14. desember 2016

Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar um kjarasamninginn

Atkvæðagreiðslu um kjarasamninginn milli Sjómannasambands Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi lauk kl. 12:00 á hádegi í dag.

Aðild að samningnum eiga öll aðildarfélög Sjómannasambands Íslands að Sjómanna- og vélstjórafélagi Grindavíkur og Verkalýðsfélagi Vestfirðinga undanskildum.

 Á kjörskrá voru 1.098 sjómenn og af þeim kusu 743 eða 67,7%. 

 Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar var þessi:

Já sögðu 177 eða 23,82% af þeim sem kusu.

Nei sögðu 562 eða 75,64% af þeim sem kusu.

Auðir seðlar voru 4 eða 0,54%

Samkvæmt framansögðu var því samningurinn felldur með meiri hluta greiddra atkvæða. Verkfall hefst því kl. 20:00 í kvöld (14. desember).

2. desember 2016

Fundur í Úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna.

Á fundi Úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna í dag var ákveðið að lækka viðmiðunarverð á óslægðum þorski og slægðri og óslægðri ýsu um 5% og viðmiðunarverð á slægðum og óslægðum ufsa um 3,7%. Verðlækkunin tekur gildi frá og með 2. desember 2016.

1. desember 2016

Auglýsingar frá SFÚ.

Samtök fiskvinnslu og útflutnings (SFÚ) auglýsa þessa dagana mikið eins og líklega hefur ekki farið fram hjá mörgum. Inntak auglýsinga þeirra er að samtökin þurfi að greiða markaðsverð fyrir fiskinn, en útgerðin fái hann aðein á 80% af markaðsverði í boði sjómanna. Ekki er alveg ljóst hver tilgangur þessara auglýsinga er, en þetta eru sömu samtök og sendu frá sér eftirfarandi í ályktun frá aðalfundi samtakanna árið 2014:

"SFÚ telur mikilvægt að skiptaverð verðlagsstofu gildi um uppgjör við sjómenn hvort sem um er að ræða bein viðskipti með fisk eða sölu á markaði.........."

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem andar köldu frá þessum samtökum í garð sjómanna. Ástæða þess er hins vegar ekki vituð enda erfitt að taka mark á samtökum sem haga sér með þessum hætti.

19. nóvember 2016

Kjarasamningur milli SSÍ og SFS frá 14. nóvember og viðbót 18. nóvember 2016

Kjarasamningur milli SSÍ og SFS var undirritaður þann 14. nóvember síðastliðinn og viðauki þann 18. nóvember þar sem 12. grein um veikinda- og slysarétt í skiptimannakerfi er felld brott og sett í bókun. Að kjarasamningnum standa öll aðildarfélög SSÍ að Verkalýðsfélagi Vestfirðinga og Sjómanna- og vélstjórafélagi Grindavíkur undanskildum. Samhliða undirritun kjarasamningsins þann 14. nóvember síðastliðinn var verkfalli þeirra aðildarfélaga SSÍ sem að samningnum standa frestað frá kl. 20:00 þann 15. nóvember til kl. 20:00 þann 14. desember næstkomandi.

Kjarasamningurinn er nú í atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna þeirra félaga sem standa að samningnum og er hægt að kjósa um samninginn hér fyrir neðan auk þess sem hægt er að nálgast samninginn á pdf formi ásamt kynningarefni. Atkvæðagreiðslan stendur til kl. 12:00 þann 14. desember.

 

Kjarasamningurinn

Kynningarefni

Kjósa hér

 

19. nóvember 2016

30. þing Sjómannasambands Íslands

30. þing Sjómannasambands Íslands var haldið dagana 24. og 25. nóvember 2016 á Grand Hóteli Reykjavík. Ályktanir þingsins eru undir ályktanir.