Efnisyfirlit

Lög og þingsköp

I. KAFLI.

Nafn og tilgangur.


1. grein.

Sambandið heitir Sjómannasamband Íslands, kt: 570269-2249 skammstafað SSÍ. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík. Sambandið sem heild er í Alþýðusambandi Íslands.


2. grein.

Sambandið er heildarsamtök sjómanna á landinu og er starfsemi þess í höfuðatriðum þessi:
a) að gangast fyrir stofnun sjómannafélaga.
b) að styðja og styrkja sjómannafélög, efla hagsmunabaráttu þeirra og starfsemi og tryggja að þau séu í sambandinu.
c) að veita þeim sjómannafélögum sem í sambandinu eru, sérhverja þá aðstoð, sem sambandið getur í té látið til eflingar starfsemi þeirra og hindra að gengið sé á rétt þeirra.
d) að gangast fyrir samræmdum aðgerðum sjómannafélaganna við samningsgjörð um kaup og kjör, svo og gagnkvæmum stuðningi félaganna hvert við annað í verkföllum, verkbönnum og hverskonar deilum, enda séu þær deilur viðurkenndar af sambandsstjórn eða hafnar að tilhlutan hennar.
e) að gangast fyrir aukinni fræðslu sjómanna um félagsmál, með því m.a. að gefa út eða stuðla að útgáfu blaða, bóka og ritlinga og að láta flytja í blöðum skýrslur, fréttir, ritgerðir og greinar, er sjómannasamtökin varða á hverjum tíma.
f) að vinna að því, að komið verði fram bættri löggjöf um hagsmunaréttinda-, öryggis- og menningarmál sjómanna.

 

II. KAFLI.

Sambandsfélögin.

3. grein.

Rétt til inngöngu í sambandið eiga öll íslensk sjómannafélög er gangast vilja undir lög þess, svo og sjómannadeildir sem eru í verkalýðsfélögum innan landssambanda sem aðild eiga að ASÍ, þó ekki fleiri en eitt félag eða deild í sömu atvinnugrein á hverjum stað, enda sé félagið ekki í neinu öðru sambandi, sem ekki er í tengslum við A.S.Í
Þá geta verkalýðsfélög, sem í eru sjómenn fengið inngöngu í sambandið að hluta miðað við tölu sjómanna í félaginu þótt ekki sé um beina deildaskiptingu að ræða, enda séu félögin samningsaðilar um kaup og kjör sjómanna.
Ef félag eða deild óskar að ganga í sambandið getur sambandsstjórn veitt félaginu eða deildinni viðtöku til næsta sambandsþings, með sömu réttindum og félög þau eða deildir hafa, sem sambandið hefur samþykkt, en á sambandsþingi skal lagður fullnaðarúrskurður á það mál.


4. grein.

Inntökubeiðni hvers félags eða deildar skal fylgja afrit af lögum félagsins, tilkynning um hverjir skipi stjórn félagsins, skýrsla um félagatal og starfsemi á síðasta ári og síðustu ársreikningar félagsins sem undirritaðir eru af löggiltum endurskoðanda.
Félagi, sem fengið hefur upptöku í sambandið er óheimilt að láta breytingar á lögum sínum koma til framkvæmda fyrr en stjórn Sjómannasambandsins hefur staðfest þær.


5. grein.

Hvert félag sem í sambandinu er, skal skylda meðlimi sína til að fara eftir kaup- og kjarasamningum annarra félaga, sem í sambandinu eru, á þeirra svæðum.


6. grein.

Ekkert félag í sambandinu má hafa sem aðalfélaga mann, sem er fullgildur félagi í öðru félagi innan sambandsins.


7. grein.

Sé vinnudeila yfirvofandi milli sambandsfélags og vinnuveitanda skal félagið þegar í stað tilkynna það sambandsstjórn. Skal sambandsstjórn þá veita félaginu þær leiðbeiningar og þá aðstoð til lausnar deilunni sem stjórnin getur í té látið.
Öll félög innan sambandsins eru skyld til að tilkynna sambandsstjórn það án tafar bréflega eða með símskeyti er þau segja upp gildandi kaup- og kjarasamningum við vinnuveitendur eða breyta töxtum sínum. Á sama hátt skal það tilkynnt þegar félögin boða vinnustöðvun. Félögin skulu senda sambandsstjórn afrit af samningum þeim, sem gerðir eru við vinnuveitendur sem fyrst eftir að þeir eru undirritaðir.

8. grein.

Hvert félag í sambandinu hefur rétt til að skjóta öllum ágreiningsmálum, sem rísa kunna upp í félaginu til sambandsstjórnar. Áfrýja má úrskurði sambandsstjórnar til sambandsþings, en til þess tíma er þing kemur saman, er úrskurður sambandsstjórnar bindandi fyrir félagið.


9. grein.

Rísi ágreiningur milli tveggja eða fleiri félaga í sambandinu, sem þeim tekst eigi að jafna, skal honum skotið til sambandsstjórnar, sem sker úr deilunni svo fljótt sem unnt er. Úrskurður sambandsstjórnar er bindandi fyrir báða aðila, en áfrýja má þeim úrskurði til sambandsþings.


10. grein.

Ákveði eitthvert aðildarfélaga sambandsins að fela því umboð til að fara með kjarasamninga fyrir sína hönd skal sambandsstjórn kjósa samninganefnd sambandsins. Framkvæmdastjórn skal eiga sæti í samninganefnd sambandsins, en sambandsstjórn ákveður að öðru leyti skipan nefndarinnar. Formaður sambandsins skal vera formaður samninganefndar, nema annað sé ákveðið, en að öðru leyti skiptir samninganefndin með sér verkum eftir starfsvettvangi umbjóðenda sinna og skipar undirnefndir, ef þurfa þykir.
Hvert félag, sem í sambandinu er, hefur fullt frelsi um sín innri mál, þó svo að ekki fari í bága við sambandslögin eða löglegar samþykktir sambandsstjórnar eða sambandsþings.


11. grein.

