu- og hlífðarfatnað og fjarskiptakostnað skipverja.
Út af stóð að útvegsmenn voru ekki tilbúnir til að nálgast lausn varðandi breytingu á skiptaverði vegna lækkunar á olíuverði og eins voru þeir ekki tilbúnir að taka á sig kostnað til að bæta sjómönnum upp afnám sjómannaafsláttarins. Þeir voru hins vegar tilbúnir að koma að viðræðum við stjórnvöld um bætur til sjómanna vegna sjómannaafsláttarins.
Á fundum aðildarfélaga SSÍ með sjómönnum síðustu daga voru skilaboð sjómanna skýr um að ekki ætti að hvika frá kröfunni um breytingu á skiptaverðinu vegna lækkunar á olíuverðinu. Þar sem hvorugur samningsaðila var tilbúinn til að hreyfa sig í þessari megin kröfu sjómanna var deilan þar með komin í hnút. Ríkissáttasemjari sleit því fundi og er annar fundur ekki boðaður í deilunni.