Hvert sambandsfélag skal halda aðalfund einu sinni á ári hverju. Skal þar kosin stjórn, varastjórn og skoðunarmenn í samræmi við lög viðkomandi sambandsfélags. Þar skulu lagðir fram ársreikningar félagsins fyrir næstliðið ár, og skulu þeir vera áritaðir af löggiltum endurskoðanda. Einnig skulu þar teknar ákvarðanir um önnur mál er fyrir fundinum liggja.
Hverju sambandsfélagi er skylt að senda skrifstofu sambandsins árlega ársreikninga félagsins áritaða af löggiltum endurskoðanda og skýrslu um félagafjölda og starfsemi félagsins fyrir næstliðið ár. Ársreikningar og skýrslur skulu berast sambandinu á þeim tíma og í því formi sem lög ASÍ mæla fyrir um.
Telji framkvæmdastjórn bera brýna nauðsyn til að kalla saman félagsfund í einhverju aðildarfélagi sambandsins eða að láta fara fram könnun á vilja félagsmanna um tiltekið málefni sem varðað getur félagsmenn, félagið og sambandið miklu, skal henni það heimilt að höfðu samráði við formann eða stjórn viðkomandi aðildarfélags enda beri sambandið þann kostnað sem til fellur vegna þessa.


12. grein.

Úrsögn úr sambandinu er því aðeins gild að hún hafi verið samþykkt með 2/3 atkvæða að viðhafðri allsherjaratkvæðagreiðslu í félaginu, sem standi yfir í a.m.k. 24 klst samtals.
Atkvæðagreiðslan skal fara fram, ef tillaga þar um hefur verið samþykkt á lögmætum félagsfundi, enda hafi þess verið getið í fundarboði að slík tillaga lægi fyrir.
Allsherjaratkvæðagreiðslan skal fara fram undir stjórn þriggja manna nefndar.
Tveir skulu skipaðir af stjórn félagsins, en þann þriðja tilnefnir sambandsstjórn og er hann formaður nefndarinnar.
Kosningarétt hafa þeir sem eru fullgildir félagar þegar atkvæðagreiðslan hefst. Félag sem ákveðið hefur að fara úr sambandinu, á ekki tilkall til sjóða þess eða annarra eigna.


13. grein.

Sambandsstjórn getur vikið félagi úr sambandinu, ef sakir eru miklar, en næsta sambandsþing skal leggja fullnaðarúrskurð á málið. Félagið missir réttindi meðan fullnaðarúrskurður er ekki upp kveðinn.
Félag sem vikið hefur verið úr sambandinu, á engar kröfur á hendur því, né tilkall til sjóða þess eða annarra eigna.

 

lll. KAFLI.

Fjármál sambandsins.


14. grein.

Hverju aðildarfélagi sambandsins er skylt að greiða til þess árlegan skatt. Skatturinn skal vera ákveðinn hundraðshluti af iðgjaldstekjum félagssjóðs hvers aðildarfélags eða deildar vegna næstliðins almanaksárs. Hundraðshlutinn skal ákvarðaður á þingum sambandsins. Miða skal við umreiknaðar iðgjaldstekjur, þannig að þær jafngildi 1% iðgjaldi í félagssjóð. Sé félag deildaskipt skal miða við iðgjaldstekjur af sjómönnum samkvæmt skiptingu í ársreikningi liggi hún fyrir, en ella skal stuðst við reiknaðar iðgjaldstekjur af sjómönnum samkvæmt 2. mgr. 35. greinar laga ASÍ.
Skatt til sambandsins skal greiða með sem jöfnustum greiðslum fjórum sinnum á ári og greiðist skatturinn fyrirfram fyrir einn ársfjórðung í senn, miðað við gjalddaga 1. janúar, 1. apríl, 1. júlí og 1. október ár hvert. Skatturinn skal áætlaður miðað við síðustu ársreikninga hvers félags og leiðréttist þegar nýir ársreikningar berast. Dragist greiðsla skattsins um mánuð frá gjalddaga reiknast almennir dráttarvextir.
Nýtt félag greiðir skatt á fyrsta ári frá inngöngu í hlutfalli við þann tíma sem eftir er af árinu þegar það hefur verið tekið í sambandið.
Nú greiðir sambandsfélag ekki skatt til sambandsins þrátt fyrir ítrekaðar innheimtutilraunir og skal þá framkvæmdastjórn sambandsins áminna viðkomandi félag. Framkvæmdastjórn getur ákveðið réttindamissi viðkomandi aðildarfélags ef verulegur dráttur verður á skattskilum.


15. grein.

Sambandssjóður SSÍ greiðir kostnað við sambandsþing, fundi sambandsstjórnar og framkvæmdastjórnar svo og kostnað, er sambandið hefur vegna félaganna, sem í því eru, svo sem laun starfsmanna, erindrekstur, húsaleigu, ritfanga- og prentunarkostnað og annan óhjákvæmilegan kostnað.
Ferðakostnað og uppihald fulltrúa á sambandsþing greiða félögin sjálf.


16. grein.

Gjaldkeri sambandsins eða framkvæmdastjóri í umboði hans semur reikninga yfir tekjur og gjöld sjóða þess fyrir hvert almanaksár og skal á vorfundi ár hvert leggja hann endurskoðaðan fyrir sambandsstjórn. Reikningarnir skulu síðan lagðir fyrir reglulegt sambandsþing til fullnaðarafgreiðslu.



IV. KAFLI.

Kosningar til sambandsþinga og fulltrúar.


17. grein.

Hverju sambandsfélagi ber réttur og skylda til þess að láta fara fram kosningu fulltrúa á sambandsþing úr hópi fullgildra félaga sinna. Kosningin fari fram eftir 1. ágúst þau ár sem sambandsþing eru haldin.
Sambandsstjórn SSÍ skal fyrir 1. ágúst á þingári ákveða fjölda þingfulltrúa á komandi þingi. Skal fjölda þingfulltrúa úthlutað af sambandinu miðað við atkvæðamagn hvers aðildarfélags, en þó þannig að hvert aðildarfélag skal eiga rétt á að lágmarki einum þingfulltrúa.
Hvert aðildarfélag telst hafa jafn mörg atkvæði við úthlutun á þingfulltrúum og nemur reiknuðum fjölda ársverka félagsmanna út frá 1% iðgjaldstekjum félagssjóðs félagsins næstliðið ár, sbr. reiknireglu um fjölda ársverka skv. 6. mgr. 29. greinar laga ASÍ, að viðbættum fjölda gjaldfrjálsra í félaginu. Nýtt sambandsfélag telst hafa jafn mörg atkvæði og nemur reiknuðum fjölda út frá 1% iðgjaldstekjum félagssjóðs félagsins næstliðið ár að viðbættum fjölda gjaldfrjálsra í félaginu miðað við stöðuna þegar félagið sótti um inngöngu í sambandið á þingárinu.
Fyrst skal hverju aðildarfélagi úthlutað einum þingfulltrúa. Fundinn er meðalfjöldi atkvæða að baki hverjum þingfulltrúa með því að leggja saman atkvæði allra aðildarfélaganna og deila í þá tölu með heildar fjölda þingfulltrúa sem ákveðinn er skv. 2. mgr. Eftir að hverju félagi hefur verið úthlutað þingfulltrúa skal draga meðalfjölda atkvæða að baki hverjum þingfulltrúa frá atkvæðamagni hvers félags. Ef aðildarfélag á ekki næg atkvæði á móti þingfulltrúanum skal setja atkvæðamagn þess félags jafnt og núll.
Eftir að dregið hefur verið af atkvæðum aðildarfélaganna skv. 4. mgr. skal það félag sem flest atkvæði á fá næsta fulltrúa. Því næst skal taka atkvæðafjölda hvers félags skv. 4. mgr. og deila í atkvæðamagn þess með þeim fjölda úthlutaðra þingfulltrúa sem það hefur fengið og skal það félag sem á flest atkvæði eftir þann útreikning fá næsta fulltrúa. Skal þetta endurtekið þar til öllum þingfulltrúum, skv. ákvörðun sambandsstjórnar, hefur verið úthlutað.
Félög, sem ekki hafa starfað á tímabilinu milli þinga, ekki hafa sent ársreikninga eða skýrslur samkvæmt 11. grein a.m.k. tveimur mánuðum fyrir þing eða hafa vanrækt skattgreiðslur samkvæmt 14. grein hafa ekki rétt til fulltrúa á sambandsþing.

18. grein.

Kosning fulltrúa og varafulltrúa á þing sambandsins skal fara fram skriflega á félagsfundi eða með allsherjaratkvæðagreiðslu.
Kosningarétt og kjörgengi hafa allir félagsmenn, sem eru fullgildir félagar þegar kosningafundur eða allsherjaratkvæðagreiðsla hefst.
Sé kosið á félagsfundi skal hann boðaður með a.m.k. tveggja sólarhringa fyrirvara og kosninganna getið í fundarboði.
Sé viðhöfð allsherjaratkvæðagreiðsla skal kjörstjórn, skipuð þremur mönnum sjá um atkvæðagreiðsluna. Kjörstjórn skal þannig skipuð að stjórn viðkomandi félags tilnefni tvo menn, en stjórn sambandsins skipar þann þriðja og er hann formaður kjörstjórnar. Að öðru leyti skal farið eftir lögum og reglum ASÍ um allsherjaratkvæðagreiðslu eða lögum viðkomandi félags, hafi þau lög verið viðurkennd af sambandsstjórn. Um kosningu til ársfundar ASÍ skal farið eftir lögum og reglum ASÍ.
Sambandsstjórn er heimilt að fyrirskipa allsherjaratkvæðagreiðslu við kosningar fulltrúa og varafulltrúa á sambandsþing.


19. grein.

Kjörtímabil fulltrúa er tímabilið milli reglulegra þinga og má félagið ekki kjósa oftar en einu sinni á kjörtímabilinu nema fulltrúi þess deyi eða missi kjörgengisskilyrði og varafulltrúi sé einnig forfallaður. Er félagsstjórn skylt að tilkynna það sambandsstjórn, sem þá fyrirskipar aukakosningu í félaginu.
Kjósa skal jafnmarga til vara.


V. KAFLI.

Sambandsþing.


20. grein.

Þing sambandsins skal halda annað hvert ár á síðasta ársfjórðungi. Sambandsþing skal boða bréflega með tveggja mánaða fyrirvara.


21. grein.

Aukaþing sambandsins skal halda:
a) Ef sambandsstjórn ákveður.
b) Ef minnst 8 sambandsfélög samþykkja kröfu þar um, enda sé tilgreind ástæða kröfunnar. Skal þá boða aukaþing eigi síðar en einum mánuði eftir að slík krafa berst sambandsstjórn. Aukaþing skal boðað með 4ra vikna fyrirvara.

22. grein.

Sambandsþing samþykkir sjálft fundarsköp og skal fundum þess stjórnað samkvæmt þeim.
Á þinginu skulu tekin fyrir þau mál er þurfa þykir og sambandið varða.
Eftirfarandi mál skulu afgreidd þar:
1. Bornir upp til samþykktar reikningar sambandsins fyrir tvö síðustu ár.
2. Samþykkt fjárhagsáætlun fyrir næstu tvö ár.
3. Ákveðinn skattur sambandsfélaga fyrir næstu tvö ár.
4. Kosin sambandsstjórn og varastjórn.
5. Kosnir tveir skoðunarmenn og einn til vara.

Kosningar skulu gilda til tveggja ára uns næsta reglulega sambandsþing kemur saman.


23. grein.

Í öllum málum á þinginu ræður einfaldur meirihluti atkvæða úrslitum, ef ekki er öðruvísi ákveðið í lögum þessum.
Atkvæðagreiðslur á þingi skulu vera skriflegar ef sambandsstjórn eða minnst 8 fulltrúar krefjast þess.
Sambandsstjórn eða minnst 8 fulltrúar geta krafist allsherjaratkvæðagreiðslu um mál, er miklu þykir skipta, þó ekki um lagabreytingar, og hefur þá hver fulltrúi jafnmörg atkvæði og félagsmannatölu þeirri nemur, sem hann er fulltrúi fyrir. Fer slík atkvæðagreiðsla fram með nafnakalli.


24.grein.

Sambandsþing hefur æðsta vald í öllum málum sambandsins. Þingið er lögmætt, ef það er löglega boðað. Þingfundur er lögmætur þegar fullur helmingur þingfulltrúa er á þingi.

 

VI. KAFLI.

Sambandsstjórn.


25. grein.

Stjórn sambandsins skal kosin á reglulegu sambandsþingi til tveggja ára í senn. Stjórnina skipa 17 menn og skal hún kosin þannig að fyrst er kosinn formaður, næst varaformaður, þarnæst ritari og síðast gjaldkeri og svo hinir 13 í einu lagi. Kjósa skal 8 menn til vara.
Enginn er löglega kosinn í stjórn sambandsins nema hann fái helming greiddra atkvæða.
Sambandsstjórn skiptir sjálf með sér verkum.
Formaður, varaformaður, ritari og gjaldkeri, ásamt þremur meðstjórnendum, sem valdir eru af stjórn, skipa framkvæmdastjórn sambandsins.
Framkvæmdastjórn stjórnar daglegri starfsemi sambandsins með aðstoð framkvæmdastjóra þess og í samræmi við ákvarðanir sambandsstjórnar og sambandsþings. Framkvæmdastjórn skal gefa sambandsstjórn ítarlega skýrslu um störf sín eigi sjaldnar en á reglulegum fundum hennar.
Fundi í framkvæmdastjórn skal halda svo oft sem þörf krefur og að jafnaði einu sinni í mánuði. Fundir framkvæmdastjórnar eru lögmætir ef meirihluti framkvæmdastjórnarmanna eru mættir til fundarins.
Fundi í sambandsstjórn skal halda svo oft sem þörf krefur og að jafnaði eigi sjaldnar en tvisvar á ári.
Einu sinni á ári, á síðasta ársfjórðungi þau ár, sem sambandsþing er ekki, skulu formenn sambandsfélaga halda með sér formannaráðstefnu. Meginverkefni formannaráðstefnu er að fjalla um kjara- og atvinnumál.
Ef ástæða þykir til, getur framkvæmdastjórn boðað til formannaráðstefnu eins oft og nauðsynlegt verður talið.
Viðhafa skal allsherjaratkvæðagreiðslu á slíkum fundum ef minnst helmingur atkvæðisbærra fundarmanna óskar þess, og hefur þá hver formaður atkvæði í samræmi við fjölda félagsmanna í viðkomandi félagi.
Þeir sambandsstjórnarmenn, sem ekki eru formenn félaga, hafa seturétt, málfrelsi og tillögurétt á formannaráðstefnum. Sama gildir um stjórnarmenn aðildarfélaga.
Falli formaður frá á kjörtímabilinu eða missi kjörgengisskilyrði, skal varaformaður taka sæti hans, en sambandsstjórn velur úr sínum hópi nýjan varaformann.
Sambandsstjórn fer með málefni sambandsins milli þinga.


26. grein.

Hver sambandsstjórnarmaður hefur rétt til að sitja félagsfundi og stjórnarfundi í öllum félögunum, sem í sambandinu eru, með fullu málfrelsi og tillögurétti.
Sama rétt og sambandsstjórnarmenn hafa framkvæmdastjórar sambandsins, erindrekar þess og umboðsmenn í þessu efni.


27. grein.

Sambandsstjórn hefur á milli þinga æðsta vald í öllum málefnum sambandsins, og ber hverju félagi í sambandinu og hverjum þeim, er trúnaðarstarfi gegnir fyrir sambandið, að hlýða fyrirmælum hennar og úrskurðum, en rétt hefur hvert félag og einstaklingar til að skjóta ágreiningsmálum sínum við sambandsstjórn til sambandsþings, sem þá fellir fullnaðarúrskurð í málinu.
Sambandsstjórn, eða framkvæmdastjórn í umboði hennar, getur skuldbundið sambandið, nema annað sé tekið fram í lögum þessum. Framkvæmdastjórn er ábyrg fyrir fjármunum sambandsins og allri meðferð þeirra.

 


28. grein.

Lögum sambandsins má breyta á reglulegu sambandsþingi. Skulu jafnan hafðar tvær umræður um lagabreytinar og telst breyting ekki samþykkt nema 2/3 atkvæða á lögmætum þingfundi samþykki hana.
Tillögur til breytinga á lögunum, sem aðrir bera fram en sambandsstjórn, skal senda henni ekki síðar en mánuði fyrir sambandsþing.

 

 

 


Lögunum þannig breytt á 26. þingi SSÍ 4. til 5. desember 2008.

 

 



ÞINGSKÖP FYRIR SSÍ

 

1. ÞINGSKIPUN, AFGREIÐSLA KJÖRBRÉFA.


1.1 Þegar þing Sjómannasambands Íslands kemur saman við þingsetningu, skal formaður sambandsins setja þing og stjórna þingfundi þangað til forseti þingsins er kosinn og standa fyrir kosningu hans.


1.2 Formaður SSÍ skipar tvo ritara, þar til ritarar skv. gr. 2.1 hafa verið kjörnir. Skyldur skipaðra ritara eru þær sömu og kjörinna. Þá er framkvæmdastjórn SSÍ einnig heimilt að ráða ritara til ritunar þingfundargerðar auk hinna kjörnu ritara.


1.3 Formaður SSÍ skipar svo marga menn sem hentugt þykir til talningar atkvæða ef til atkvæðagreiðslu kemur um kjörbréf.


1.4 Formaður SSÍ skal í samráði við framkvæmdastjórn skipa 3ja manna kjörbréfanefnd það löngu fyrir þing, að hún hafi lokið athugunum sínum á kjörbréfum þegar þing kemur saman.
Þegar að þingsetningu lokinni og þingfundur er löglegur, þ.e. meira en helmingur þeirra fulltrúa er skilað hafa kjörbréfum, er mættur til fundar, skilar kjörbréfanefnd áliti sínu.
Framsögumaður kjörbréfanefndar gerir grein fyrir tillögum hennar til þingsins um hvort kosning og kjörgengi þingfulltrúa, aðalmanna, eða varamanna í þeirra stað, skuli talin gild.
Tillögur kjörbréfanefndar ber formaður SSÍ upp munnlega.


1.5 Einfaldur meirihluti atkvæða ræður um afgreiðslu kjörbréfa og verður kjörbréf, sem samþykkt hefur verið, eigi ónýtt enda gildir það út kjörtímabilið.
Minnst 5 þingfulltrúar geta skriflega krafist leynilegrar atkvæðagreiðslu um einstök kjörbréf.


1.6 Þingfulltrúar með kjörbréf, sem eigi er ágreiningur um, hafa full réttindi um afgreiðslu eigin kjörbréfa.

 

1.7 Þingfulltrúar geta samþykkt frestun á afgreiðslu einstakra kjörbréfa sé talin þörf á nánari athugun á þeim enda séu færð rök fyrir því áliti.
Hlutaðeigandi þingfulltrúar skulu ekki taka þátt í þingstörfum á meðan athugun á kjörbréfum þeirra fer fram og þar til afgreiðslu á kjörbréfum þeirra er lokið. Sama gildir um fulltrúa nýrra félaga, sbr. gr. 1.11.


1.8 Kjörbréfanefnd er skylt að starfa frá því hún er skipuð og þar til ný nefnd er skipuð vegna næsta þings.


1.9 Nú hamla ytri aðstæður (t.d. samgöngur, veikindi) því, að kjörbréf berist skrifstofu SSÍ það tímanlega að þau fái umsögn skv. gr. 1.4, og skal kjörbréfanefnd þá fjalla um þau strax og við verður komið og þingið síðan afgreiða kjörbréfin, viðurkenni það ástæður fyrir töfunum.


1.10 Kjörbréf sem þingið hefur ákveðið með atkvæðagreiðslu að taka ekki gild, verða eigi borin upp til atkvæða eða tekin til umræðu aftur á sama þingi.


1.11 Þegar kjörbréf hafa verið afgreidd skal formaður SSÍ leggja fyrir inntökubeiðni nýrra félaga.
Fyrir skal liggja umsögn og bráðabirgðaafgreiðsla framkvæmdastjórnar um umsóknina. Verði umsóknin samþykkt, skulu kjörbréf fulltrúa félagsins/félaganna þegar tekin til afgreiðslu.


1.12 Þingstjórn getur takmarkað aðgang að þingsal með því að gefa út sérstök aðgönguskírteini og að ákveða að þeim einum er hafa slík skírteini, skuli heimill aðgangur.
Skírteinishafar geta verið þingfulltrúar, starfsmenn þingsins, sérstakir gestir þess og starfslið þinghússins, svo og fréttamenn ef þingið ákveður að það skuli opið fréttamönnum.

 


2. KOSNING FORSETA ÞINGSINS OG RITARA OG VERKSVIÐ ÞEIRRA.


2.1 Kjósa skal forseta þingsins, og einn varaforseta.
Fyrst skal kjósa forseta þingsins og tekur hann þegar er hann hefur verið kjörinn við stjórn þingsins og gengst fyrir kosningu varaforseta og tveggja ritara.
Rétt kjörinn forseti þingsins er sá er hefur meira en helming greiddra atkvæða þeirra er á fundi eru.
Verði þeim atkvæðafjölda ekki náð við fyrstu kosningu skal kjósa að nýju um þá tvo þingfulltrúa sem flest atkvæði hlutu í fyrri umferð og ræður hlutkesti ef þeir sem til greina koma hafa hlotið jafnmörg atkvæði við fyrri umferð. Sá verður forseti þingsins sem fleiri atkvæði fær við síðari atkvæðagreiðslu.
Fái báðir jafnmörg atkvæði ræður hlutkesti hvor verður forseti þingsins.
Sömu reglu skal fylgt við kosningu varaforseta.
Kjósa skal tvo ritara. Við kosningu ritara ræður atkvæðafjöldi.


2.2 Forseti þingsins stjórnar þingfundi og sér um að allt fari fram með góðri reglu. Hann tekur við öllum erindum til þingsins og skýrir frá þeim og sér um að þeim sé dreift til þingfulltrúa.
Forseti þingsins skal þegar kosningu starfsmanna þingsins er lokið, sjá til þess að þingið ákveði, að fengnum tillögum framkvæmdastjórnar SSÍ, hvort þinghald skuli opið fyrir fréttamenn.


2.3 Vilji forseti þingsins taka þátt í umræðum frekar en staða hans sem forseta krefur, þá víkur hann forsetasæti, en varaforseti tekur forsetasæti á meðan.
Forseti þingsins hefur sama rétt og aðrir þingfulltrúar til að greiða atkvæði.


2.4 Forseti þingsins og varaforseti skipta milli sín fundarstjórn eftir því sem hentar, en forseti þingsins ber aðalábyrgð á að þingstörf fari fram með eðlilegum hætti.


2.5 Ritarar halda gerðabók og geta í henni allra mála, er rædd eru á þingfundum, hverjir kveðja sér hljóðs um þau svo og úrslit þeirra. Allar ályktanir þingsins skulu skráðar í gerðabókina og skal hún að þingi loknu undirrituð af öllum forsetum þingsins og riturum. Ritarar skulu starfa í nánu samstarfi við forseta þingsins. Komi upp ágreiningur milli þeirra, sker þingforseti úr honum.
Ritarar skrá atkvæði við atkvæðagreiðslur og kosningar.
Sömuleiðis sjá þeir með þingforseta um að öll skjöl, sem dreift er til þingfulltrúa séu skrásett í töluröð og skal þess getið í gerðabók.
Störfum skipta ritarar á milli sín eftir samkomulagi sín á milli og við forseta þingsins.
Heimilt er framkvæmdastjórn að ráða ritara, kjörnum riturum til aðstoðar. Þingstjórn skal staðfesta ráðninguna.


2.6 Forseti þingsins skipar menn til að dreifa atkvæðaseðlum.
Þá skipar forseti þingsins teljara úr hópi þingfulltrúa svo sem honum þykir þurfa á hverjum tíma.


2.7 Allt talað orð á þinginu skal hljóðrita í umsjón þingforseta. Upptökurnar skal varðveita á skrifstofu SSÍ í 5 ár, en eftir það skulu þær afhentar Sögusafni verkalýðshreyfingarinnar til úrvinnslu fyrir safnið.

 

3. NEFNDIR


3.1 Á þingum starfa nefndir. Þær skulu allar kjörnar á þinginu nema kjörbréfanefnd sbr. gr. 1.4 og nefndanefnd sbr. gr. 3.2. Þingstjórn er skipuð forsetum þingsins, formanni og varaformanni SSÍ.
Forfallist formaður eða varaformaður velur framkvæmdastjórn fulltrúa úr sínum hópi í þingstjórnina.
Þingstjórn undirbýr þingfundi með því að semja dagskrá. Lengd þingfunda markast af dagskrá hverju sinni.
Einfaldur meirihluti þingsins getur breytt ákvörðunum þingstjórnar.


3.2 Sambandsstjórn skal hafa lokið kosningu 5 manna í nefndanefnd, áður en þingfundur hefst, er geri tillögur til þingsins um starfsnefndir, fjölda í hverri nefnd og hvaða þingfulltrúar taki þar sæti.


3.3 Á hverju reglulegu þingi skal kjósa eftirtaldar nefndir:
a) Kjara- og atvinnumálanefnd með eigi færri en 15 fulltrúum.
b) Öryggis- og tryggingamálanefnd með eigi færri en 10 fulltrúum.
c) Fjárhagsnefnd með eigi færri en 5 fulltrúum.
d) Laganefnd með eigi færri en 5 fulltrúum, ef tillögur um lagabreytingar liggja fyrir þinginu.
e) Allsherjarnefnd með eigi færri en 5 fulltrúum.
f) Uppstillingarnefnd með 5 fulltrúum og hvorki fleiri né færri.
g) Aðrar nefndir sem þingið ákveður.


3.4 Tillögur nefndanefndar og uppstillingarnefndar svipta ekki einstaka þingfulltrúa tillögurétti um menn í nefndir eða stjórn.
Kosning nefnda er bundin við tilnefningu og fer fram skriflega. Séu eigi fleiri tilnefndir en kjósa skal, þá eru nefndarmenn sjálfkjörnir.


3.5 Sá sem flest atkvæði fær í nefnd eða er fyrst tilnefndur í uppstillingu, ef nefnd er sjálfkjörin, kveður nefndina saman til fyrsta fundar og stjórnar kosningu formanns hennar.
Formaður lætur síðan kjósa ritara.
Nefndin velur sér framsögumann.


3.6 Verksvið nefnda eru:
a) Kjara- og atvinnumálanefnd fjallar um kjara- og atvinnumál og gerir tillögur um stefnu SSÍ í þeim næsta kjörtímabil einnig fjallar hún um stöðu atvinnumála í þeim atvinnugreinum, þar sem félagsmenn SSÍ starfa og mótun stefnu í þeim greinum.
b) Öryggis- og trygginganefnd fjallar um öryggis- og tryggingamál sjómanna og gerir tillögur um úrbætur í þeim efnum.
c) Fjárhagsnefnd skal gera tillögur að fjárhagsáætlun fyrir næsta kjörtímabil og tillögur um skatt sambandsfélaga til SSÍ.
d) Laga- og skipulagsnefnd skal fjalla um lagabreytingar liggi þær fyrir þinginu.
e) Til allsherjarnefndar skal vísa málum sem ekki falla undir verksvið annarra nefnda.
f) Uppstillingarnefnd skal gera tillögur um stjórn SSÍ og skoðunarmenn fyrir næsta kjörtímabil.


3.7 Þingið stofnar aðrar nefndir gefist tilefni að mati þess.
Nefnd má skipa á hvaða stigi máls sem er, enda sé það gert áður en umræðum um viðkomandi mál er lokið og skal umræðum þá frestað þar til nefndin hefur lokið störfum.
Sömu reglur gilda um starfshætti hjá slíkum nefndum og öðrum þingnefndum.


3.8 Nefndir skila áliti/álitum sínum til þingsins og skal því/þeim dreift skriflega til þingfulltrúa.
Sé eigi eining um niðurstöðu nefndar skulu þeir sem að séráliti standa, skipa sér framsögumann/menn og hefur hann/þeir sama rétt og framsögumaður meirihluta við umræður á þingfundum.

 


4. UMRÆÐUR


4.1 Hver þingfulltrúi sem taka vill til máls skal óska heimildar þingforseta.
Forseti þingsins tilkynnir í upphafi þings hvernig þingfulltrúar skulu bera sig að, óski þeir að taka til máls.
Ef tveir eða fleiri þingfulltrúar kveðja sér hljóðs samtímis, ákveður forseti þingsins í hvaða röð þeir tala.
Ræðumaður skal jafnan víkja ræðu sinni til forseta þingsins og þingheims.


4.2 Að jafnaði skulu þingfulltrúar taka til máls í þeirri röð sem þeir beiðast þess.
Forseti þingsins getur vikið frá þeirri reglu ef um er að ræða formann SSÍ, framsögumenn svo og að þingfulltrúi geti gert stutta leiðréttingu eða athugasemd, er snertir sjálfan hann eða til að bera af sér sakir.


4.3 Þingfulltrúi skal ávallt mæla úr ræðustól. Þó er þingforseta heimilt að leyfa þingfulltrúa að koma með stuttar fyrirspurnir og athugasemdir úr sæti.


4.4 Þegar flutt er skýrsla stjórnar, hefur formaður, eða sá sem skýrsluna flytur, ótakmarkaðan ræðutíma. Hann má síðan taka til máls svo oft sem hann óskar undir þeim dagskrárlið, allt að 10 mínútur í senn.
Framsögumenn dagskrármála þingsins, svo og framsögumenn meiri- og minnihluta nefnda, hafa 15 mínútur til framsögu og mega síðan taka til máls í umræðum tvisvar sinnum, allt að 10 mínútur í senn.
Aðrir mega ekki tala oftar en tvisvar við sömu umræðu um sama mál.
Hámarksræðutími annarra en framsögumanna í framsöguræðu er 10 mínútur, en þingið getur hvenær sem er ákveðið að ræðutími skuli vera styttri, þó aldrei styttri en 3 mínútur.
Jafnan er þó heimilt að gera stutta athugasemd um atkvæðagreiðslu, þingstjórn eða þingsköp.


4.5 Ef forseti þingsins telur umræðu dragast úr hófi fram, getur hann lagt til að ræðutími framsögumanns meiri- eða minnihluta nefndar, sbr. gr. 4.4 verði eigi lengri en 5 mínútur.
Þá getur forseti þingsins hvenær sem er lagt til að umræðum skuli lokið á ákveðnum tíma.
Þingheimur afgreiðir tillögur forseta þingsins í þessu efni umræðulaust.
Þingfulltrúar, fæst 5, geta borið fram slíkar tillögur og skulu þær einnig afgreiddar umræðulaust.


4.6 Eigi má, nema með leyfi forseta þingsins, lesa upp prentað mál.


4.7 Skylt er þingfulltrúa að lúta valdi forseta þingsins í hvívetna er lýtur að því að gætt sé góðrar reglu.
Láti þingfulltrúi, sem vikið hefur frá góðri reglu, eigi segjast, skal forseti þingsins víta hann og nefna til ástæður.
Ef þingfulltrúi er víttur tvisvar á sama þingfundi, getur forseti þingsins lagt til við þingheim að hann verði sviptur málfrelsi það sem eftir lifir þingfundarins. Skal sú tillaga afgreidd umræðulaust.

 


5. TILLÖGUR OG ATKVÆÐAGREIÐSLA.


5.1 Þingfulltrúar geta borið fram tillögur um hvert það mál sem þeir óska eftir að tekið sé til umræðu og afgreiðslu á þingi sambandsins, enda hafi þeir sent tillögur þar að lútandi til skrifstofu SSÍ a.m.k. 3 vikum fyrir þing.


5.2 Allar tillögur skulu vera skriflegar og undirritaðar af flutningsmönnum. Enga tillögu er hægt að taka til umræðu fyrr en forseti þingsins hefur lýst henni.
Forseti þingsins gerir tillögur um í hvaða starfsnefnd þingsins tillögur skuli ræddar.


5.3 Sé fleiri en einn flutningsmaður að tillögu, getur hver þeirra dregið sig til baka af tillögunni í heyranda hljóði.
Fari svo að flutningsmaður/flutningsmenn dragi tillögu í heild sinni til baka, getur hver sem er úr hópi annarra þingfulltrúa gert slíka tillögu að sinni í heyranda hljóði á sama þingfundi og undirritað hana síðan til staðfestingar.


5.4 Ákvæði greinar 5.3 gilda ekki um tillögur þær sem tilskilinn fjölda flutningsmanna þarf sbr. greinar 1.5, 4.5, 5.15 og 6.3.


5.5 Allar tillögur um mál þingsins sem koma fram við fyrri umræðu, skal eftir þá umræðu taka til umfjöllunar í nefnd þeirri sem máli hefur verið vísað til.
Við síðari umræðu skal forseti þingsins bera tillögur upp í þeirri röð sem hann ákveður.
Séu fleiri en ein tillaga í sama máli, skal þó fyrst bera upp þá tillögu sem lengst gengur.


5.6 Engar tillögur um þingmál er hægt að bera upp til atkvæða nema þeim hafi verið dreift skriflega til þingfulltrúa.


5.7 Breytingartillögu skal bera upp á undan aðaltillögu.
Breytingartillögu sem kollvarpar eða breytir aðaltilgangi annarrar tillögu má forseti þingsins ekki taka til greina né breytingartillögu við breytingartillögu, en því áliti sínu skal hann lýsa fyrir þingheimi.


5.8 Drög að ályktun sem þingnefnd sendir frá sér til síðari umræðu, telst ekki breytingartillaga, heldur aðaltillaga.
Óski þingfulltrúar að taka ákvæði í drögum að ályktunum frá fyrri umræðu upp við síðari umræðu um málið verða þeir að gera það með tillögum í eigin nafni.


5.9 Forseta þingsins er heimilt að bera tillögu upp í tveimur eða fleiri liðum en þó því aðeins að hver liður sé sjálfstæður og að skiptingin geri tillöguna ekki óljósa.


5.10 Tillögu, sem hefur verið felld, má ekki bera upp á sama þingfundi.
Með samþykki minnst 2/3 hluta atkvæða þingfulltrúa má þó taka málið upp á ný síðar á þinginu, enda séu 3/4 hlutar þingfulltrúa, þeirra sem eigi hafa boðað forföll til forseta þingsins, viðstaddir á þingfundi þegar slík tillaga er tekin til afgreiðslu.


5.11 Ákvæði greinar 5.10 eiga ekki við um afgreiðslu kjörbréfa.


5.12 Efnislegar tillögur eru þessar:
1) Aðaltillaga.
2) Breytingartillaga.
3) Viðaukatillaga.


5.13 Við atkvæðagreiðslu skal fyrst bera upp breytingartillögu við aðaltillögu.
Síðan skal bera upp aðaltillögu með áorðnum breytingum, hafi breytingartillögur verið samþykktar. Að öðrum kosti er aðaltillaga borin upp í upphaflegri mynd.
Þá skal bera upp viðaukatillögur.
Að lokum skal bera upp aðaltillöguna eins og hún er endanlega orðin, hafi viðaukatillögur verið samþykktar.
Tillaga telst felld á jöfnum atkvæðum.


5.14 Forgangstillögur eru eftirfarandi og í þessari röð:
1) Tillaga um að ganga þegar til atkvæða, sbr. þó grein 4.5.
2) Tillaga um að vísa máli frá.
3) Tillaga um að taka fyrir næsta mál á dagskrá.
4) Tillaga um að fresta máli.
5) Tillaga um að vísa máli til annars valds.
Tillögur undir 1. tölulið má ekki ræða.
Um tillögur undir 2., 3. og 4. tölulið má gera stuttar athugasemdir.
Um tillögur undir 5. tölulið má gera stuttar athugasemdir en um málið sjálft gilda sömu reglur og um önnur efnisleg mál sem koma fyrir þingið.


5.15 Atkvæðagreiðsla um tillögur fer fram með handauppréttingu.
Leynileg atkvæðagreiðsla fer fram ef þess er óskað skriflega af minnst 8 þingfulltrúum eða sambandsstjórn.
Allsherjaratkvæðagreiðslu getur sambandsstjórn eða minnst 8 þingfulltrúar krafist og þá skriflega um mál er miklu þykja skipta að dómi þingstjórnar, þó ekki um lagabreytingar, og hefur þá hver þingfulltrúi jafn mörg atkvæði og félagsmannatölu þeirri nemur, sem hann er fulltrúi fyrir sbr. 23. gr. laga SSÍ. Fer slík atkvæðagreiðsla fram með nafnakalli.


5.16 Engar atkvæðagreiðslur geta farið fram um tillögur nema á þingfundi sé staddur minnst helmingur þingfulltrúa sem ekki hafa boðað forföll til þingforseta, sbr. þó grein 5.10.
Fari svo, þegar atkvæðagreiðsla skal fara fram á þingfundi um tillögur, að ekki sé viðstaddur tilskilinn fjöldi þingfulltrúa skv. 1. málsgrein þessarar greinar, þá skal atkvæðagreiðslan fara fram á næsta löglegum þingfundi.


5.17 Forseti þingsins skipar úr hópi þingfulltrúa svo marga teljara sem þykir henta til talningar atkvæða. Starfsmenn þingsins skulu dreifa atkvæðaseðlum og aðstoða teljara við talningu.
Jafnan skulu teljarar vera skipaðir úr hópum andstæðra fylkinga á þingfundum.


5.18 Breyting á lögum telst ekki samþykkt nema hún hljóti 2/3 hluta atkvæða á þingfundi, sbr. 28 gr. laga SSÍ.

 


6. KOSNINGAR.


6.1 Kosningar á sambandsþingi í trúnaðarstöður skulu vera leynilegar ef fleiri eru í kjöri en kjósa á.


6.2 Í öllum málum ræður einfaldur meirihluti, þó með eftirfarandi undantekningum:
a) Enginn er löglega kosinn í stjórn sambandsins, nema hann fái a.m.k. helming greiddra atkvæða.
b) Ákvæði um kjör þingforseta sbr. grein 2.1
c) Lagabreytingar, sbr. grein 5.18.


6.3 Komi eigi fram uppástungur um fleiri en kjósa skal, eru þeir sjálfkjörnir.
Enginn er í kjöri nema hann gefi sjálfur samþykki sitt.


6.4 Þegar meirihluta greiddra atkvæða er krafist við kosningar í trúnaðarstöður, og það atkvæðamagn fæst ekki í fyrstu umferð skal kosið að nýju um þá sem ekki náðu kosningu.
Verði kosningu þá heldur ekki lokið, skal kjósa um þá sem flest atkvæði fengu en ekki náðu kosningu í annarri umferð, þannig að tveir séu í kjöri um hvert sæti.
Ef tveir eða fleiri fá jafnmörg atkvæði, ræður hlutkesti úrslitum.
Sé á þingi stungið upp á mönnum í trúnaðarstöður sem eigi sitja það en eru engu að síður kjörgengir verða slíkar tilnefningar eigi teknar til greina nema fyrir liggi staðfest yfirlýsing þess sem tilnefndur er um að hann taki kjöri.


6.5 Atkvæðaseðill er ógildur, ef á honum eru nöfn manna, sem ekki eru í kjöri, eða ef ekki eru greidd atkvæði jafnmörgum mönnum og kjósa á.
Auður seðill telst ekki til greiddra atkvæða.


6.6 Áður en kosningar hefjast skal forseti þingsins tilkynna að nú verði gengið til kosninga.
Eftir hæfilegan umþóttunartíma svo þingfulltrúar geti gengið til sæta sinna, skal dyrum þingsalar lokað og dyraverðir settir við allar dyr, og tilkynnir þá forseti þingsins, að dreifing atkvæðaseðla hefjist og um leið ber dyravörðum að sjá til þess að enginn gangi út eða inn í þingsalinn þar til forseti þingsins hefur lýst yfir að kosningu sé lokið, atkvæðaseðlum hafi öllum verið safnað saman og athugasemdir ekki komið fram um framkvæmd kosningarinnar.


6.7 Um leið og talningu atkvæðaseðla við hverja atkvæðagreiðslu er lokið og skýrsla um niðurstöðu hennar, undirrituð af öllum talningamönnum, hefur verið færð forseta þingsins, skulu atkvæðaseðlarnir innsiglaðir í traustum kassa og geymast þar til þingforseti hefur tilkynnt þingfulltrúum úrslit.
Komi ekki fram skrifleg krafa minnst 10 þingfulltrúa um endurtalningu atkvæða þegar eftir tilkynningu forseta þingsins, verður krafa um endurtalningu ekki tekin til greina.
Fyrir lok þings skal forseti þingsins sjá til þess að atkvæðaseðlar séu eyðilagðir.


6.8 Kjörgengir í trúnaðarstöður Sjómannasambands Íslands eru allir fullgildir félagsmenn í aðildarfélögum SSÍ. (Við kosningu í trúnaðarstöður skal þess ávallt gætt að viðkomandi hafi hagsmunatengsl við sjómenn).

 


7. AFGREIÐSLA OG BREYTING ÞINGSKAPA.


7.1 Einfaldur meirihluti greiddra atkvæða ræður um afgreiðslu þingskapa.


7.2 Komi fram tillögur um þingstjórn eða meðferð þingmála sem þessi þingsköp ná ekki til, skal forseti þingsins úrskurða um meðferð og verður þeim úrskurði ekki hnekkt nema með samþykki 3/4 hluta þingfulltrúa á lögmætum þingfundi.